Tuesday, January 5, 2010

Yfirlýsing frá Karl Malone og Frethólkafélaginu


Við áttum okkur ekki alveg á hugmyndum Bandaríkjamanna um vopnaburð. Bara alls ekki.

Sérstaklega ekki eftir að strákarnir á Sports Illustrated hóuðu í Karl Malone til að gefa skoðun sína á vopnaskaki Gilbert Arenas.

Malone virðist vera orðinn eftirmaður Charlton Heston hjá Frethólkafélaginu (NRA) og er mikill talsmaður vopnaburðar.



Í hans tilviki er það nú aðallega vegna þess að a) hann er suðurríkjamaður og b) hann er með veiðidellu sem nær allt frá laxi og klaufdýrum upp í mexíkóskar smástelpur.

Í pistli sínum á Sports Illustrated bendir Malone réttilega á það að hegðun Arenas sé kjánaleg og segir ekkert athugavert við það þó David Stern beiti alvaldi sínu til að refsa honum hressilega fyrir yfirsjónir sínar.

Malone tekst líka að gefa út mótsagnakenndar yfirlýsingar á heimsmælikvarða eins og honum var einum lagið hér á árum áður þegar hann lék með Utah.

Fyrst segir hann:


 "...og ég skal vera fyrstur til að viðurkenna að ég fer hvergi á farartæki mínu án þess að hafa vopn með í för - en mér hefur aldrei dottið í hug að fara með það inn í hús, hvað þá inn í íþróttahallir."

En skömmu síðar furðar hann sig á því að menn eins og Arenas geri það sama.

"Þeir segjast vilja bera vopn sér til varnar. Guð minn almáttugur, hvernig lífi lifir þú, ef þú þarf á því að halda? Ég veit ekki hvar þessir menn ólust upp eða hver er á eftir þeim, en segið okkur hvers vegna þið þurfið að eiga byssur. Ef þið þurfið byssur til að verja ykkur- er það á röngum forsendum og getur bara endað illa."

Kannski skiljum við bara ekki svona suðurríkja-dæmi, en í okkar augum er byssa fyrir aftan sætið í pallbíl er ekkert öðruvísi en byssa inni í skáp.