Wednesday, November 19, 2014

Áratugur frá uppþotinu í Detroit


Í dag eru liðin tíu ár frá Hallarbyltingunni í Detroit (Malice at the Palace), þegar slagsmál leikmanna Pistons og Pacers inni á vellinum bárust alla leið upp í áhorfendastæði með skelfilegum afleiðingum.

Indiana-mennirnir sem áttu mestan þátt í látunum (Ben Wallace hjá Detroit átti líka stóran þátt í að kveikja eldinn) voru Ron Artest, Stephen Jackson og Jermaine O´Neal og fengu þeir 86, 30 og 15 leikja bönn fyrir þátttöku sína í uppþotinu.

Þessi uppákoma er svartur blettur á nútímasögu NBA deildarinnar og í kjölfarið fylgdu ýmsar reglubreytingar sem ætlað var að hreinsa ímynd deildarinnar.

Alvaldur deildarinnar David Stern gekk hart fram í málinu og setti meira að segja reglur um klæðaburð leikmanna.

Það sorglegasta við þetta allt saman er samt að Indiana-liðið, sem var ógnarsterkt og efnilegt á þessum tíma, flaut þarna inn í hringiðu ruglanda og óreiðu sem tók mörg ár að laga.

Við segjum það sama í dag og við sögðum þá. Þó Mike Breen segi í lýsingunni sinni að honum lítist ekkert á geðveikisglampann í augunum á Ron Artest, er Ron-Ron langt frá því að gera geðveikasti maðurinn í prógramminu. Það er tvímælalaust Stephen Jackson sem er geðsjúklingur dagsins þarna eins og þið sjáið glöggt á upptökunni.

Við skulum vona að sé langt í næstu uppákomu af þessu tagi í NBA deildinni.