Sunday, February 21, 2010
Té-Mákur er aftur farinn að spila körfubolta
Það gladdi okkur að sjá að Tracy McGrady leika listir sínar á körfuboltavelli á ný í nótt þegar hans menn í New York Knicks töpuðu fyrir Oklahoma City.
Té-Mákur spilaði raunar eins og hann hefði aldrei tekið sér tveggja ára pásu. Svona næstum því.
Hann á ekki eftir að leiða Knicks til meistaratitils í sumar en það verður ekki af honum tekið að hann setti smá buzz í áhorfendastæðin í Garðinum. Það er ansi langt síðan einhver hefur gert það.
Og Oklahoma að vinna áttunda leikinn sinn í röð. Bara skemmtilegt lið. Westbrook hársbreidd frá þrennunni með 31/9/10 leik og Durant jafn óstöðvandi og áður. Oklahoma hefur löngu tekið við af Portland sem það NBA lið sem á bjartasta framtíð fyrir höndum. Gaman að sjá hvað verður hægt að styrkja þetta lið næsta sumar.
Það er svo ekki hægt að ljúka þessum pistli án þess að minnast á afrek hins smáa en knáa Darren Collison hjá New Orleans í fyrrakvöld.
Þessi litli tappi sem er nú að fylla skarð Chris Paul skilaði Hornets 18 stigum, 13 fráköstum og 12 stoðsendingum í sigri á Indiana. Og 8 töpuðum boltum reyndar líka. Það sem var ótrúlegast við þessar tölur hans var að hann hirti 10. frákastið sitt löngu áður en flautað var til hálfleiks. Ekki á hverjum degi sem svona stubbar skila svona tölfræði.
Hann er þá annar maðurinn í sögu Hornets sem nær þrennu í búningnum sem hann klæðist á myndinni. Þetta er auðvitað sami búningur og númer og Larry Johnson klæddist hjá félaginu á tíunda áratugnum.