Thursday, November 20, 2014
Hetjan og skúrkurinn Vince Carter
Snareðlurnar frá Toronto eiga ekki tvítugsafmæli fyrr en eftir eitt ár, en félagið er strax byrjað að fagna því með fortíðarblæ. Í nótt tóku forráðamenn Raptors loksins þá ákvörðun að heiðra fyrrum leikmann sinn Vince Carter með smá myndbandssýningu á risaskjánum.
Margir voru búnir að bíða ansi lengi eftir þessu augnabliki. Sumir til að fá tækifæri til að klappa honum lof í lófa, en aðrir til að baula á hann. Vince Carter lék með Toronto frá árinu 1998 til ársins 2004, þegar honum var skipt til New Jersey Nets fyrir dauða hænu, ryðgað stjörnuskrúfjárn og hálfan pakka af bláum Gajol - sem er ekki einu sinni góður eins og þið vitið.
Sumir segja að fyrsta höggið í þessu drama hafi komið frá félaginu, að það hafi verið klúbburinn sem klúðraði þessu öllu saman og flæmdi Vince í burtu. Við trúum því mætavel að félagið hafi klúðrað fullt af hlutum - það er staðreynd - en það er ekki hægt að kenna því um brotthvarf Vince Carter.
Carter nefnilega hætti bara!
Hann var ósáttur við stöðu mála hjá félagi sem skömmu áður var svo ungt, sterkt og efnilegt. Sumir fara fram á að vera settir á sölulista eða skipt í burtu þegar svo er. Carter tók það skrefinu lengra og bara hætti! Hætti að leggja sig fram og kúgaði félagið til að koma sér í burtu.
Þetta vita allir sem fylgdust með þarna fyrir 20 árum og þetta vita hörðustu stuðningsmenn Raptors, sem eiga aldrei eftir að gleyma þessu. Þeir eru líka búnir að baula hátt á hann í hvert einasta skipti sem hann hefur komið yfir landamærin aftur með nýja liðinu sínu, hvort sem það var New Jersey, Dallas eða Memphis.
Við höfum gert fullt af mistökum, eflaust fleiri mistök en Vince Carter, en okkur finnst allt í lagi að Carter fái að heyra það í Toronto. Og hann fékk að heyra það í fyrstu þegar myndbandið hans var spilað í nótt, en svo breyttist baulið í klapp og fagnaðarlæti og Carter komst við eins og ungur Framsóknarmaður.
Sumir vilja fyrirgefa honum og aðrir ekki. Við myndum ekki gera það ef við værum á Raptors-vagninum. Ekki séns.
En það er önnur hlið á málinu. Það er nefnilega alls ekkert víst að það væri hreinlega atvinnulið í körfubolta í Toronto ef Vince hefði ekki notið við.
Hæfileikar hans, íþróttamennskan og breiða brosið höfðu mikið aðdráttarafl í kring um aldamótin. Það má segja allan fjandann um Vince, en hann náði að framkvæma mikilvægasta töfrabragðið í bókinni - ekki síst fyrir lítinn klúbb á óvissutímum - hann dró anusa í sæti.
Það getur vel verið að það sé allt of djúpt að segja að Vince Carter hafi bjargað körfuboltanum í Toronto, en hann á tvímælalaust þátt í því að Snareðlurnar eru þar enn í fullu fjöri.
Þið munið hvernig fór fyrir Húnunum sem upphaflega skriðu út úr hýði sínu í Vancouver. Þeir eru fluttir heim til Elvis.
Carter hitti ekki úr því sem enn er stærsta skot í sögu Toronto Raptors eftir að hafa lagt á sig langt ferðalag á keppnisdeginum til að vera viðstaddur háskólaútskriftina sína. Þetta eru umdeild atriði.
Mjög margir hafa sakað hann um kjarkleysi og gunguhátt (m.a. við - oft), en þó hann hafi gert sín mistök eins og aðrir, náði hann bæði að slá í gegn og koma Toronto á kortið sem körfuboltaborg.
Fyrir tuttugu árum sáust krakkar ekki úti í körfubolta í Toronto, enda voru þeir allir uppteknir við að berja tennurnar úr hver öðrum með hokkíkylfum.
Í dag er öldin önnur og hver Kanadapilturinn á fætur öðrum (ofar og ofar í nýliðavalinu) kemur inn í NBA deildina. Og Vince Carter er fyrsta nafnið sem sprettur fram á varirnar á þeim þegar þeir eru spurðir hvernig þetta hafi byrjað hjá þeim.
Já, Vince Carter sýndi skítakarakter þarna fyrir tuttugu árum síðan og á því alveg skilið að baulað sé á hann einu sinni á ári þó það sé orðið fjandi langt síðan hann gerði mistökin.
En hann á líka skilið að fá smá lófatak og klapp á bakið fyrir alla skemmtunina sem hann útvegaði bæði Toronto-búum og öllum okkur hinum.
Það borgar sig heldur ekki að lifa og hrærast í gremju alla daga.
Lífið er allt of stutt og asnalegt til þess.
Efnisflokkar:
Áfangar
,
Ásakanaleikurinn
,
Fret úr fortíðinni
,
Frussandi gremja
,
Gildi og ákvarðanataka
,
Hroki og hleypidómar
,
Raptors
,
Sýndu mér peningana
,
Veðrið þarna uppi
,
Vince Carter