Wednesday, October 30, 2013

Lúxuskvöld í Hafnarfirði


Ungt lið Hauka er án nokkurs vafa eitt skemmtilegasta liðið í Dómínósdeild karla, en það er ekki bara liðið þeirra sem er í blússandi uppsveiflu. Haukarnir slógu nefnilega upp veislu í tilefni tvíhöfðans við Snæfell.

Við erum ekkert að deyja úr hrifningu yfir því að plögga eitthvað dæmi sem snertir okkur ekki beint, en það er ekkert nema sómi af því að Valitor hafi haldið upp á flutning sinn í Hafnarfjörðinn með því að bjóða áhorfendum frítt á tvíhöfðann.

Fyrir vikið var mætingin á leikina til mikils sóma. Við erum ekki með staðfestar tölur um mætinguna, enda skiptir það ekki höfuðmáli. Það sem skiptir máli er að fólk fjölmennti og hvatti bæði stráka og stelpur af miklum móð.

Þá veittum við því athygli að Haukarnir fíruðu líka upp í grillinu og smelltu í nokkra burgers. Vel má vera að þetta hafi oft verið gert á Ásvöllum, en við tókum sérstaklega eftir grillstemningunni í Hafnarfirðinum í kvöld. Þar mátti sjá höfðingja eins og Marel Guðlaugsson munda grilltöngina.

Það er bara eitthvað við andrúmsloftið sem skapast þegar kveikt er í grillinu fyrir leiki og mætingin er góð líkt og oftast er hjá t.d. KR-ingum og Stjörnumönnum, þó mætingin hjá síðarnefnda klúbbnum mætti vera miklu betri.

Við ætlum bara að nota þetta tækifæri og hrósa Haukunum fyrir flotta umgjörð í kvöld. Félagið er vissulega með frábær lið í karla og kvennaflokki, en svona flott umgjörð ber vott um klassa og metnað. Vel gert, Haukar.