Thursday, November 13, 2014

... og svo San Antonio auðvitað


Við sögðum ykkur frá því hérna fyrir nokkrum dögum að Flóamenn í Golden State væru að gera sig breiða og hóta því að vera með í titilbaráttu. Við töluðum líka fallega um Clippers nokkrum sinnum í upphitunum fyrir tímabilið, enda er þar á ferðinni vel mannað lið með metnað. Öll vitum við svo að Oklahoma hefur lengi staðið á þröskuldi stórræða, þó alltaf skuli meiðsli setja þar strik í reikninginn.

Þetta mjálm allt saman þýðir þó ekki að við séum búin að gleyma San Antonio Spurs, meisturunum sjálfum. Ekki aldeilis. Við erum löngu hætt að láta þá svartklæddu gera okkur að fíflum og vonum að þið gerið slíkt hið sama.

Þetta hefur ekki verið sérstaklega gott haust hjá Spurs. Leikmenn liðsins og höfðingi þess Gregg Popovich hafa viðurkennt það að þeir þjáist af dálítlum titils-timburmönnum og ef eitthvað lið á síðustu áratugum mátti "detta aðeins í það" eftir að vinna meistaratitil, var það þetta San Antonio lið.

Við erum enn ekki farin að fatta hvernig í ósköpunum stóð á því að þetta lið náði að rífa sig upp úr þungbærasta tapi síðari ára í lokaúrslitum, sleikja sárin, safna liði og vinna titilinn árið á eftir.

Hvernig lið sem dregið er áfram af manni og mönnum sem farnir eru að halla í fertugt gat komið svona til baka og unnið sinn fyrsta titil í sjö ár - og það á móti kanónum eins og stjörnuliði Miami Heat. Þetta á ekki að vera hægt.

"Það er eðlilegt að þeir séu dálítið timbraðir. Þeir eru mannlegir," sagði Gregg Popovich eins og þolinmóður faðir í viðtali fyrir nokkrum dögum þegar hann var spurður út í ryðgað liðið hans.

Kannski ekki setning sem við áttum von á að heyra frá Popovich, en hann er ekkert flón. Hann veit hvað klukkan slær, þó hann verði alveg örugglega ekki svona auðmjúkur ef hans menn spila svona í mars.

Nei, San Antonio var ekki að bjóða upp á neinar flugeldasýningar á allra fyrstu dögum deildakeppninnar og þar hafa meiðsli m.a. sett strik í reikninginn eins og víða.

Tiago Splitter, Patty Mills og Marco Belinelli eru fjarri góðu gamni og þá missti framtíðarstjarna liðsins Kawhi Leonard af öllum undirbúningi liðsins, bleikur á brá.

Popovich hélt uppteknum hætti og hvíldi stjörnurnar sínar þegar liðið hans fór til Houston á dögunum og fékk flengingu.

Nokkrum dögum síðar (þegar við erum nýbúin að skrifa um hvað Golden State sé æðislegt lið), fer Popovich svo með liðið sitt í rútuferð um Kaliforníu og heimsækir Clippers og Warriors.

Clippers-liðið var fyrra fórnarlambið. Reyndar voru þeir Blake Griffin og DeAndre Jordan að glíma við flensu* og Clippersliðið ekki að spila vel, en San Antonio lék sér að því eins og köttur að vönkuðum fugli inni á stofugólfi.

Leyfði Clippers að vera yfir þangað til á lokamínútunni og stakk svo hnífnum í belginn á því og lét því blæða út á gólfinu í Staples - fyrir framan ríkan og geðveilan eigandann.

Kvöldið eftir var haldið til Oakland, þar sem meistararnir héldu körfuboltasmiðju og rúlluðu meistaraefnunum okkar í Warriors upp eins og að drekka bjór.

Það er eitt að horfa á Golden State spila körfubolta á móti venjulegum liðum, annað að sjá það spila við San Antonio - sem er búið að tapa fyrir Warriors í tvígang í síðustu 23 leikjum ef við munum rétt.

Og eins og til að snúa hnífnum aðeins betur í sárinu, stöðvaði San Antonio líka rispuna hans Stephen Curry, sem var búinn að skora amk eina þriggja stiga körfu í 75 leikjum í röð, sem er ein lengsta rispa sinnar tegundar í sögu NBA deildarinnar. Þetta eru náttúrulega kvikindi.

Nei, það er sko ekkert að San Antonio Spurs, besta körfuboltaliði í heimi.

Það góða við þetta allt saman er að vonbiðlar eins og Clippers og Warriors geta huggað sig við að nóvember er rétt að byrja.

Því miður fyrir San Antonio er enn bara nóvember.

En fyrir hönd hinna 29 liðanna í NBA deildinni, skulum við vona að þeir svartklæddu verði ekki svona fjandi góðir áfram.

Þá verður þetta bara ekkert spennandi næsta vor.

-------------------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Það vakti athygli okkar að 9 af hverjum 10 miðlum sem fjallað hafa um höktið á Clippers undanfarna daga hafa ekki minnst einu orði á að þeir Griffin og DeAndre Jordan séu búnir að vera veikir þegar þeir eru að hakka liðið í sig. Þetta er að okkar mati enn eitt dæmið um það af hverju þið, lesendur góðir, ættuð frekar að afla ykkur upplýsinga um það sem er að gerast í NBA á NBA Ísland en ekki einhverjum miðlum sem vita ekkert hvað þeir eru að tala um.

Svona... hrokalaust.