Þeir voru nokkrir sem hristu höfuðið þegar við lofuðum þeim það fyrirfram að einvígi Golden State og Oklahoma ætti eftir að vera sögulega gott. Þetta var auðveldasta spá sem við höfum gert og hún gekk meira að segja eftir, öfugt við allar hinar.
Sjötti leikur liðanna í nótt fer sannarlega í sögubækurnar, enda bauð hann upp á allt sem leikir í úrslitakeppni þurfa að hafa til að vera epískir. Við þurfum tvö góð lið, fullt af stjörnum, fullt af tilþrifum á báðum endum vallarins, spennandi leik og svo vaðandi drama í lokin. Tékk.
Af því við erum svo neikvæð og leiðinleg, byrjum við á að skoða hvað fór úrskeiðis hjá Oklahoma.
Ef þú vilt stuttu útgáfuna, er þetta einvígi búið fyrir Oklahoma. Leikmenn liðsins gætu alveg eins pantað sér flug á Benidorm á morgun, því þeir þurfa ekki að eyða orkunni í að spila einn leik í viðbót sem þeir geta ekki unnið. Oklahoma fékk sinn séns í þessu einvígi, mjög góðan séns sem það skapaði sér sjálft. En þetta tækifæri er runnið úr greipum þeirra og kemur ekki aftur, ekki á þessari leiktíð.
Á þessum tímapunkti er heppilegt að fara í ásakanaleikinn og það er Kevin Durant sem fær skellinn hjá okkur að þessu sinni. Russell Westbrook fór hrikalega að ráði sínu í lok leiksins eftir að hafa verið með einn tapaðan bolta og næstum þrefalda tvennu í fyrstu þremur leikhlutunum, en það var (því miður) Kevin Durant sem var skussinn í þessum leik.
KD var ekki andlega rétt stefndur í þennan leik og við sáum það frá fyrstu mínútu. Við höfum aldrei áður séð Kevin Durant spila svona.
Maðurinn skaut í hvert einasta skipti sem hann fékk boltann, hvar sem hann var á vellinum og minnti á leikmann í tölvuleik þar sem skottakkinn á fjarstýringunni er fastur inni. Hann tók sér ekki tíma til að grípa boltann einu sinni - bara grýtti honum í átt að körfunni um leið og hann snerti leður.
Við setjum Durant í skussasætið eftir þennan leik þó Westbrook eigi það alveg eins skilið, því þeir voru jú með alveg jafn ljóta skotnýtingu í leiknum, en Durant er ekki vanur að skjóta svona oft og illa og það fór alveg með þetta hjá Oklahoma.
Vitið þið hver er helsta ástæðan fyrir því að við myndum kannski tippa á Golden State ef við gætum farið með það 20 ár aftur í tímann og látið það spila við ´96 Bulls?
Ekki ofhugsa þetta. Ástæðan er einföld stærðfræði: þriggja stiga körfur gefa meira en tveggja stiga körfur. Og Golden State er hrikalegasta 3ja stiga skotlið sem við höfum séð, aðallega út af tveimur mönnum, þeim Stephen Curry og Klay Thompson (þó þeir fái oft mikla hjálp frá félögum sínum).
Þetta er mikil einföldun, við vitum það, en það er staðreynd að Golden State vinnur marga leiki bara af því það skorar (miklu) fleiri 3ja stiga körfur en andstæðingurinn.
Oft spilar liðið betri vörn en andstæðingurinn, en stundum er mótherjinn með alveg jafn margar körfur skoraðar og Golden State, jafn mörg fráköst, stoðsendingar, stolna bolta, tapaða bolta - heldur í við meistarana á öllum sviðum leiksins. Nema í 3ja stiga skotum. Og þá bara vinnur Golden State. Nánast alltaf.
Þannig var þetta dálítið í sjötta leiknum í nótt. Oklahoma hitti úr aðeins 3 af 23 þriggja stiga skotum sínum í leiknum og fékk sem sagt níu stig af 3ja stiga línunni í nótt.
Klay Thompson, einn og sér, skoraði 33 stig úr þriggja stiga skotum. Alls skoraði Oklahoma 63 stig úr þristum í leiknum, gegn þessum níu frá heimamönnum. Þú vinnur engan körfuboltaleik með þessa tölfræði á móti þér. Ekki undir nokkrum kringumstæðum.
