Wednesday, January 6, 2010
Kínverskt barnalán
Það er alltaf gleðiefni þegar fólk eignast börn og nú berast okkur fréttir af því að kínverski miðherjinn Yao Ming hjá Houston Rockets og kona hans Ye Li eigi von á fyrsta afkvæmi sínu í sumar.
Kínverskir fjölmiðlar eru strax farnir að gera því skóna að Ye Li gangi þarna með barn sem eigi eftir að verða óstöðvandi á körfuboltavellinum í framtíðinni. Ef ekki körfuboltasnillingur, þá í það minnsta ansi hávaxið!
Yao Ming er eins og flestir vita 230 sentimetrar á hæð og konan hans Li er einnig miðherji í kínverska landsliðinu (reyndar kvennaliðinu) og stendur í 190 sentimetrum.
Afsakið orðbragðið, en það er ein helvíti stór fjölskylda svona í sentimetrum talið.
Heimildamenn okkar hérna á NBA Ísland eru nú víðar en á Íslandi og okkar menn í Kína segja okkur að barnið sem Li ber undir belti sé án nokkurs vafa stúlkubarn.
Ekki nóg með það, heldur hefur þegar verið ákveðið að hún fái nafnið Toyota Bolo-Yeung Ming.
Toyota-hlutinn í nafninu er til kominn vegna þess að bílaframleiðandinn japanski hefur tekið ríkan þátt í að fjármagna endurhæfingu Yao Ming með því að hanna styrktarbita úr trefjaefni í lappirnar á honum.
Allir vita svo auðvitað að Yao spilar heimaleiki sína með Houston í Toyota Center, en það sem færri vita er að miðherjinn kom sjálfur undir í aftursæti Toyotu Tercel á sínum tíma
Við hér á NBA Ísland settumst niður og hönnuðum reiknilíkan sem sýnir áætlaða hæð Toyotu litlu þegar hún verður fullvaxta körfuboltamaður. Það er óhætt að segja að niðurstöðurnar lofi góðu fyrir kínverska körfuboltalandsliðið, nema hnátan verði svo óheppin að erfa brauðfætur föður síns.