Tuesday, May 31, 2016

Meistararnir áfram eftir sögulega seríu


Við sögðum ykkur að þetta færi svona fyrir tveimur dögum síðan. Let´s face it, það var ekki séns í helvíti að Oklahoma tæki þennan leik. Heimaliðið vinnur game 7, það er bara þannig. Það er hinsvegar gríðarlega margt sem vert er að hugleiða eftir þetta einvígi og við erum að hugsa um að gera það hérna fyrir neðan.

Oddaleikur Golden State og Oklahoma um sæti í lokaúrslitunum þróaðist ekki eins og við höfðum spáð, því Warriors var ekki búið að klára hann í öðrum leikhluta. Í staðinn spilaði Oklahoma frábærlega í fyrri hálfleik og neitaði að gefast upp fyrr en í fulla hnefana eins og það hefur gert alla þessa úrslitakeppni.

Niðurstaðan er ein besta sería í sögu úrslitakeppninnar - tvö lið sem eru gjörsamlega hlaðin hæfileikum og sveiflur, drama og tilþrif á heimsmælikvarða. Þetta var sería okkar áhugamannanna og allir nema stuðningsmenn Oklahoma brosa út að eyrum yfir þessu magnaða sjónvarpskonfekti. Þetta var gjörsamlega geggjuð sería og það fyndna við þetta er að lokaúrslitin hafa alla burði til að verða álíka skemmtileg, með álíka starpower og hæfileika í Cleveland-liðinu.


Við vitum að það er klisja, en Oklahoma getur farið með höfuðið hátt út úr þessari seríu þó hún hafi tapast. Við vitum alveg að Russell Westbrook og Kevin Durant gefa skít í slíkan hugsunarhátt, en þó stefnan sé alltaf titill eða dauði hjá OKC og sé búin að vera það síðan árið 2012, var frammistaða liðsins í þessari úrslitakeppni til algjörrar fyrirmyndar.

Russell Westbrook og Kevin Durant spiluðu eins og þeir væru tveir af allra bestu körfuboltamönnum í heimi og það var hér um bil nóg til að koma liðinu í lokaúrslitin, þar sem þeir hefðu líklega þótt sigurstranglegir í margra augum eftir að hafa farið í gegn um tvo risavaxna andstæðinga á leiðinni þangað.

Ástæðan fyrir því að Oklahoma á að hluta að taka þessu tapi sem mórölskum sigri, var að liðið hafði í fullu tré við tvö sögulega góð körfuboltalið. Vann annað þeirra nokkuð örugglega eftir að hafa látið slátra sér í leik eitt og farið alla leið í oddaleik gegn hinu. Okkur er sama hvað hver segir, þetta var mjög góður árangur hjá Oklahoma og miklu, miklu betri árangur en við bjuggumst við af þessu liði þetta vorið.


Stuðningsmenn Oklahoma vilja ekkert frekar hlusta á eitthvað jarm um móralska sigra frekar en leikmennirnir, en ef þið spáið í því er Oklahoma eins nálægt því að vera NBA meistari og lið getur verið án þess að lyfta bikarnum. Það vantar alveg sorglega lítið upp á til að þetta lið geti orðið meistari, nánar tiltekið tvo þokkalega vængmenn. Til dæmis menn eins og Andre Iguodala og Harrison Barnes. Það er ekki meira, þó við gerum okkur grein fyrir að slíkir menn vaxi ekki á trjánum, sérstaklega Iguodala.

Dion Waiters stóð sig betur í þessari úrslitakeppni en við hefðum nokkru sinni þorað að vona, en hann er ekki nógu góður leikmaður til að valda því hlutverki sem ætlast er til af honum. Og Andre Roberson er það ekki heldur. Roberson er frábær varnarmaður og stóð sig í rauninni frábærlega í úrslitakeppninni, en eitt pínulítið atvik í leiknum kórónaði þessa skoðun okkar og sannar gildi hennar.

Það var þegar Roberson fékk sendingu frá Kevin Durant og stóð aleinn fyrir utan 3ja stiga línuna í síðari hálfleiknum, en í stað þess að skjóta án þess að hika, kastaði hann boltanum eins og sjóðheitri kartöflu til Dion Waiters, sem varð að taka langt, kontestað tveggja stiga skot sem fór að sjálfssögðu ekki ofan í. Vandamál Oklahoma í hnotskurn í einu litlu atviki.Það er alveg satt sem þeir segja: þú lifir með þristinum og þú deyrð með honum - og ekkert lið sannar það sennilega eins vel og Golden State. Málið er bara að þeir skjóta svo fáránlega vel úr 3ja stiga skotum að þeir lifa í sátt og samlyndi með þristinum og hafa enn ekki dáið með honum. Það munaði fáránlega litlu að þessu sinni, en það var þristurinn og ekkert annað sem beilaði meistarana út úr þessu einvígi.

