Sunday, May 29, 2016
Hvað sáu geimverurnar?
Mörg okkar eru orðin ansi fljótfæri, óþolinmóð og fljót að alhæfa á þessum síðustu og verstu.
Twitter ýkir þessa tendensa upp hjá okkur. Við lifum í þjóðfélagi þar sem allt þarf að gerast strax eða ekki og ekkert fólk lifir undir eins ströngum "hvað hefurðu gert fyrir mig nýlega" formerkjum og íþróttamennirnir okkar.
Einhver minntist á það á Twitter í kvöld meðan fyrri hálfleikurinn hjá Oklahoma og Golden State var í gangi, að ef geimverur hefðu komið til jarðar og fylgst með leikjum dagsins, hefðu þær líklega ekki getað komið auga á tvo af bestu leikmönnum sinnar kynslóðar í NBA leiknum og úrslitaleik Meistaradeildarinnar.
Hér var auðvitað átt við þá Cristino Ronaldo og Stephen Curry.
Þetta var svo sem ekkert galið tíst. Okkur skilst að Ronaldo hafi ekki verið góður í úrslitaleiknum í dag og ekki var Curry að gera neinar rósir þegar þarna var komið við sögu. En hvað er þá vandamálið?
Jú, eftir því sem okkur var sagt, var Ronaldo víst að spila meiddur í úrslitaleiknum, en lét það ekki aftra sér frá því að spila hverja venjulegs leiktíma og framlengingar - jú og skora svo sigurmarkið í vítaspyrnukeppninni í lokin.
Sá eða sú sem sendi frá sér þetta tíst - og við erum ekki að blammera þetta tíst, per se, heldur bara að nota það sem lítið dæmi í þessari hugleiðingu - hefði aldrei sent það frá sér klukkutíma eða svo síðar, því þá var Curry búinn að skjóta Oklahoma í kaf og tryggja liði sínu oddaleik í einvíginu. Og það eru ekki slæmar líkur á því að hann muni vinna þann oddaleik.
Við tökum það fram að við erum alveg jafn slæm í þessu og hver annar. Við erum jú nýbúin að hrauna yfir Oklahoma í færslunni á undan þessari. Það sem við erum að reyna að segja er að kannski erum við öll orðin aðeins of... hreinlega geðveik, þegar kemur að íþróttahetjunum okkar.
Það má vel vera að menn eins og Curry og Ronaldo muni aldrei heyra það sem við erum að tísta eða tuða um þá og það getur vel verið að þessi tíst séu bara afrakstur fólks sem er að hugsa upphátt og fíflast eitthvað.
Og það getur vel verið að íþróttamenn séu þarna fyrir okkur til að öskra á þá, af því við þorum ekki að öskra á fólkið sem raunverulega á það skilið (stjórnmálafólkið).
En það getur líka vel verið að við séum alveg búin að missa plottið og séum orðin allt of tilætlunarsöm, hrokafull og leiðinlegir íþróttaáhugamenn.
Það má enginn íþróttamaður, undir nokkrum kringumstæðum, eiga eitthvað sem í okkar huga er eitthvað annað en fullkominn leikur - þá er viðkomandi íþróttamaður bara aumingi sem er búinn á því.
Liðið sem vann titilinn í fyrra er old news og drasl ef það vinnur ekki titilinn í dag og liðið sem vann titilinn fyrir tveimur árum er bara steingervingur sem öllum er sama um. Þjálfarinn sem vinnur níu leiki í röð en tapar einum illa er fáviti sem á að reka af því hann veit ekkert hvað hann er að gera. Leikmaðurinn sem svaf ekkert nóttina áður af því honum var illt í maganum og barnið hans var að taka tennur, er huglaus aumingi af því hann hitti illa úr skotunum sínum.
Bæði Oklahoma og Golden State hafa verið mesta drasl í heimi og meistaraefni með nokkurra daga millibili, ekki meira en það.
Þið kannist við þetta. Og við líka, af því við erum alltaf að haga okkur svona sjálf og það er hálft í hvoru ástæðan fyrir því að við erum að skrifa þessa asnalegu hugleiðingu.
Enginn íþróttamaður er fullkominn, frekar en við sjálf. Maradona gerði fullt af mistökum, en það hafa Ronaldo og Messi líka gert. Larry, Magic og Jordan gerðu sín mistök. Það gera LeBron, KD og Curry líka, svo við ættum kannski að vera aðeins viljugri í að leyfa þeim að vera mannlegir.
Kannski var eins gott að geimverurnar sem vísað var í að ofan voru að horfa á lélega íþróttamenn spila en ekki á tímalínurnar okkar á Twitter.
Efnisflokkar:
Ásakanaleikurinn
,
Dólgslæti
,
Dónaskapur
,
Félagsmiðlar
,
Gildi og ákvarðanataka
,
Heimur versnandi fer
,
Twitter