Wednesday, May 25, 2016

Oklahoma heldur áfram að koma á óvart


Bara að við hefðum nú yfirgripsmikla þekkingu á körfuknattleik, þá gætum við sagt ykkur hvernig í fjandanum stendur á því að Oklahoma City er að taka tvö af bestu liðum sem NBA deildin hefur alið af sér og SLÁTRA þeim.

Við gætum alveg farið í að apa einhverjar fabúleringar um X og O eftir einhverjum af þeim örfáu pennum sem hafa eitthvað vit á körfubolta, en það yrði bara kjánalegt. Í staðinn segjum við ykkur frá því hvað fyrir leikmannsaugu okkar bar og hvernig við upplifðum það. Hvernig við upplifðum það að sjá NBA meistarana tapa tveimur leikjum í röð í fyrsta skipti í vetur og það með tilþrifum.


Það sem við tókum fyrst eftir þegar við horfðum á þessa seríu og allir hljóta að hafa séð mjög augljóslega í leik fjögur, er að Stephen Curry er ekki hann sjálfur í þessu einvígi. Og þá erum við ekki að meina að hann sé eitthvað andlega vanstilltur eða eitthvað þannig, heldur að hann sé meiddur. Stephen Curry er augljóslega meiddur og það sjá allir sem hafa séð svo mikið sem 3-4 leiki með Golden State í vetur.

Nú ætlum við alls ekki að taka neitt af varnarleik Oklahoma, sem hefur verið alveg frábær í þessari rimmu, en það er ekki bara þessum varnarleik að kenna að Stephen Curry er svona langt frá sínu besta. Þeir Adams og Ibaka hafa náð að snúa einu og einu skoti frá honum, en það er alveg stórfurðulegt að sjá Curry allt í einu klikka á opnum þristum, stuttum skotum og sniðskotum, aftur og aftur og aftur í sama leiknum.


Við horfðum á tugi leikja með Warriors í vetur. Þetta eru skot sem hann er ekki bara að hitta vel úr - þetta eru skot sem fara ÖLL niður hjá honum. ALLTAF. Sama hvort það er með vinstri eða hægri, eftir gegnumbrot eða hraðaupphlaup, með mann í sér eða ekki. Hann bara setur svona skot og er betri í því en allir leikmenn í deildinni. Tölfræðin meira að segja bakkar það upp.

Curry fékk þannig sjö galopin skot í leiknum í nótt og hitti aðeins úr tveimur þeirra - var 0 af 5 í þriggja stiga skotum af þeirri gerðinni. Það er bara augljóst að hér er ekki allt með felldu.

Ástæðan fyrir því að við erum að velta okkur upp úr þessu er jú að Curry er tvöfaldur verðmætasti leikmaður NBA deildarinnar og því má nærri geta hvort það skiptir liðið hans máli að hafa hann á fullu gasi eður ei. Og það er allt frekar ei núna.

Tölfræðin hans Curry er einhverra hluta vegna fín í þessu einvígi, þar sem hann er með 24 stig, 5 fráköst, 5 stoðsendingar og 4,3 tapaða bolta í leik og skotnýtingu upp á 42%/37% og 86%. En þegar rýnt er í tölfræðina hans fyrir lengra komna, stökkva pöddurnar upp undan steininum.

Þannig skorar Golden State ekki nema skitin 98,8 stig per 100 sóknir þegar Stephen Curry en er ljómandi fínt 110,7 þegar hann er á bekknum.

Til samanburðar er Oklahoma að skora 115,4 stig á hverjar 100 sóknir þegar Russell Westbrook er inni á vellinum, en svo gjörsamlega hrynur leikur liðsins þegar hann fer útaf - alveg niður í 81,4 stig á 100 sóknir!

Við áttum okkur á því að úrtakið er ekki stórt í þessu sambandi, en til að setja þessar tölur í samhengi má nefna að Philadelphia var með verstu sóknartölfræðina í deildarkeppninni í vetur með 96,6 stig og aðeins Sixers, Lakers og Suns skoruðu innan við 100 stig á hverjar 100 sóknir á liðinni leiktíð.

Til gamans má geta þess að Golden State var einmitt með bestu sóknina í deildarkeppninni með 112,5 stig per 100 sóknir, Oklahoma með 109,9, San Antonio með 108,4, Cleveland með 108,1 og Toronto með 107.

