Thursday, February 18, 2010

Enn er rifa á glugganum


Margir hafa eflaust furðað sig á því hvað við höfum lítið blandað okkur í fjaðrafokið á síðustu dögunum fyrir lokun félagaskiptagluggans í NBA.

Það er kannski af því við erum orðin svo gömul og lúin hérna á ritstjórninni. Okkur finnst yfirleitt betra að bíða þangað til glugginn lokast og draga þá upp mynd af öllu saman.

Það sem hefur einkennt gluggann í ár er nokkurn veginn þetta. Mikið skrifað og ekkert gert.

Við gátum þó treyst á að eigandi Dallas hefði pung í að gera eitthvað. Hann hristi upp í hópnum hjá sér og fékk Brendan Haywood og Caron "Tough Juice" Butler frá Washington. Fyrir ári hefðum við verið mjög spennt fyrir hönd Dallas, en Butler er bara búinn að spila eins og uppvakningur hjá Wiz svo lengi að við erum farin að efast um hungrið hjá honum.

Svo var það auðvitað hann Marcus Camby. Hann fór í dramakast þegar hann frétti að honum hefði verið skipt til Portland. Bar því við að honum liði vel í LA og vildi síður rifa fjölskylduna upp og fara með hana norður til Oregon.

Nú erum við það fullorðin hérna að við vitum alveg að það er ekkert gaman að þurfa að rífa fjölskylduna upp, en hversu metnaðarfullur leikmaður ertu ef þú VILT EKKI FARA FRÁ LA FOKKÍNGS CLIPPERS!?!

Ekki misskilja, Camby er enn hungraður leikmaður. Þú ert ekki við toppinn í fráköstum í NBA ef þú ert að krúsa, en kommon. Hversu metnaðarlaus er þessi maður að vera ekki búinn að reyna að komast að hjá contender á síðustu árunum í deildinni? Hversu mikið mál er að fórna síðustu tveimur árunum í deildinni til að reyna að vinna eitthvað? Þú hefur allan bleepin tíma í heiminum til að leika við krakkana þína næstu tuttugu árin eftir það! Sauður.

Já og nú áðan var Cleveland að fá Antawn Jamison frá Washington fyrir.... ekkert. Æði. Meira um það fljótlega.