Monday, April 22, 2013

Fatastríðið er hafið


Ofurstjörnurnar í NBA deildinni í dag kljást ekki aðeins inni á vellinum. Síðustu tvö ár eða svo, hafa nokkrir af mest áberandi leikmönnum deildarinnar einnig háð blóðuga baráttu utan vallar, sem er tískustríðið.

Þú ert ekki maður með mönnum (sem NBA stjarna) nema vera með stílista og ganga í nýjustu tísku - og hún þarf greinilega að vera mjög ögrandi. Þeir sem ríða hvað harðast fram á þessu sviði eru einmitt tveir bestu leikmennirnir í tveimur bestu liðum heimsins í dag.

LeBron James og Dwyane Wade hjá Miami og Russell Westbrook og Kevin Durant hjá Oklahoma.

Fjórmenningar þessir fóru hamförum í fatakaupum í úrslitakeppninni í fyrra og ef marka má byrjunina hjá þeim í ár, fáum við að sjá eitthvað rosalegt frá þeim þetta vorið.

Þú þarft að vera með sjálfstraustið í botni til að ganga í fötum sem líta út fyrir að hafa verið valin á þig af Órangútan á sýrutrippi, en við fáum ekki betur séð en að þannig hafi það verið hjá James.

Og Westbrook? Hann virðist hafa ætlað að fanga sinn innri Prins, ef svo má segja. Verðum að gefa Kevin Durant það að hann mætti bara í "venjulega ljótum fötum."