Saturday, February 27, 2010

Jason Drengsson þandi tölfræðiskýrslur


Svo virðist sem gamla brýnið Jason Kidd hafi kíkt á NBA Ísland áður en hann steig inn á völlinn með Dallas gegn Atlanta í gærkvöldi.

Lofræða okkar um Pavel Ermolinskij í gær virðist hafa kveikt heldur betur í hinum tæplega 37 ára gamla Kidd, því hann bauð upp á eina feitustu þrennu sína á ferlinum í sigri Dallas á Atlanta.

Kidd skoraði 19 stig, hirti 16 fráköst og gaf 17 stoðsendingar, sem er enn hrikalegri þrenna en Pavel náði í Hveragerði í gærkvöldi.

Josh Smith hjá Atlanta var reyndar ekki með neinn slorleik heldur. 18 stig, 11 fráköst, 8 stoðsendingar og 7 stolna bolta.

Og Russell Westbrook hjá Oklahoma skilaði líka 18/8/15 leik í sigri á Wolves. Svona leikir eru að verða daglegt brauð hjá drengnum.

Svona tölfræðiklám gleður okkur svo óstjórnlega. Þetta eru jól í febrúar. Ekkert annað.