Saturday, May 28, 2016
Af lokaúrslita-LeBron og Toronto á Tene
Manstu eftir þessum sveppum hérna fyrir ofan? Það hlýtur eiginlega að vera, því það er ekki svo langt síðan þeir réðu öllu í Austurdeildinni eins og Detroit hafði gert árin á undan þeim. Af hverju erum við að rifja þetta lið upp? Jú, af því þetta er síðasta alvöru liðið sem LeBron James þurfti að kljást við í Austurdeildinni.
Cleveland fór loksins að taka hlutina alvarlega eftir neyðarleg töp í leikjum þrjú og fjögur gegn Toronto og gjörsamlega valtaði yfir Kanadaliðið í leikjum fimm og sex. Það var nákvæmlega ekkert óvænt við það. Munurinn á þessum liðum er í raun og veru stjarnfræðilegur, þó þau hafi nánast verið jöfn í töflunni í deildarkeppninni.
LeBron James er nú að fara í lokaúrslitin sjötta árið í röð og auðvitað er það til marks um hversu magnaður leikmaður hann er að hann skuli vera búinn að ná þessum árangri með sitt hvorum klúbbnum. Þú þarft að vera heppinn með að sleppa við meiðsli og ákveðinn snillingur ef þú átt að komast í lokaúrslit sex ár í röð - og viti menn - LeBron James er heppinn með meiðsli og snillingur.
En við skulum ekki sykurhúða þetta meira en nauðsyn krefur. Í rauntali sagt, hafa liðin hans LeBron James mætt aaafar lítilli mótspyrnu síðan áðurnefnt Celtics-lið lagði upp laupana. Eina liðið sem náði að stríða Miami-liðinu hans LeBrons í úrslitakeppninni var Indiana á sínum tíma. Það var ágætis lið, fínt varnarlið, en ákaflega takmarkað þegar upp var staðið. Það gat farið með Miami í oddaleiki, en þegar allt var í járnum, gat þetta lið bara ekki búið til stig og féll á því, aftur og aftur og aftur. Og gerir raunar enn.
Chicago hefði strangt til tekið átt að vera öflugasti andstæðingur Miami-liðsins á sínum tíma, en meiðsli eyðilögðu hverja einustu leiktíð hjá þeim og gera enn. Önnur lið voru þremur þrepum fyrir neðan Miami og aldrei annað en það sem við köllum fallbyssufóður.
Og ekki tók "betra" við þegar LeBron James gekk aftur í raðir Cavs, því síðan hann flutti heim, hefur Cleveland verið eina liðið sem getur eitthvað í Austurdeildinni. Eitthvað!
(Á töflunni hér fyrir neðan sérðu að það eru ekki nema FIMMTÍU ár síðan körfuboltamaður komst síðast í lokaúrslitin sex ár í röð eða oftar. Það voru allt aðrir tímar og allt annar bolti en tíðkast í dag. Varla sama íþrótt, satt best að segja.
Svo eru jú þrjátíu lið í deildinni í dag, en okkur minnir að þau hafi verið níu þegar Boston vann titilinn átta ár í röð frá árinu 1959 til 1966. Þessi mulningsvéll af liði vann alls ellefu titla á þrettán ára kafla á sjötta og sjöunda áratugnum og Bill Russell tók þátt í þeim öllum).
Eins og við höfum talað um svo oft, þarf eitthvað lið að fara með Cleveland í undanúrslitin úr Austurdeildinni hvort sem það er skítlélegt eða ekki. Á síðstu leiktíð var það Atlanta sem var þetta skítlélega lið (okkur er alveg sama þó það hafi unnið sextíu leiki í deildarkeppninni), enda sópaði Cleveland því út úr úrslitakeppninni með svo afgerandi hætti að við höfum sjaldan séð annað eins.
Atlanta liðið var gjörsigrað frá fyrstu mínútu í þessu einvígi, hafði enga trú á því sem það var að gera og sýndi álíka mikinn karakter og stjórnmálamaður. Lögðust niður grenjandi og létu keyra yfir sig og það þó Cleveland-liðið hafi m.a. verið án Kevin Love í seríunni eins og þið munið.
