Það er alltaf gaman að horfa á Deron Williams og Chris Paul leiða saman hesta sína. Chris Paul og félagar í New Orleans gerðu það sem öll lið virðast geta gert í gær - að vinna sigur á Jazz í Orkulausnahöll.
Paul var stimplaður hetjan á bak við sigur Hornets í gær eftir að hann komst glæsilega inn í sendingu Williams undir lokin og ísaði sigur sinna manna. Annars var Paul frekar slappur í leiknum nema síðustu mínúturnar.
Það eru oftar en ekki stjörnuleikmennirnir sem eru stimplaðir hetjurnar í svona leikjum, en það var nú samt fyrrum Jazz-leikmaðurinn Devin Brown sem stal senunni í þessum leik með því að setja persónulegt met - 30 stig - fyrir gestina.
Seigur leikmaður Brown, sem virðist alltaf ná sér í mínútur hvar sem hann er með dugnaði og varnarvinnu.
Í dag voru skrifaðir pistlar um að Jazz væri að reyna að losa sig við alla leikmenn sína nema Deron Williams. Við erum ekki hissa á því. Liðið er hreint út sagt sorglegt að sjá. Og það þó það hafi unnið bæði Lakers og Orlando fyrir stuttu síðan. Þetta er bara ekki að ganga hjá þeim með þessa blöndu
Menn tala um vandræðagang á liðum eins og Washington, New Orleans, Chicago, San Antonio og fleirum.
Utah er búið að blanda sér átakanlega í þennan hóp - og ekki af neinni góðri ástæðu. Það er ekki eins og þeir geti kennt um ástæðum eins og meiðslum lykilmanna, veikindum eða vopnaskaki.
Nei, það er kominn tími til að smala mönnum eins og Carlos Boozer, Mehmet Okur og Andrei Kirilenko niður í Verðlista og bjóða þá upp nú í janúar. Hádegislestur Sigvalda Júlíussonar á RÚV gæti hljómað eitthvað á þessa leið;
"Verðlistinn auglýsir janúarútsölu. Vorum að fá sendingu af tækifærissinnuðum kraftframherjum frá Alaska, tyrkneskum langskotamiðherjum með undirhöku og grátandi Rússum með risasamninga og hræðilegar hárgreiðslur. Verðlistinn Laugalæk."