Og það sem gerði endanlega útslagið var að Stephen Curry var loksins "hann sjálfur" í heilan leik og það hefði ekki geta komið á betri tíma fyrir Golden State.

Oklahoma spilaði einfaldlega betur en Golden State ef undan er skilinn hræðilegi kaflinn í lok sjötta leiksins og nokkrar mínútur í síðari hálfleik í oddaleiknum í nótt. Oklahoma-sóknin gekk prýðilega og það sem meira er, var varnarleikurinn hjá þeim algjörlega frábær - sá langbesti sem Golden State hefur nokkru sinni mætt.

En hversu ógeðslega niðurdrepandi er það fyrir sálartetur hvaða liðs sem er, að það skuli spila betur en andstæðingurinn í meirihlutann af leiknum - og leikjunum - en tapa samt? Það þurfa leikmenn Oklahoma að díla við núna. Þeir litu betur út en Golden State, spiluðu frábæra vörn, en meistararnir bara skutu þá í kaf með þriggja stiga skotum. Sumum hverjum fáránlegum. Flestum þeirra, meira að segja, fáránlegum.

Þetta er í rauninni ekki sanngjarnt, en svona er þetta því miður. Leikmenn Oklahoma eiga eftir að vera með óbragð í munninum í allt sumar yfir þessu. Matt Moore, körfuboltaskríbent hjá CBS, orðaði þetta skemmtilega á Twitter í nótt.


Seríur sem fara í sjö leiki eru alltaf jafnar og þessi var engin undantekning á því. Og þegar seríur eru svona jafnar - ekki síst þar sem liðið sem tapar kemst yfir 3-1 - er augljóst að sigurinn hefði getað dottið hvoru megin sem var. Boltinn hefði ekki þurft annað en að skoppa til hægri en ekki vinstri - bara einu sinni - og þá vinnur lið B en ekki lið A.

Þess vegna er náttúrulega barnalegt að gefa út stórar yfirlýsingar eftir svona leiki (eins og við erum svo gjörn á að gera, eins og þið hafið séð). Liðið sem tapar er ekki drasl, og það er það sannarlega ekki í þessu tilviki. Oklahoma er alveg ógeðslega gott lið.

Kevin Durant sá þetta alveg eins og við og þegar hann var spurður út í tvo síðustu leikina og um leið hvað gerðist í einvíginu eftir að Oklahoma náði 3-1 forystu í því, sagði hann eitthvað á þessa leið: "Við spiluðum betur en þeir, fráköstuðum betur, áttum teiginn og spiluðum frábæra vörn. Þeir héldu bara áfram að setja niður þriggja stiga skot."Þetta var ekkert flóknara. Grínlaust. Það má vel vera að fólk sem raunverulega hefur vit á körfubolta segi ykkur eitthvað annað, en við fullyrðum það. Golden State vann þessa seríu af því það setti niður alveg ógeðslega mörg - og mörg hver fáránleg - þriggja stiga skot í síðustu tveimur leikjunum í þessu einvígi. Meira að segja mörg fyrir Golden State - og það eru MÖRG þriggja stiga skot.

Ef Golden State hefði hitt eitthvað nálægt því eðlilega úr 3ja stiga skotum í leikjum sex og sjö, væri Oklahoma á leiðinni í úrslit. Gallinn er bara sá að Stephen Curry og Klay Thompson eru tvær af bestu skyttum sem NBA deildin hefur nokkru sinni séð. Curry sú besta og Thompson er kominn helvíti hátt á þeim lista líka

Thompson sækir mjög hratt upp listann af því hann getur státað af því að hafa sett fleiri og stærri þrista í úrslitakeppninni en nokkurn veginn allir leikmenn í sögunni. Ray Allen er auðvitað þarna uppi, en magnið sem þeir Curry og Thompson eru að vinna með, trompar allt sem á undan hefur komið.

Tökum hinn svívirðilega ofmetna Reggie Miller sem dæmi. Hann skoraði 320 þrista í fimmtán ferðum í úrslitakeppnina á ferlinum. Klay Thompson er búinn að skora meira en helminginn af því (169) þó hann sé aðeins í sinni fjórðu úrslitakeppni á ferlinum. Reggie Miller skoraði þessa 320 þrista sína í 144 leikjum í úrslitakeppni, en Stephen Curry er búinn að skora 203 þrista í aðeins 50 leikjum í úrslitakeppni á ferlinum.


Þeir Ray og Reggie skoruðu nokkra áhrifamikla þrista á sínum tíma, en Reggie skoraði sína þrista flesta í fyrstu tveimur umferðunum, svo þeir Steph og Klay, sem eru á leið í önnur lokaúrslitin sín á ferlinum, eru þegar búnir að slá honum við hvað það varðar. Ray Allen á ennþá einn stærsta og eftirminnilegasta þrist í sögu lokaúrslitanna, en þeir skvettubræður hjá Golden State sækja hart að honum og eiga örugglega eitthvað uppi í erminni í komandi úrslitaeinvígi.

