Tuesday, May 31, 2016
Fjórum sinnum betra en í fyrra
Það munaði ekki nema klofnu punghári að megnið af umræðunni um úrslitakeppnina í ár snerist að mestu um "fall Golden State Warriors." Svona getur þetta verið í þessu dásamlega sporti. Það er grátlega stutt á milli Óskars og Ófeigs stundum, eins og Oklahoma-menn fengu að reyna í nótt.
Hugsið ykkur bara hvert umræðan hefði farið ef Oklahoma hefði tekist að nýta einhvern af þessum þremur sénsum sem það fékk til að klára Warriors. Þá færi umræðan (hjá mörgum) á þetta plan:
* Að titillinn í fyrra hafi verið heppni af því Golden State þurfti ekki að mæta San Antonio og af því það vantaði lykilmenn í öll liðin sem það mætti í úrslitakeppninni - mest í Cleveland í lokaúrslitunum.
* Sennilega færu einhverjir að gagnrýna leikstíl Warriors og teldu upp rök sem þeir finndu til að sýna fram á að Steve Kerr væri ekki þessi frábæri þjálfari sem við héldum og að Stephen Curry hafi ekki beint brotnað undan pressunni, en í það minnsta valdið vonbrigðum í úrslitakeppninni hvort sem hann var meiddur eða ekki.
* Einhverjir pennar slá því föstu að Golden State geti ekki átt von á því að vinna fleir titla í framtíðinni nema taka sénsinn á að þynna liðið með því að ná í Kevin Durant í sumar.
* Aðrir segja að það hafi verið eltingaleikur liðsins við 73 sigrana í deildarkeppninni sem hafi farið með þetta, því leikmenn hafi hreinlega brunnið út í úrslitakeppninni eftir að hafa eytt of mikilli orku í deildina.
En blessunarlega fyrir meistarana, náðu þeir á einhvern ótrúlegan hátt að snúa þessu tapaða einvígi sér í hag og klára það í oddaleik á heimavelli, nokkuð sem virtist óhugsandi fyrir viku síðan. Nei, nú er það Oklahoma og leikmenn þess sem þurfa að standa undir allri þessari gagnrýni og leiðindaskrifum. Verði þeim það að góðu. Úff.
Í staðinn fyrir alla neikvæðu punktana sem við töldum upp hér að ofan, verður Golden State liðið nú ausið lofi, enda með hjarta meistarans sem tryggði því sigur í erfiðustu seríu þess til þessa.
Svona er svakalega stutt á milli í umfjölluninni og við munum satt best að segja ekki eftir tilviki þar sem er svona mjótt á mununum í narratífi - að stig til eða frá ráði því hvort frábært körfuboltalið teljist sannarlega eitt besta lið allra tíma, eða hvort það hafi bara verið loftbóla sem sprakk á fyrstu alvöru hindruninni sem varð á vegi hennar. Enn og aftur erum við að einfalda þetta mikið, en þið fattið hvað við erum að fara.
Og nú er bara ein sería eftir fyrir Golden State til að sanna sig endanlega sem eitt af þeim bestu í sögunni og kóróna þetta magnaða tímabil meta og 73 sigra. LeBron James er búinn að bíða lengi eftir að fá annan séns í Golden State, en að þessu sinni er hann með miklu meiri hjálp en í fyrra. Þá var enginn Kevin Love, (mestmegnis) enginn Kyrie Irving og svo má bæta því við að það var sannarlega enginn Channing Frye heldur.
Það hefur verið vinsælt þrætumál í eitt ár að stúdera hvernig einvígi Cavs og Warriors hefði farið í fyrra ef allir hefðu verið heilir hjá Cleveland. Án þess að geta fullyrt það, erum við nokkuð viss um að þó serían hefði spilast allt öðruvísi, hefði Golden State unnið hana á svipaðan hátt og það gerði þegar upp var staðið.