Það kom í hlut Toronto að vera í þessu hlutverki í ár eins og þið vitið, en Snareðlurnar brugðust nákvæmlega öfugt við því að mæta LeBron. Þær börðust eins og ljón, þó þær fengu stundum hrikalega ljóta skelli og náðu að krafsa út sigra í tveimur leikjum.
Þú trúir kannski ekki á svona móralska sigra, en þú gætir þurft að taka það til endurskoðunar. Toronto var að komast í undanúrslitin í fyrsta skipti í sögu félagsins, sem var auðvitað ákaflega spennandi fyrir klúbbinn, en hvort heldurðu að sé betra veganesti inn í næsta vetur - að vera sópað fjögur núll, eða að hafa náð að gera einvígi úr þessu í smá stund og vinna tvo leiki?
Toronto var aldrei, aldrei að fara að vinna þessa seríu, það er bara ekki nógu gott lið, en það verður forvitnilegt að sjá hvaða pól þeir taka í hæðina með þetta lið á næstu misserum. Þið munið kannski að það er í rauninni algjör tilviljun að þetta lið hafi raðast svona saman, því Toronto menn ætluðu að stokka þetta allt upp og fara að tapa aftur með það fyrir augum að byggja upp nýtt lið. Svipað og Portland var að gera.
En svo fór liðið óvart að vinna allt of marga leiki og þá voru plönin um uppstokkun sett á ís og nú er svo komið að þeir eru smátt og smátt að pikka einn einn og einn leikmann inn í dæmið hjá sér en byggja að mestu á leikmannakjarnanum sem þeir eru með fyrir - ungum mönnum eins og Kyle Lowry, DeMar DeRozan og Jónas Val-ansi-Jónas.
Þetta lið er ekki meistaraefni og verður aldrei með þennan kjarna, en það er nógu gott til að míga utan í Cleveland í toppbaráttunni í deildarkeppninni en tapa svo örugglega fyrir því í úrslitakeppninni. Svona er þetta bara í austrinu og þetta er veruleiki sem blasir við öllum hinum liðunum sem komust í úrslitakeppnina þeim megin lands.
Það er því rosalega kósí fyrir LeBron James að vera svona einráður í deildinni sinni og hann er náttúrulega að njóta góðs af ýmsum forgjöfum í því sambandi. Fyrir það fyrsta er náttúrulega ekkert lið í austrinu sem getur veitt Cleveland einhverja samkeppni og því heyrir það til undantekninga ef liðið sópar andstæðingum sínum ekki.
Þarna kemur afar mikilvæg hvíld inn í dæmið, hvíld sem LeBron James þarf nauðsynlega á að halda nú orðið, enda orðinn fullorðinn maður. Og á meðan Cleveland er bara á ströndinni að tana sig eftir öll þessi sóp, eru verðandi mótherjar þeirra í Vesturdeildinni að fara í gegn um hverja blóðugu baráttuna eftir aðra og grænda sig í drasl.
En það þýðir ekkert fyrir okkur að vera að bölsótast út í LeBron James ræfilinn þó að þetta sé svona. Hann hafði vit á þvi að halda sig í Austurdeildinni þegar hann tók allar þessar Ákvarðanir sínar og þar er meira en huggulegt að vera. James er líka að nýta hvern dropa af þeim hagnaði sem það færir honum. Og þó það nú væri. Maðurinn ætlar að vinna eins mikið og hann getur meðan hann spilar í þessari deild.
Nú er Toronto farið á Benidorm* og Cleveland komið í lokaúrslitin eins og við vissum öll. Liðið bíður þess nú að fá að vita hvort það fær meistara Golden State eða ólíkindatólin í Oklahoma í keppninni um allar kúlurnar.