Við vitum alveg að þetta eru breyttir tímar og það er ósanngjarnt að bera þá Curry og Thompson saman við menn sem spiluðu á tímum þar sem fólk var ekki eins geggjað í dag þegar kemur að langskotum. Við erum aðeins að benda á það hvað Reggie Miller er ógeðslega ofmetinn bakverðir Golden State eru að skjóta allar metabækur í tætlur og eru að því er virðist og í raun og veru, rétt að byrja.

Þetta var hressandi útúrdúr, en það er bannað að misnota tækifæri til að drulla aðeins yfir Reggie Miller, þið vitið það.

Ef þið hafið lesið ameríska körfuboltamiðla lengur en í tvær vikur, vitið þið væntanlega hvert umræðan um Oklahoma mun fara héðan í frá. Nú snýst ALLT sem skrifað verður um þetta lið um hvort Kevin Durant framlengir samning sinn við félagið í sumar eða kýs að reyna fyrir sér annars staðar.


Við förum ekki ofan af því að við teljum og viljum að hann verði áfram hjá Oklahoma. Það er ekki ólíklegt að hann framlengi samning sinn um eitt ár og taki þar sem séns á að meiðast ekki alvarlega, því launaþakið verður búið að hækka svo svívirðilega eftir þetta eina ár að þá getur hann skrifað undir risasamning sem á engan sinn líkan í sögunni.

Okkur er alveg sama um þessar tölur, við vonum að bæði Durant og Westbrook verði áfram hjá Oklahoma og við erum alveg handviss um að þannig vilja forráðamenn Oklahoma hafa það. Þeir vita sem er að liðið er aðeins hársbreidd frá því að vinna meistaratitil og að vandamál þess liggur ekki hjá stjörnunum, heldur hjá aukaleikurunum, sem eru bara ekki nógu góðir.

Þú vinnur ekki titil með Dion Waiters í lykilstöðu, fjandakornið. Svona eins og við eigum eftir að sjá Cleveland vinna titil ef það þarf á stöðugu framlagi frá JR Smith að halda. Það á ekki að vera hægt, því auk þess að vera algjör hægðaheili, er Smith oftast hræðilegur þegar lið hans þarf mest á honum að halda (sjá: 28% 3ja stiga skotnýtingu í lokaúrslitunum í fyrra). Dálítið eins og Jamal Crawford hjá Clippers.
Þó við vonum vissulega að Durant verði um kyrrt hjá Oklahoma og þó að það sé á flestan hátt skynsamlegasta ákvörðunin fyrir hann, er eitt lið sem orðað hefur verið við hann áhugaverðara en öll önnur og það er einmitt Golden State.

Meistararnir gætu tekið hann með smá leikfimi í launa- og leikmannamálum, þó þeir þyrftu líklega að þynna aðeins hjá sér hópinn. Tilhugsunin um Kevin Durant í þessu Golden State liði hlýtur að vera efni í verstu martraðir hjá restinni af deildinni og það yrði þá og þegar óárennilegasta sóknarlið í sögu deildarinnar. Í einu orði sagt: Ósanngjarnt.

Við sjáum það samt ekki fyrir okkur að Kevin Durant muni ganga í sæng með óvininum, því hann hefur hingað til verið mjög hollur sínu félagi. Það er samt ómögulegt að gera sér í hugarlund hvað hann er að hugsa núna, annað en það að akkúrat núna er hann í massífu þunglyndiskasti.

Restin verður að koma í ljós í sumar. Sumarið eftir frábæra úrslitakeppni hjá Oklahoma, þá næstbestu í sögu félagsins (við blöndum sögu OKC ekki saman við sögu Seattle, það er fáránlegt). Megi þetta lið halda áfram að vaxa.

Fjölmiðlamenn greindu frá því að Kevin Durant hafi tekið í höndina á öllu staffinu hjá Golden State og þakkað öllum fyrir rimmuna, allt niður í skúringakonur og boltastráka. Það er klassi yfir Durant, hann er ekki bara stórkostlegur leikmaður, hann er líka vel upp alinn og auðmjúkur í tapi.Að lokum verðum við að gefa þjálfaranum Billy Donovan feitt kúdós. Hann var ekki langt frá því að stinga endanlega upp í okkur með því að fara hreinlega alla leið, eftir að við vorum búin að gera grín að honum og kalla hann lélegan þjálfara um daginn. Þetta undirstrikar hvað við höfum ekki hundsvit á körfubolta og erum í raun algjör fífl, en þið vissuð það nú alveg.

Donovan notaði veturinn í vetur til þess að gera tilraunir með liðið og var ekkert að stressa sig á því þó það tapaði kannski leikjum sem það átti að vinna í deildarkeppninni. Svo skipti liðið um gír í úrslitakeppninni og breyttist í þetta drápstól sem við sjáum fara alla leið með Golden State. Billy Donovan er enginn skussi, það erum við sem erum skussar.