Oklahoma spilaði þokkalega í 43-44 mínútur. Við segjum þokkalega af því Durant og Westbrook hittu ekki neitt. En á síðustu 4-5 mínútunum fór Oklahoma að gera Oklahoma-lega hluti eins og að kasta boltanum asnalega frá sér og meistararnir gengu á lagið.
Með því að vera með alla þessa neikvæðni út í Oklahoma-liðið, er ekki ætlunin að gera lítið úr afrekum Golden State. Alls ekki.
Klay Thompson var maður leiksins og bætti gamla metið í úrslitakeppni um tvo þrista með því að setja ellefu kvikindi.
Curry var stórkostlegur á endasprettinum og alveg við þrennuna og Andre Iguodala var stórkostlegur í varnarleiknum, sérstaklega á kaflanum þar sem Warriors tók leikinn af heimamönnum, barði þá með honum og tróð honum ofan í kokið á þeim.
Þetta var einn magnaðasti viðsnúningur og skotsýning sem við höfum séð í úrslitakeppni og það var afar heppilegt að fá þennan leik á laugardagskvöldi svo sem flestir treystu sér til að sjá hann.
Málið er bara að við náum ekki óbragðinu úr munninum á okkur yfir frammistöðu Oklahoma í þessum leik. Það er alveg öruggt að bæði pressan og þreyta leikmanna höfðu áhrif á þessum skelfilega lokakafla hjá liðinu. Það útskýrir ekki allt saman. Jú, jú, Golden State datt í rosalegt stuð og spilaði góða vörn, þó það nú væri, en það útskýrir ekki þetta drullíbux frá Oklahoma.
Í hvert skipti sem við ætlum að fara að hrósa Golden State, verður okkur hugsað til hræðilegu skotanna og töpuðu boltanna sem Oklahoma bauð upp á í þessum leik. Golden State hrifsaði þennan leik til sín og tók hann, sem er gott hjá þeim, en þeir hrifsuðu hann ekki úr höndunum á Oklahoma-mönnum. Þeir tóku hann upp af jörðinni og hlupu með hann þegar þeir sáu að Oklahoma-menn stóðu bara álengdar og horfðu á hann í stað þess að taka hann sjálfir.
Long story short: Þú klúðraðir þessu Oklahoma.
Getur Oklahoma unnið í Oakland? Já, þeir sýndu það fyrir nokkrum dögum síðan.
En getur Oklahoma unnið leik sjö í Oakland, gegn meisturunum, sem eru búnir að hirða allan meðbyr í einvíginu með því að vinna síðustu tvo leiki þess og eru fyrir vikið búnir að finna hrokann sinn aftur? Einmitt.
Það yrði alveg stórkostlegt ef sjöundi leikurinn á mánudagskvöldið yrði í járnum allan tímann og úrslitin réðust í framlengingu. Og hversu epískt yrði það ef útiliðið, hafandi tapað tveimur í röð, myndi nú brjóta í bága við alla hefð og vinna leikinn? Það yrði magnað.
En þú veist það jafnvel og við - og hefur örugglega séð það hundrað sinnum - að svona rimmur enda í 90% tilvika á því að heimaliðið vinnur stórsigur þar sem úrslitin eru jafnvel ráðin strax í hálfleik.
Það kemur amk ekki til með að líða yfir okkur ef leikurinn á mánudaginn þróast þannig, þó það yrði þá fyrsti leikurinn í þessu einvígi sem færi þannig.
Málið er bara að körfuboltaguðirnir eru svo gjarnir á að refsa liðum grimmilega sem komast yfir 3-1 í seríum og klára þær ekki. Þess vegna erum við svo hrædd um að Golden State vinni oddaleikinn með 30 stigum.
Oklahoma var búið að spila alveg ógeðslega vel í þessari seríu, en nú erum við hrædd um að sú vinna sé öll farinn í súginn. Til að koma í veg fyrir það, þarf Oklahoma að vinna oddaleik á útivelli sem er álíka algengt fyrirbæri og lottóvinningar.