Saturday, November 22, 2014

Klassíker: Spoelstra tæpur


Eitt bitastæðasta málið hjá NBA-pennum vestanhafs um þessar mundir er að sjálfssögðu stjörnum hlaðið Cleveland-liðið og brokkgengi þess í haust. Þetta er nákvæmlega í takt við heitasta fjölmiðlamálið í Bandaríkjunum fyrir fjórum árum, en þá var það hikstið á Miami sem var efst á baugi. Fjölmiðlar slefuðu þegar þeir slógu því upp að þetta LeBron-Wade-Bosh-dæmi þarna í Miami ætti aldrei eftir að ganga upp.

Það átti nú samt eftir að koma á daginn að Miami-dæmið gekk upp. Liðið fór í lokaúrslitin öll fjögur LeBron-árin og landaði titlum á tveimur þeirra. Ljómandi fínn árangur auðvitað. En eins og þið munið líklega flest, tók það Miami nokkurn tíma að komast í gang. Liðið spilaði 50% bolta fyrstu c.a. 20 leikina og það leiddist fólkinu ekki sem fann LeBron James allt til foráttu eftir Ákvörðunina örlagaríku.

Ástæðan fyrir því að Miami var svona lengi í gang á sínum tíma var meðal annars sú að liðið var mjög vandræðalegt í sóknarleiknum. 
Og það kom til vegna þess að Erik Spoelstra þjálfari lagði eingöngu áherslu á varnarleikinn allt frá æfingabúðum og fram í deildakeppni. 

Það skilaði sér strax og þó liðið hafi hikstað í sóknarleiknum, var það með nógu hæfileikaríka leikmenn til að vinna það upp og þeir fundu svo fljótlega taktinn þeim megin vallarsins. 

Ef þið spyrjið okkur, er það alltaf varnarleikurinn sem við hugsum um þegar við rifjum upp hvað það var sem gerði þetta Miami lið svona sterkt þegar það var á toppnum. Og þannig er það líka oftast með meistaralið.

Cleveland (5-6) hefur ekki byrjað vel í haust og það minnti okkur óneitanlega á það hvað fjölmiðlar - og við - voru að hugsa haustið 2010 þegar allt virtist vera í rugli hjá Miami. 

Þá var pressan auðvitað fljót að heimta höfuð Erik Spoelstra á bakka og sögusagnir uppi um að Pat Riley ætti eftir að reka hann og taka við sjálfur, rétt eins og hann gerði með Stan Van Gundy sex árum áður.

Þetta gekk blessunarlega ekki eftir og kannski eru einhver ykkar búin að gleyma því hvað Spo gerði vel í að sanna sig og halda svo utan um þetta lið í fjögur ár undir daglegri fjölmiðlapressu sem varla hafði sést áður. Sagan segir meira að segja að LeBron James hafi á þessum tíma farið á fund með Pat Riley og heimtað að Spoelstra yrði látinn fara, en Riley sagði honum að setja kork í´ann.

En svona sá grafíkdeildin á NBA Ísland fyrir sér ástandið hjá Miami fyrir fjórum árum: