Thursday, October 31, 2013

Halló Hafnarfjörður*


Mikið fjandi er gaman að sjá þetta unga og skemmtilega lið Hauka í efstu deild á ný. Við skelltum okkur í Hafnarfjörðinn í gærkvöld og sáum Haukana skella Snæfelli 82-77 á Ásvöllum.

Ef marka má frétt karfan.is var þetta í fyrsta skipti síðan Stockton og Malone voru að spila sem Haukarnir ná að vinna Snæfell á heimavelli sínum. Sigur heimapilta var sanngjarn þó þeir hafi verið dálítið taugaóstyrkir í blálokin.

Nýliðar Hauka byrja leiktíðina því 3-1 og eru í rjúkandi fínum málum. Bandaríkjamaðurinn þeirra Terrence Watson var hrikalegur og skilaði 31/13 og Emil Barja hlóð í aðra þrennu vetrarins með dásamlegri 21/10/10 línu.

Emil er að bjóða upp á 10,3 stig, 9,8 fráköst og 8,5 stoðsendingar að meðaltali það sem af er á leiktíðinni og engum blöðum um það að fletta að hann er hér opinberlega að skora á Pavel Ermolinski í þrennukeppni í vetur.

Þvílík forréttindi að fá að fylgjast með svona snillingum spila körfubolta. Ef þessi byrjun á deildinni er til marks um það sem koma skal er ljóst að það verða jól í allan vetur.

Ef marka má fyrstu leikina liggur okkur við að segja að nýju 4+1 reglurnar um erlenda leikmenn séu besta reglubreyting í sögu mannkynsins. Við kunnum ekki að koma því í orð hvað við erum hamingjusöm yfir því hvað ungu íslensku leikmennirnir eru að standa sig vel.

Við vorum á báðum áttum um þegar ákveðið var að breyta reglunum frá því sem var í fyrra og óttuðumst að gæðin ættu kannski eftir að minnka eitthvað, en annað hefur komið á daginn. Þetta er bara blússandi þjóðlegt og skemmtilegt. Ekkert annað.

Þó við séum gjörsamlega fallin fyrir Haukaliðinu höfum við á tilfinningunni að við verðum að spara lofið á liðið svona snemma leiktíðar, því ekki viljum við að þessir guttar fari að ofmetnast og brenna yfir.

Það er samt ekki hægt annað en að hrífast af þessu liði og eins og við sögðum ykkur í síðustu færslu var umgjörðin hjá Haukunum til allrar fyrirmyndar í gærkvöldi. Stórt prik í kladdann fyrir Hafnfirðingana.

Íþróttamiðlar landsins eru nokkurn veginn á einu máli um það að Snæfellsliðið hafi átt arfaslakan leik.

Ingi Þór þjálfari var reyndar alveg sammála því og var til að mynda ekki par hrifinn af frammistöðu leikstjórnandans síns Vance Cooksey, sem er að skjóta innan við 32% úr 2ja stiga skotum það sem af er í deildinni. Þetta er snaggaralegur spilari en hann hefur ekki náð sér á strik og virðist vera orðinn tæpur á því að halda vinnunni.

Við ætlum nú ekki að setja Hólmara undir fallöxina eftir fjóra leiki, en það verður að viðurkennast að þetta lið á að vera miklu betra en þessi 1-3 byrjun segir til um. Snæfellsliðið er að okkar mati ljómandi vel mannað - a.m.k. hvað varðar stóra stráka - og hefur ekkert með það að gera að vera með undir 50% vinningshlutfall.

Það er ljóst að við verðum að fylgjast náið með þessu Haukaliði í vetur og við hvetjum fólk sannarlega til að skella sér á völlinn og sjá það spila. Einhver gæti haldið að þeir væru bara "ungir og vitlausir" og vissu ekki betur, en sennilegra er að þetta sé bara fjandi gott lið.

Kíktu á nokkrar myndir ef þú vilt. Það er aldrei að vita nema þær stækki ef þú smellir á þær.

* - Já, við sögðum halló Hafnarfjörður í (yfir)fyrirsögn. Enginn er fullkominn.