Thursday, October 31, 2013

Herra alheimur fær andlitsmeðferð


Það gerist ekki á hverjum degi að besti körfuboltamaður heims láti troða yfir sig. Það gerðist nú samt í nótt sem leið þegar lúnir meistararnir í Miami ákváðu að tapa fyrir Philadelphia 76ers.

Svar NBA deildarinnar við fyrrum bæjarstjóra Kópavogs, Evan Turner, tók sig til og sturtaði einni á LeBron James þegar leikurinn var nýhafinn. Jú, jú, menn hafa fengið verri andlitsmeðferðir en þetta, en það er ekki oft sem kóngurinn sjálfur lætur fara svona með sig.



Veðbankar í Bandaríkjunum tippuðu á að Philadelphia ætti eftir að vinna eitthvað í kring um 16 leiki í deildakeppninni í vetur og því vantar nú ekki nema 15 sigra í viðbót til að standast þau háleitu markmið. Þetta er vissulega bara einn leikur, en ljúfur var sigurinn fyrir guttana.

Það er ekkert leyndarmál að Sixers er ekki beint að stefna á meistaratitil í vor og satt best að segja er fátt um fína drætti í leikmannahóp liðsins. Eins og sýndi sig í gær virðist þó vera smá neisti í þessum strákum og hvað okkur varðar værum við alveg til í að borga okkur inn á leik til að horfa á Evan Turner og Michael Carter-Williams spila körfubolta.

Það hefur varla farið fram hjá nokkrum NBA áhugamanni hvað nýliðinn Carter-Williams var að bjóða upp á í frumraun sinni í gær. Söguleg sprenging hjá drengnum, sem var ekki langt frá því að hlaða í fernuna.



Hvað LeBron James varðar, virðist hann hafa náð að kvitta eitthvað aðeins fyrir andlitsmeðferðina ef marka má myndina hérna fyrir neðan.