Thursday, April 18, 2013

Grindavík 1 - Stjarnan 0




Eins og þið vitið, höfum við allt of lítinn tíma til að skrifa um úrslitaeinvígi Grindavíkur og Stjörnunnar. En við gerum það auðvitað samt.

Grindvíkingar sýndu það svart á hvítu í kvöld hvað það var barnalegt að ætlast til þess að Stjarnan færi eitthvað að valta yfir þá í úrslitaeinvíginu. Af hverju ætti Stjarnan, þó liðið sé óhemju vel mannað, endilega að valta yfir Íslands- og deildarmeistarana?

Það var pólitík og gremja sem olli því að fólk lét svona út úr sér um daginn. Allt í einu var $tjarnan orðið dýrasta lið í heimi og átti bara að valta yfir allt og alla. Hver er munurinn á liði Stjörnunnar í ár og t.d. Stjörnunnar í fyrra?  Ekki svo mikill, ef þú spyrð okkur, en þá var enginn að tala um að það væri skandall ef Stjarnan tapaði fyrir hinum eða þessum.

En að leiknum. Mikið hefur verið talað um að Grindavíkurliðið hafi skotið Stjörnuna í kaf - og þá með þriggja stiga skotum. Það er bara ekki rétt. Grindavíkurliðið skoraði fjórum stigum meira úr þristum í leiknum og hittni liðanna fyrir utan var svipuð - og ekkert sérstök.

Grindvíkingar fengu hinsvegar meira út úr sóknaraðgerðum sínum nær körfunni og þar lá helst munurinn á liðunum. Stjarnan hafði betur í fráköstunum en Grindavík náði sér í fleiri stig á línunni.

Stóri munurinn á liðunum að okkar mati var sá að leikurinn leystist upp í Helter Skelter í síðari hálfleik og það var bara eitthvað sem Stjarnan var ekki búið að reikna með.

Vissulega kom það illa við Grindvíkinga að missa eina miðherjann sinn og leikstjórnanda/skorunarmaskínu í villuvandræði þegar korter var eftir af leiknum. Auðvitað bjuggust þá flestir við því að Stjarnan myndi ganga á lagið.

Það gekk þó ekki eftir, enda fer það Grindvíkingum ágætlega að keyra á minnibolta og skjóta mikið fyrir utan - ekki síst þegar bæði aðal- og aukaleikarar leggja í púkkið.

Það sem gerðist eftir að Grindavík missti lykilmennina í villuvandræði var auðvitað eitthvað sem Stjarnan hefur væntanlega ekki reiknað með. Leikurinn breyttist í hálfgerðan indíánaleik og það hentaði heimamönnum, en Stjarnan lenti bara út af sporinu.

Þetta er einföldun, en svona kom þetta okkur fyrir sjónir.

Það skemmdi ekkert fyrir Grindvíkingum að það rann æði á Broussard og enginn réði neitt við hann.  Liðið hefði líklega aldrei unnið ef hann hefði ekki náð að framleiða stig á færibandi einn síns liðs, en það var ekki bara þessi fjölhæfi skorari sem lokaði þessu fyrir Grindavík.

Þeir Jóhann Árni og Ólafssynir sýndu svo sannarlega að þeir eru ekkert hræddir við Garðbæinga og fóru mikinn fyrir heimamenn. Það var frábært að horfa á þessa léttklikkuðu stuðkarla rífa Grindavíkurliðið áfram - Íslandsmeistararnir eiga svo sannarlega góða möguleika í einvíginu ef þessir þrír spila svona áfram.

Þetta var ekki kvöld Stjörnuliðsins, en hey, skítur skeður, eins og þeir segja.

Sem betur fer eru aðeins tveir sólarhringar í leik tvö í Ásgarði og þar verða heimamenn miklu beittari en þeir voru í kvöld.

Eitt atriði verðum við þó að minnast á.

Hversu góður er Jarrid Frye?

Þessi gaur fer aldrei upp úr þriðja/fjórða gír og getur gert nákvæmlega hvað sem hann vill á vellinum. Hann á reyndar aðeins til að koma sér í vandræði með boltameðferð sinni (gleymir að hann sé góðan leikstjórnanda með sér í liðinu) en þar fyrir utan er þessi gutti með ógnvekjandi sóknarpakka.

Virðist geta skorað hvar sem er á vellinum, frákastar vel og finnur félaga sína galopna hvað eftir annað eftir að hafa dregið til sín mikla athygli. Okkur er alveg sama hver er að dekka Frye, hann getur gert hvað sem honum sýnist og þarf bara að vanda sig aðeins. Það á enginn séns í hann ef hann bara finnur rétta taktinn -- hvenær hann á að láta Justin Shouse um þetta og hvenær hann á að fara sjálfur. Svakalegur spilari.

Leikur tvö í þessu einvígi er á föstudaginn og þið vitið að hann verður epískur.

Við erum þegar lögð af stað í Ásgarðinn.