Wednesday, May 25, 2016

Jæja, Cleveland...


Auðvitað vorum við að jinxa seríuna áfram þegar við slógum upp fyrirsögn hér á dögunum sem sagði að mótherjar Cleveland í Austurdeildinni gætu ekki skít!* Allt fyrir ykkur. Viljum við ekki öll fá fullt af leikjum?

Það sem vekur athygli okkar við Cleveland-Toronto-seríuna er hvað Cleveland hefur spilað eins og aumingjar í síðustu tveimur leikjum, sérstaklega í vörninni. Það hlaut að koma að því að þetta lið hætti að skjóta 70% úr þriggja stiga skotum, en það á að vera alveg nógu gott í vörn til að halda Toronto niðri í annað hvort leik þrjú eða fjögur til að geta farið heim og klárað í leik fimm.

Ekki aldeilis.

Út frá sjónarhóli Cleveland, sjáum við ekki alveg hvað er svona flókið við að dekka lið sem er með tvo valkosti í sóknarleik sínum og ekkert að frétta í teignum af því sóknarmiðherji þess (Jónas, nokkur) er ekki með. Án þess að vera að verja Cleveland-menn, var allt að detta fyrir Toronto-liðið í þessum síðustu tveimur leikjum og hið andstæða uppi á teningnum hjá LeBron og félögum.

Það má samt ekki taka það af Kanadamönnunum. Þeir áttu skilið að vinna þessa leiki. Það er svo einfalt. Nú standa þeir frammi fyrir því að fara til Cleveland og reyna að halda þessum látum áfram þar. 

Það er ekki séns í helvíti og Cleveland vinnur auðveldan sigur í leik fimm. Hvað gerist svo eftir það, er okkur ráðgáta.

Okkur þótti áhugavert að sjá talsmann LeBron James á ESPN, hinn þéttvaxna Brian Windhross, taka Tyronne Lue þjálfara Cleveland af lífi í pistli eftir fjórða leikinn. 

Þar sagði hann að Lue hefði verið að gera nýliðamistök sem þjálfari og meðan annars gert þau mistök að láta LeBron James spila allt of mikið í leik fjögur (46 mínútur). 

Windhrossið skrifar ekki svona beitta pistla um Cleveland nema LeBron James gefi grænt ljós á þá og því vakti þessi árás á þjálfarann óneitanlega áhuga okkar. Þessi pistill þýðir bókstaflega að LeBron James sé ekki sáttur við hvernig þjálfarinn hans er að að vinna hlutina. 

Það sem hann ætti hinsvegar að hafa meiri áhyggjur af, er að finna svör við því af hverju Cleveland getur ekki unnið lið eins og Toronto nokkuð örugglega.

Svona er þetta. Það þarf ekki nema tvo leiki til að breyta hinni fullkomnu leiktíð í kúkableyju. Fyrir fimm dögum var Cleveland á krúskontról á leið í úrslitin - taplaust og hitti úr öllu sem það grýtti á körfuna. Núna líta þeir út eins og aular á móti liði sem á ekkert erindi í undanúrslit NBA deildarinnar. Hvað heldurðu að Toronto myndi vinna marga leiki í sjö leikja seríu á móti Oklahoma og Golden State? Nú, eða San Antonio eða heilbrigðu Clippers-liði? Hekk, Portland? Áhugaverð pæling í hugum ritstjórnarinnar.

Blóraböggullinn hjá Cleveland þessa stundina, ef þjálfarinn er undanskilinn, er kunnuglegur náungi. Maðurinn sem er búinn að vera blóraböggullinn hjá liðinu frá fyrstu mínútu sinni hjá Cleveland. Dýrasti rulluspilari í heimi - Kevin Love.

Það kemur svo sem ekkert mikið á óvart að hann Ástþór okkar hafi fengið að heyra það, því hann er ekki að skila nema 11 stigum, 5 fráköstum og 36% skotnýtingu í einvíginu við Toronto.  

Til samanburðar er LeBron James að skjóta 64% í seríunni við Toronto þó hann sé að skjóta eins og blindur órangútan í þriggja stiga skotum (18%). Aumingja Kevin Love á aldrei eftir að gera neinum fyllilega til geðs meðan hann býr í Cleveland. Það er að verða nokkuð ljóst.

Annars er fyllilega eðlilegt að Channing Frye sé að skjóta 23 af 40 (58%) í þristum og skora níu stig að meðaltali í leik fyrir Cleveland í úrslitakeppninni. 

Við lýstum yfir hrifningu okkar af ákvörðun Cleveland að pikka hann upp í vetur, en bjuggumst ekki alveg við þessu. 

Cavs-liðið er algjört skaðræði í sóknarleiknum þegar það er með Frye í fimmunni - ekki síst þegar drengurinn er að skjóta svona. LeBron James getur keyrt á körfuna eins og hann hefur úthald til.

Á Kyle Lowry skilið að fá klapp á bakið fyrir frammistöðu sína í síðustu tveimur leikjum? Líklega. 

Hann spilaði eins og hann gerir best og án hans væri Toronto ekki búið að jafna þessa seríu. En það hvernig drengurinn er búinn að spila bókstaflega eins og jójó alla úrslitakeppnina sýnir svart á hvítu að Kyle Lowry er bara mjög góður körfuboltamaður. 

Hann er ekki stórstjarna. Hann er ekki leikmaður sem á að spila í Stjörnuleiknum ár eftir ár og ekki DeMar Derozan heldur. Þeir eru ekki alvöru stórstjörnur - bara mjög góðir körfuboltamenn. Og það er líka alveg í fínu lagi.

Lítum við út eins og fífl og fávitar fyrir að hafa skrifað Toronto út af sakramentinu í stöðunni 2-0? Já, já, við skulum alveg taka það á okkur eins og annan asnaskap sem við berum ábyrgð á. En treystið okkur samt. Við lítum ekki eins illa út eins og Cleveland gerir núna.

-----------------------------------------------------------------------------------------------------

* - Þetta er reyndar haugalygi frá a til ö.