Hver sagði að það væri varnarleikur sem væri lykillinn að því að vinna titla? Segir það ekki eitthvað að liðin fjögur sem eru eftir í úrslitakeppninni séu í fjórum af fimm efstu sætunum í þessari tölfræði? Það er einhver fylgni þarna á milli.

Og af því þú fórst að pæla í því í framhaldinu af þessu, þá var San Antonio með (sögulega) bestu vörnina í deildarkeppninni í vetur með 96,6 stig fengin á sig per 100 sóknir. Golden State leiddi deildina í þessari tölfræði á síðustu leiktíð, en var aðeins í fimmta sæti á þessari með 100,9. Hin liðin þrjú í undanúrslitunum koma svo skemmtilega hvert á eftir öðru í sætum 10, 11 og 12 á þessum lista. Cleveland með 102,3, Toronto með 102,7 og Oklahoma með 103 slétt.


Þetta var ljómandi fínn útúrdúr til að nota til að sleppa við að reyna að útskýra hvað er að gerast í einvígi Oklahoma og Golden State - hvernig meistararnir eru allt í einu bara einu tapi frá því að láta sparka sér í sumarfrí... Það er með ólíkindum.

Það hefur sitt að segja í seríunni að Stephen Curry sé ekki alveg með sjálfum sér eins og við sögðum og að Draymond Green hefur til dæmis spilað eins og órangútan á alsælu í leikjunum í Oklahoma.

En við skulum hætta að framleiða afsakanir handa Warriors-mönnum - hvorki þeir né þjálfarinn þeirra kæra sig um svoleiðis væl. Það er eitt af svo mörgu sem er svo töff við þetta Warriors-lið. Þeir eru allir svo auðmjúkir (meira að segja Draymond Green, þó hann gnísti tönnum á meðan) og nánast léttir á því þó þeir hafi ekki aðeins tapað tveimur leikjum í röð í fyrsta skipti á leiktíðinni, heldur var þeim pakkað saman. Sjáðu bara  brosið hans Steve Kerr eftir leikinn í nótt:


Ef við ættum að útskýra yfirburði Oklahoma í þessu einvígi á sem einfaldastan máta, til dæmis eins og til þess að hanna fyrirsögn úr því, myndum við líklega hafa hana "Of mikið OKC."  Þar eigum við auðvitað við að Oklahoma er búið að taka sína uppáhalds leikaðferð og troða henni upp á Golden State hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Sóknarleikur Oklahoma er nákvæmlega eins og maðurinn sem fer fyrir honum, Russell Westbrook: gjörsamlega villtur og óútreiknanlegur þó hann sé einfaldur. Málið er bara að þegar leikmenn Oklahoma geta valtað yfir hvaða lið sem er í deildinni þegar allir leikmenn liðsins leggja sig 100% fram á báðum endum vallarins og þegar þeir grípa til besta vopnsins síns, á ekki Warriors einu sinni séns.

Þetta leynivopn er svo sem ekkert leynivopn. Oklahoma er bara íþróttafræðilega betra en önnur lið í deildinni. Þeir getta teflt fram svo illviðráðanlegum liðsuppstillingum þar sem þeir hafa yfirburði hvað varðar hraða, hæð, lengd og sprengikraft. Þetta er dálítið frumstætt, en svona er þetta bara.


Það er annars fljótlegt að renna yfir það sem er að ganga upp hjá Oklahoma og hefur tryggt ótrúlega 3-1 forystu í þessu einvígi.

Þetta byrjar allt hjá Billy Donovan þjálfara, sem er ekki búinn að troða sokk upp í ritstjórn NBA Ísland, heldur er hann búinn að troða sokkaskúffu upp í okkur með því að vera á góðri leið með að út-þjálfa þrjá af bestu þjálfurum NBA deildarinnar í fyrstu úrslitakeppninni sinni og er 7-3 á móti liðunum tveimur sem flestir spáðu því að yrðu meistarar í júní (það er að segja annað hvort Spurs eða Warriors).

Næstum því allir leikmennirnir sem koma við sögu hjá Oklahoma í þessu einvígi eru að spila frábærlega vel og sumir hverjir eru að tvöfalda það framlag sem nokkur maður eða kona þorði að treysta á frá þeim í þessu einvígi. Þetta eru menn eins og Andre Roberson og Dion Waiters og raunar Steven Adams líka. Þessir kallar hafa allir farið á kostum á sinn hátt og eiga stóran þátt í velgengni liðsins.

