Monday, October 19, 2015

Af átakanlegri þrennuviðleitni Ricky Davis


Hægðaheili (ens. Shit for brains) er orðið sem kemur upp í hugann þegar við rifjum upp ferilinn hans Ricky Davis.

Þessi snaggaralegi vængmaður hafði óhemju hæfileika en skorti siðfræðilegar trefjar og andlegt atgervi til að nýta þá til fullnustu.

Davis lék með sex félögum á fjórtán ára ferli í NBA deildinni og var þekktur sem samviskulaus og skotglaður hægðaheili, en það var eitt atvik öðrum fremur sem setti svip sinn á feril hans - atvik sem menn eru enn að tala um.

Þetta var þegar hann lék með Cleveland árið 2003, vorið áður en LeBron James gekk í raðir Cavaliers. Cleveland-liðið var þá að bursta Utah Jazz á útivelli og Davis átti skínandi góðan leik. Svo góðan leik að hann vantaði aðeins eitt frákast upp á að ná þrefaldri tvennu.

"What the hell," hefur hann líklega hugsað þegar hann sneri sér við þegar sex sekúndur voru eftir af leiknum og skaut boltanum á eigin körfu í þeirri von um að fá skráð á sig frákastið sem upp á vantaði.

Skemmst er að segja frá því að hann fékk frákastið ekki skráð á sig og uppskar ekki annað en að komast á dauðalistann hjá Jerry Sloan, þjálfara Utah. Hérna fyrir neðan er viðtal við Sloan sem tekið var eftir leikinn. Það sést svo augljóslega hvað hann langar að taka Davis og troða honum ofan í trjákurlara.



Ricky Davis skoraði 20,6 stig, hirti 4,9 fráköst, gaf 5,5 stoðsendingar og stal 1,6 boltum að meðaltali á þessari leiktíð, en það er afskaplega innantóm tölfræði þegar haft er í huga að liðið vann ekki nema 17 leiki allan veturinn.

Kannski var það lán í óláni að Davis og félagar væru svona hræðilegir, því Cleveland datt í lukkupottinn sumarið eftir og fékk fyrsta valrétt í nýliðavalinu árið 2003. Og gettu nú hvaða leikmaður varð fyrir valinu!


















Talandi um hvað ef, þá er ekki gott að segja hvað hefði orðið um LeBron James ef Ricky Davis hefði spilað meira en 22 leiki árið eftir. Honum var þá skipt til Boston, þegar Cleveland var búið að fá nóg af honum. Líklega hefði félagið ekki getað fengið verri fyrirmynd fyrir Frelsarann sinn LeBron James en vitleysinginn Ricky Davis.

Þeir voru nokkrir frekar vafasamir hjá Cleveland á þessum árum, en Davis toppaði þá alla þegar kom að því að vera vitleysingur.

Ef Séð og Heyrt gerir lífið skemmtilegra, gerði Ricky Davis NBA deildina skemmtilegri.