Friday, May 27, 2016

Golden State er ekki tilbúið að fara í sumarfrí


Það er betra að vera á heimavelli. Þess vegna eru menn að eltast við það að reyna að vinna alla þessa leiki í snjónum og slyddunni, allar þessar löngu og dimmu vetrarnætur.

Ef fimmti leikur Golden State og Oklahoma hefði verið í Oklahoma, væri þetta einvígi búið. En meistararnir búa svo helvíti vel að vera með heimavallarréttinn í þessu einvígi (og væru reyndar með heimavallarréttinn á móti öllum liðum í sögu deildarkeppninnar eftir 73 sigra í vetur) og þegar þú ert með heimavöllinn, er jú alltaf stutt í næsta heimaleik til að "beila þig út" ef þú lendir í vandræðum. Og Warriors menn lentu sannarlega í vandræðum í þessari Oklahoma-rimmu. Meiri vandræðum en þeir hafa nokkru sinni lent í áður.

Við höfum sagt það áður og segjum það enn. Ef Golden State hefði tapað þessum leik í nótt, fimmta leiknum, hefði það nánast drullað yfir allan þann árangur sem það er búið að ná á þessari stórkostlegu leiktíð. 

Ekki misskilja okkur, við hugsum ekki eins og að því er virðist 99% af fólki sem segir að þetta tímabil sé "ónýtt drasl sem enginn man eftir" ef það endar ekki á titli. 

Við erum alls ekki sammála því. Sjötíu og þrír sigrar eru fokkíng sjötíu og þrír sigrar og það er met sem er ekki víst að við eigum eftir að sjá slegið meðan við öll lifum, þannig að ekki koma hérna inn og rífa kjaft um ónýt leiktímabil.

En....

Það er ekki sama hvernig þú dettur út úr úrslitakeppninni og það hefði einfaldlega ekki verið meisturum sæmandi að detta út 4-1 fyrir lægra skrifuðu liði sem vann næstum því tuttugu færri leiki í deildarkeppninni og átti raunar ekkert að vera komið svona langt í úrslitakeppninni yfir höfuð. 

Meistaralið með allar sínar stjörnur (nokkurn veginn) heilar og á besta aldri á ekki undir neinum kringumstæðum að láta henda sér út 4-1.

Enda gerðu Golden State-menn það ekki. Þeir létu ekki henda sér út á eigin heimavelli, andskotinn hafi það. Það hefði einfaldlega verið lélegt, alveg sama hvað Oklahoma var búið að lækka í þeim rostann í leikjunum á undan.

Nei, meistararnir fundu einhverja blöndu af örvæntingu og krafti til að vinna fimmta leikinn 120-111 í nótt og minnka þá muninn í 3-2 í einvíginu. Leikur sex verður í Oklahoma á laugardagskvöldið klukkan eitt (Stöð 2 Sport) og akkúrat núna lítur dæmið svona út fyrir meistarana, ef við tökum okkur það bessaleyfi að túlka það með myndum:*
































Við erum ekki viss um að við höfum séð mann skora 31 stig eins hljóðlega og Stephen Curry gerði í þessum leik í nótt, en hann var líkari sjálfum sér en hann var í leikjunum á undan, þó hann sé alls ekki eins og hann á að sér að vera. Hann er enn að klikka á skotum sem hann setur ALLTAF ofan í. Og það er ekki bara Oklahoma-vörninni að þakka. 

Við sem erum búin að horfa á nánast hvern einasta leik með Warriors síðustu árin erum farin að þekkja þessi augnablik þegar Curry (og Thompson) taka af skarið og klára leiki. Breyta muninum úr tíu stigum í tuttugu og fimm á nokkrum augnablikum. Curry hefur tekið míní-rispur, en hann hefur aldrei tekið algjörlega yfir leikinn eins og hann gerir svo oft.

Eitt af því sem vakti athygli manna og vann nokkuð augljóslega með Golden State í þessum leik var að liðið spilaði betri vörn og hafði í fyrsta skipti svo við munum í fullu tré við Oklahoma í fráköstunum og baráttunni í teignum yfir höfuð. 

Þeir Bogut og Speights voru afar hressir í þessum leik, hvor á sinn hátt, og eins og margir voru búnir að spá, fengu meistararnir gott framlag frá varamannabekknum sínum eins og verða vill í heimaleikjum.


Það sagði sína sögu að Golden State skuli hafa náð forystunni sem tryggði því að lokum sigurinn á mínútunum sem Curry sat á varamannabekknum. Hann kom svo reyndar inná og hjálpaði til við að sigla þessu í höfn, en við munum ekki eftir að hafa séð Warriors-liðið skjóta mörg lið út af sakramentinu með Curry á bekknum.

Dauðakippur Oklahoma þarna í blárestina var svo fáránlega áhugaverður, þar sem Kevin Durant fékk galopið þriggja stiga skot sem hefði minnkað muninn í aðeins þrjú stig þegar einhverjar 30-40 sekúndur voru eftir af leiknum.

"Shiiiiiiiiiiet" sagði Durant þegar Royce Young spurði hann hvort hann hefði viljað fá þetta skot til baka.