Oklahoma fer samt aldrei lengra en Russell Westbrook og Kevin Durant draga það og eins og staðan er í dag, eru þeir einfaldlega að spila eins og tveir bestu körfuboltamenn í heimi. Það er er óþarfi að gera upp á milli þeirra Durant (28,8 stig, 8,8 fráköst, 2 stolnir og 1,8 varin - 45% fg, 31% 3pt og 91% ft) og Westbrook (27 stig, 6,5 fráköst, 11,8 stoð, 3,8 stolnir - 42% fg, 36% 3pt og 87% ft) en af því við erum svo mikil fífl, þá gerum við það samt.

Sumir segja að Kevin Durant sé búinn að vera maður úrslitakeppninnar til þessa, en hluti þeirra sem "kjósa" Durant, gera það af því hann er ekki Russell Westbrook - af því hann fer í taugarnar á þeim. Eitt sem vinnur mikið með Durant í þessari tilgangslausu hugleiðingu er hvað drengurinn er búinn að spila frábæra vörn í einvíginu við meistarana.

Viltu til dæmis giska á hvernig tveir bestu leikmenn Oklahoma eru búnir að skjóta þegar Kevin Durant er að dekka þá? Okkur grunaði það. Stephen Curry og Draymond Green eru 1 af 19 í skotum með níu tapaða bolta í þeim tilvikum sem Durant hefur dekkað þá. Þetta er náttúrulega lygileg tölfræði.

Þrátt fyrir þessar áhrifamiklu tölur, er það samt Russell Westbrook sem í okkar bókum er búinn að spila manna best eins og dæmið með stigaskor Oklahoma þegar hann var utan/innan vallar sýndi réttilega.

Golden State á bara ekkert svar við Westbrook, ekki frekar en San Antonio. Hann er bara allt of mikill Russell Westbrook. Hann gerir haug af mistökum, missir boltann oft og tekur mörg glórulaus skot, en hann mun alltaf gera það, sama hvort hann er að spila leik á undirbúningstímabilinu eða í lokaúrslitum. Russ hefur alltaf verið, er og verður alltaf, nákvæmlega Russ.

Við tókum eftir því að Kenny Smith í Inside the NBA þættinum fræga á TNT hélt því fram í nótt að nú væri komin gríðarleg pressa á Oklahoma að vinna fimmta leikinn í einvíginu í Oakland.

Fyrirgefðu, Jet, en huh?

Fyrsti og eini pressuleikurinn í þessari seríu fór fram í nótt. Pressan var mikil á Warriors er því tölfræðin fyrir lið sem lenda undir 3-1 í seríum í úrslitakeppni er álíka góð og líkur á að vinna í lottói. Svona til gamans getum við sagt ykkur það að lið sem hafa náð 3-1 forystu í undanúrslitarimmum í sögu NBA hafa unnið 37 einvígi og tapað aðeins tveimur. Tuttugu af þessum 37 liðum kláruðu seríuna í leik fimm.

Síðasta lið til að koma til baka og vinna undanúrslitaseríu eftir að hafa lent 3-1 undir var Boston liðið hans Larry Bird sem sneri við blaðinu gegn Philadelphia 76ers árið 1981 og toppaði það svo með því að vinna Houston 4-2 í úrslitaeinvíginu. Þetta var fyrsti titillinn hans Larry Bird með Boston.

En það var líka pressa á Oklahoma fyrir leik fjögur, bara öðruvísi pressa. Oklahoma VARÐ að vinna fjórða leikinn ef það ætlaði sér að vinna þessa seríu, af því ef það hefði tapað honum, hefði staðan verið orðin 2-2, Golden State búið að stela heimavellinum aftur og ætti nú tvo heimaleiki í þriggja leikja seríu.

Sem sagt, beisikklí ómögulegt dæmi, þó Oklahoma sé búið að vera að vinna ótrúlega sannfærandi útisigra í þessari úrslitakeppni.

Nú er staðan hinsvegar orðin sú að Golden State verður að vinna þrjá leiki í röð eða fara í sumarfrí, en það sem er svo magnað við blessaða úrslitakeppnina er að lið Warriors þarf ekki annað en að vinna einn heimaleik (næsta leik) til að hlaða pressunni aftur á Oklahoma. Þá vita þeir að þeir verða að vinna leik sex á heimavelli, því líkurnar á því að vinna Golden State á útivelli í leik sjö eru... við skulum segja helvíti litlar.

Þetta er svo gaman að þetta ætti næstum því að vera bannað.



































LOL!