Friday, February 19, 2010

Nú þarf Cleveland að fara að vinna úrslitaleiki í körfubolta


Það væri líklega hægt að skrifa bók um þá staðreynd að Antawn Jamison er orðinn leikmaður Cleveland.

Nú er Cleveland tvímælalaust orðið sterkasta lið í heimi á pappírunum. Pressan meiri á LeBron James og félaga að skila titli í hús. Þetta lið hefur enga afsökun fyrir því að verða ekki meistari. Enga.

Bilið milli þeirra sem hafa og hafa ekki er að breikka gríðarlega í heiminum undanfarið og það á ekki síður við um NBA.

Er það eðlilegt að liðið sem teljast mátti með mestu breiddina í deildinni fái 20/10 mann eins og Jamison á silfurfati? Svarið við því er þvert nei.

Af hverju segjum við á silfurfati? Af því Zydrunas Ilgauskas er ekki að fara að spila með Washington Wizards. Hann verður keyptur út þar, bíður í 30 daga og semur aftur við Cleveland.

Þetta eru ekki eðlileg viðskipti. Dálítið eins og menn spila þetta í viðskiptalífinu á íslandi. Löglegt en siðlaust og allt það.

En við skulum ekki velta okkur um of upp úr peningum og pólitík. Ef okkur þætti það skemmtilegt, myndum við klárlega ekki halda úti síðu eins og NBA Ísland. Og þar af leiðandi væri líf þitt, lesandi góður, örugglega nokkrum punktum leiðinlegra en ella.

Cleveland var á löngum kafla orðað við Amare Stoudemire hjá Phoenix, en fékk að lokum mun hagstæðari díl þegar það landaði Jamison. Við tókum eftir því að nokkrir pennar vestan hafs hafa ákveðið að kúka yfir Jamison-dílinn og horfa dreymandi upp í loftið og segja "hvað ef Cavs hefði landaði Stoudemire?"

Prump, kjaftæði og vitleysa, segjum við.

Jú, jú, Jamison er 33 ára gamall og á ekkert eftir að verða betri, en þú veist hvað þú færð frá honum á kvöldi hverju. Alltaf.

Og það er talsvert auðveldara að hugsa sér Jamison falla vel inn í Cleveland en Stoudemire. Hann á tvö ár eftir af tiltölulega stórum samningi sínum, en það er seinni tíma vandamál - og ekki stórt í sniðum.


Amare? Hann er jú bara 27 ára og skorar 20+ stig fyrir þig - en hvað meira? Það sem við sjáum fyrir okkur að Cleveland hefði fengið með Stoudemire væri ömurlegur varnarleikur, of fá fráköst, of mikið væl, of mikill töffaraskapur með of lítilli innistæðu og hné sem eru tifandi tímasprengjur.

Og ekki gekk honum sérstaklega vel síðast þegar hann spilaði með Shaquille O´Neal. Og vilt þú yfir höfuð byggja framtíð félags þíns á manni sem er með orðin "Svartur Jesús" húðflúruð á hálsinn á sér? Bara svona pæling.

Sú staðreynd að Antawn Jamison er kominn í herbúðir Cleveland Cavaliers þýðir einfaldlega að nú er að duga eða drepast fyrir LeBron James og hans menn.

Það er búið að leggja á borðið fyrir tímaskeið LeBron James í NBA deildinni.

Nú geta Cleveland menn hætt að fíflast og farið að setja undir sig hornin og vinna titla.

Annað væri óeðlilegt.