Þessi miklu betri sóknarleikur sem Cleveland hefði notið ef allir hefðu verið heilir, hefði líklega ekki náð að brúa bilið sem myndaðist vegna miklu lélegri varnarleiks. Kyrie Irving og Kevin Love eru svo langt undir meðallagi sem varnarmenn að það háir Cleveland-liðinu alvarlega.
Hvað haldið þið að menn eins og Stephen Curry og Draymond Green sleiki út um í veggnum og veltunni þegar þeir sjá fyrir sér að mæta Kyrie Irving og Kevin Love í staðinn fyrir Tristan Thompson og Matthew Dellavedova - svo ekki sé minnst á Andre Roberson, Kevin Durant og Serge Ibaka? Þið getið rétt ímyndað ykkur.
Eins og verða vill í lokaúrslitum, hefur enginn hugmynd um hvernig serían kemur til með að þróast, því enginn hefur hugmynd um hvernig þessi lið passa saman. Við fengum einhvern smjörþef af því í deildarkeppninni, þar sem Golden State gjörsamlega valtaði yfir Cleveland í báðum viðureignum, en eins og þið vitið er sjaldnast fylgni milli viðureigna í deildakeppni og úrslitakeppni. Lið sem hefur sópað öðru í deildarkeppninni lætur svo sópa sér út í úrslitakeppninni. Það eru mörg dæmi um þetta.
Það sem verður einna áhugaverðast að sjá í þessu einvígi er hvort liðin halda áfram að vera svona lygilega heit í þriggja stiga skotunum. Cleveland setti met yfir flesta þrista í einum leik þegar það drullaði yfir Atlanta um daginn og bæði Steph Curry (32) og Klay Thompson (30) bættu metið (28) yfir flestar þriggja stiga körfur skoraðar í einvígi í úrslitakeppninni í seríunni við Oklahoma.
Við ætlum ekki að fara djúpt í þetta einvígi af því við erum ekki Zach Lowe og höfum ekki hundsvit á körfubolta. Það eina sem við vitum og fullyrðum - alveg eins og við gerðum fyrir úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar - er að einvígi Golden State og Cleveland verður alveg hrikalega skemmtilegt.
Það eru einfaldlega of margir frábærir körfuboltamenn í þessari seríu til hún geti með nokkru móti orðið leiðinleg. Það er bara ekki séns. Þetta verður fjórum sinnum betri sería en úrslitaeinvígið í fyrra. Það er alveg bókað, sama hvernig það fer.
Rétt eins og var og er með Warriors, er Cleveland með gríðarlegt narratíf á bakinu, sem á betri íslensku þýðir að það verður óhemju mikið skrifað um það hvort sem liðið vinnur eða tapar og það er nokkuð öruggt að einvígið verður sögulegt af því einu að LeBron James tekur þátt í því.
LeBron er náttúrulega að taka þátt í sjötta úrslitaeinvíginu sínu í röð og því sjöunda alls, sem er einstakt afrek hvort sem Austurdeildin er búin að vera drasl undanfarin ár eða ekki. LeBron er nú þegar kominn það hátt á lista bestu körfuboltamanna allra tíma að allt sem hann gerir í lokaúrslitunum er sögulegt.
Við vonum að bæði lið haldi áfram þar sem frá var horfið og haldi áfram að setja met í þriggja stiga körfum í úrslitunum. Það eru sannarlega mannskapur þarna til að gera það.
Við ætlum ekki að spá fyrir um þetta einvígi, en berum þess í stað upp spurningu sem þið getið reynt að melta þangað til klukkan eitt á fimmtudagskvöldið (Stöð 2 Sport) þegar fyrsti leikur lokaúrslitanna fer fram.
Hvernig í ósköpunum á Cleveland að stöðva þetta Golden State lið?
Efnisflokkar:
Cavaliers
,
Hágæðaskemmtun
,
Klay Thompson
,
LeBron James
,
Lokaúrslit
,
Metabækurnar
,
Sögubækur
,
Stephen Curry
,
Úrvalsleikmenn
,
Warriors