Við ætlum ekkert að fara að spá í spilin með það núna, en langar samt að vekja athygli á einu litlu atriði varðandi lokaúrslitin sem er ekki víst að allir hafi áttað sig á. Ef Golden State fer í fænalinn, verður liðið að sjálfssögðu með heimavallarréttinn gegn Cleveland eins og hvaða liði sem er í deildinni af því það setti jú met yfir fjölda sigra í deildarkeppninni (73).
En fari svo að Oklahoma komist í úrslitin, verður nefnilega Cleveland með heimavöllinn af því það vann 57 leiki í vetur en Oklahoma aðeins 55. Þetta er afar mikilvægt atriði í okkar huga ef Oklahoma tækist að slá Golden State út. Við sjáum ljóslifandi dæmi um það hvað eftir annað í hverri einustu úrslitakeppni hvað bölvaður heimavöllurinn er hrikalegar mikilvægur þegar kemur í svona hnífjafnar seríur.
Í lokaúrslitunum verður keppt með 2-2-1-1-1 fyrirkomulaginu alveg eins og í áðurgengnum umferðum eftir að 2-3-2 sýstemið var lagt niður á sínum tíma - segjum að séu tvö ár síðan. Og vá, hvað þér er skítsama um það, lol.
Nýja fyrirkomulagið þýðir að öll ferðalög verða stífari hjá leikmönnum, starfsmönnum og fjölmiðlafólki, en það skiptir ekki nokkru máli þegar komið er í lokaúrslitin því deildin er alltaf að lengja og lengja tímann á milli leikja og gott ef hann verður ekki lengdur enn meira í ár. Ætli verði ekki einhverjar þrjár til fjórar vikur á milli leikja í finals í ár.
En svona í alvöru, er sýstemið í lokaúrslitunum steingelt og handónýtt út af þessum langa tíma sem líður á milli leikja, sérstaklega af því fólk er komið upp á lag með það í t.d. undanúrslitunum að það séu leikir á hverju einasta kvöldi.
Svo þegar kemur í lokaúrslitin er svo langt á milli leikja að fólk er gjörsamlega dottið úr væbinu og stemmaranum þegar er loksins komið að næsta leik. Þetta er rosalegur galli. Ekki galli, svona eins og apaskinnsgalli (#landsbyggðin), heldur galli, eins og í gallagripur.
Að lokum er svo rétt að benda ykkur á að restin af leikjunum í úrslitakeppninni verða sýndir beint á Stöð 2 Sport. Leikur sex hjá Oklahoma og Golden State, sem er ekki nema rétt RISAVAXINN, er í beinni í nótt (laugardag) klukkan eitt og ef til oddaleiks kemur, verður hann í beinni á sama tíma á mánudagskvöldið. Lokaúrslitin verða svo öll sýnd beint eins og vant er og hérna getur þú séð áætlaða leiktíma í úrslitunum eftir því hvort liðið fer áfram úr Vesturdeildinni.
Við vonum samt að þú sért ekki að lesa þetta og pæla í því í leiðinni hvaða leikir verði sýndir og hverjir ekki, þegar þú ert með dagskrársíðuna á NBA Ísland beint fyrir framan nefið á þér. Við uppfærum þessa dagskrá alltaf eins fljótt og við getum.
Það er dálítið skondið að þó við eigum merkilega stóran lesendahóp hér á NBA Ísland, virðast ekki nema um það bil þrjú prósent af þessu ágæta fólki átta sig á því að þessi dagskrársíða skuli vera virk. Annars lendum við í því reglulega að vinir og fjölskyldumeðlimir senda okkur línu í óðagoti og spyrja hvort og hvenær einhverjir leikir séu í beinni. Kommon sko...
----------------------------------------------------------------------------------------------
* - Það stuðlar reyndar miklu betur að senda Toronto til Tenerife en Benidorm, þannig að við erum að hugsa um að gera undantekningu í þetta skiptið. Toronto fer á Tene - önnur á Bene.
Efnisflokkar:
Benidorm
,
Cavaliers
,
Dagskrá
,
LeBron James
,
Lokaúrslit
,
Raptors
,
Sigurvegarar
,
Úrslitakeppni 2016