Oklahoma átti eftir að gera helling þó það hefði minnkað muninn í þessi þrjú stig á þessum tímapunkti, það er ekki eins og Curry og félagar séu mikið í því að klikka á vítum, en það hvort liðið hefði getað unnið leikinn er aukaatriði í okkar augum.

Fyrir okkur var þessi síðasta árás Oklahoma mjög táknræn. Hún sýndi okkur - og það sem miklu meira er, Golden State - að Oklahoma ætlar ALDREI að gefast upp í þessu einvígi og að þeir séu hungraðari í að fara áfram í þessu einvígi, jafnvel hungraðari en Warriors.

Leikmenn Oklahoma trúa því að þeir séu betra liðið í þessu einvígi og í okkar huga sýndi þessi sprettur þeirra í lokin það betur en nokkuð annað í þessari rimmu.

Það voru rosalega margir búnir að afskrifa Golden State fyrir þennan leik, en við vorum ekki svo frökk eða vitlaus eða hvað á að kalla það. Eins og við sögðum hér að ofan, það gat bara ekki verið að Golden State léti fara svona með sig. Þeir settu Cypress Hill-snælduna í tækið, hækkuðu, og höfðu hugfast að:

Nú er því komin upp afar áhugaverð staða í þessu einvígi. Pressan í fimmta leiknum var öll á Golden State, enda voru leikmenn liðsins á leið á Benidorm ef þeir hefðu tapað, en núna er hún öll komin aftur yfir á Oklahoma.

Leikmenn Oklahoma eru reyndar með bullandi sjálfstraust og eru búnir að gera helmingi áhrifameiri hluti á útivelli í þessari úrslitakeppni en öll hin fimmtán liðin til samans. Útileikurinn sem þeir verða hinsvegar að vinna ef þeim mistekst að klára þetta á heimavelli á laugardaginn, er ekki venjulegur útileikur, heldur leikur sjö á útivelli. 

Og þeir eru ekkert að vinnast mikið á útivelli þessir oddaleikir eins og þið vitið öll mætavel. Við þurfum ekki að rifja þá tölfræði upp fyrir ykkur, hún er ekki falleg fyrir útiliðið og þig langar ekkert að spila leik sjö í hávaðanum og Oracle - allra síst verandi búin(n) að tapa tvisvar í röð fyrir meisturunum þegar þar er komið við sögu.

Þetta er sumsé langt frá því að vera flókið dæmi. Oklahoma VERÐUR að vinna á laugardaginn. Það er ekkert raul, taut eða millivegur með það. Það er líka augljóst í okkar huga að ef Golden State tekst á annað borð að vinna sjötta leikinn, verður það af því liðið er búið að aðlagast það vel að það verður búið að ná yfirhöndinni "á stigum" í einvíginu og ef svo er, þarf varla að spila sjöunda leikinn.

Það er því augljóst með öllu, að liðið sem vinnur leikinn á laugardaginn, vinnur þessa seríu. 

Það er bara þannig.

Og því þá ekki að gefa ykkur mynd af því hvernig þetta lítur út fyrir Oklahoma:**
































Það er mammúts-verkefni fyrir Golden State að vinna sjötta leikinn í Oklahoma, þar sem þeir hafa verið rassskelltir tvisvar í röð fyrir framan blóðþyrsta og háværa áhorfendur. 

Við fullyrðum það hér og nú, að Golden State þarf að eiga besta leikinn sinn í seríunni til að vinna þann leik. Framlag eins og í nótt, dugar engan veginn. Golden State menn þurfa sem sagt að spila eins og Golden State liðið sem við erum búin að sjá hakka allt sem í vegi þess hefur orðið síðustu tvö ár.

Allt annað en það, verður ekki nóg. Þá er það bara Benidorm.

----------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Sjötti leikurinn fyrir Warriors verður eins og einvígi við Fjallið - og eins og þið vitið eru menn ekki mikið að komast út úr því með ókramdar hauskúpur eða hausa yfirleitt.

Sjöundi leikurinn er allur auðveldari að sjá. Hver getur jú ekki stútað einu stykki dverg í einvígi - og það á heimavelli? Þetta er með öðrum orðum leikur sem á að klárast ef menn gæta þess að vera einbeittir og klókir. Dvergurinn refsar þér grimmilega og heggur af þér kynfærin ef þú sýnir honum ekki virðingu eða missir einbeitingu. Nokkuð sem meistararnir verða að hafa hugfast.

** - Sjötti leikurinn fyrir Oklahoma er gerlegur að sjá og auðveldari í viðskiptum en margir aðrir, en þó ber að gæta varúðar, því helvítið hann Sam Tulley drap jú Hvítgöngumann þó hann sé alltaf eins og hann sé bæði að míga og skíta á sig af tilvistinni einni saman. Þett´er alveg: Lífið er ekki auðvelt, bollan þín, get over it!

Sjöundi leikurinn er svo eins og þið sjáið helvíti á jörðu fyrir Oklahoma. Ráfi þeir svo langt norður fyrir vegginn að tapa leikjum fimm og sérstaklega sex á heimavelli - er það þessi ódrepandi ófreskja andskotans sem bíður þeirra í Oakland. Brrrr.