Sunday, February 21, 2010

Orlando-Cleveland í beinni klukkan 18 í kvöld


Það er rétt að minna körfuboltaáhugamenn og konur á að í kvöld klukkan átján verður bein útsending á Stöð 2 Sport frá viðureign Orlando Magic og Cleveland Cavaliers í NBA deildinni.

Það er ekki á hverjum degi sem NBA leikir eru á dagskrá á kristilegum tíma fyrir íslenska áhorfendur og því er um að gera að gera poppið og kókið klárt fyrir kvöldið.

Flestir hallast að því að það verði annað hvort Cleveland eða Orlando sem muni verða fulltrúi Austurdeildar í lokaúrslitum NBA í sumar og því er ljóst að hér er á ferðinni hörkuslagur.

Orlando hafði nokkuð góð tök á Cleveland í fyrravetur, en nú er öldin önnur og Cavs hefur unnið báðar viðureignir liðanna til þessa í vetur. Það verður líka skemmtilegur bónus að fá að sjá hvort Antawn Jamison verður búinn að hrista af sér frumraunartitringinn og fer að spila eins og maður.

Cleveland er líka búið að tapa tveimur leikjum í röð og má ekki við enn einu tapinu - ekki síst þegar leikmenn liðsins vita að þeir verða í beinni útsendingu á Íslandi.