Sunday, April 28, 2013

Chicago er við það að slá út slappa Brooklyn-menn


Chicago er komið í 3-1 lykilstöðu í einvígi sínu við Brooklyn eftir sögulegan sigur í þríframlengdum leik fjögur í Chicago í kvöld. Leikmenn Nets eru allt nema úr leik og það er þeim sjálfum að kenna.

Brooklyn leiddi 109-95 þegar skammt var eftir af leiknum, en missti allt niður um sig á lokasprettinum og því varð að framlengja í stöðunni 111-111.

Það var fyrst og fremst ólíkindatólið Nate Robinson sem tryggði Chicago framlengingu með ógurlegri hetjurispu í sókninni. Naggurinn skoraði 34 stig á 29 mínútum og án hans hefði Chicago aldrei unnið þennan leik.

"I always think I'm on fire, kind of like the old school game NBA Jam," sagði Robinson eftir leikinn og laug engu - það var engu líkara en hann væri persóna í leiknum NBA Jam þegar hann var að raða niður skotunum.

Við höfum alltaf sagt að þetta Brooklyn lið fari bara eins langt og leikstjórnandi þess og aðalstjarna Deron Williams ber það.

Williams var úti í drulla í leikjum tvö og þrjú (sem Nets tapaði auðvitað) en var talsvert grimmari í kvöld. Hann á samt meira inni og okkur er alveg sama þó hann hafi skorað 32 stig í leiknum, Kirk Hinrich gerði honum lífið leitt á báðum endum vallarins.

Chicago á skilið gott klapp fyrir frábæra frammistöðu í þessu einvígi. Það er að vinna þessa leiki á frábærum varnarleik og nógu góðum sóknarleik og er komið í 3-1 þrátt fyrir að vera án sínst besta manns og með sinn næstbesta mann haltrandi um völlinn.

Í þúsundasta skipti: Tom Thibodeau er að gera fáránlega góða hluti með Bulls og á líklega skilið að vera kjörinn þjálfari ársins (eins og reyndar sjö aðrir menn, en látum það liggja milli hluta).

Brooklyn hefur engar afsakanir. Þetta er bara lélegt hjá þeim og liðið er að drulla á sig. Gæfulegur fjandi að vera að borga öllum þessum mönnum svimandi há laun og fá þessa frammistöðu fyrir peninginn. Prokhorov getur ekki verið sáttur við þetta. Ætli hann reki ekki PJ þjálfara og ráði Rafa Benitez í staðinn.

Nei, svona án gríns. Þetta er ekki að virka hjá Nets. Deron Williams virðist ekki geta haldið sér nógu heilum til að leiða þetta lið áfram og Joe Johnson var náttúrulega á annari löppinni eins og þið sáuð í kvöld.

Þetta lið hefur náð sér ágætlega á strik inn á milli en svo dettur það niður í ruglið.

Næsti leikur í þessu einvígi verður í Brooklyn á mánudagskvöldið og það getur vel verið að Nets nái að lengja aðeins í snörunni, en þetta lið er aldrei að fara að vinna þrjá leiki í röð á móti Bulls. Það vantar alla stemningu, baráttu og anda í þetta Nets lið og ekki eykst það nú eftir þetta drull í Chicago í kvöld.

Til að súmmera: Kúdós á Bulls, en það verður einhver að hringja á Hreinsitækni til að þrífa upp eftir Nets, sem eru einfaldlega að valda vonbrigðum í vetur þrátt fyrir að hafa bætt árangur sinn mikið í deildakeppninni.

Hér fyrir neðan getur þú séð samantekt af sprengjuárás Nate Robinson á aumingja Nets í kvöld.