Monday, October 19, 2015

Endurtekinn áróður um LeBron James


Við vitum að við höfum skrifað um þetta áður og það er hallærislegt, en mikilvæg skilaboð verður stundum að tyggja í fólk svo það sé örugglega með á nótunum. Ekki síst nú á síðustu og verstu tímum þar sem hægt er að halda athygli fólks í innan við sekúndu í senn. Og nú hætta margir að lesa og skipta yfir á bleikt.is eða eitthvað, sem er auðvitað ljómandi í sjálfu sér.

Okkur langaði bara að sýna ykkur hvað það sést skemmtilega svart á hvítu hver er búinn að vera besti körfuboltamaður heims undanfarin ár. Flakkið á LeBron James milli Suðurstrandar og Cleveland hefur eflaust farið í taugarnar á mörgum, en það góða við það er að það gefur okkur perspektíf á hvað það gerir fyrir lið að fá LeBron James í sínar raðir - og missa hann.

Hérna fyrir neðan sérðu hvernig Cleveland gekk árin áður en LeBron kom inn í deildina, hvað liðið tók stórstígum framförum um leið og hann byrjaði að spila og fór að lokum langt yfir 60 sigra. Svo sérðu skarðið ljóta sem eru árin fjögur sem hann skrapp niður á Flórída.

Cleveland gjörsamlega drullaði lungum og lifur á meðan og var lélegasta liðið í NBA á þessum fjögurra ára kafla. Svo mætir karlinn aftur til Cleveland og það var eins og við manninn mælt - það poppaði strax aftur upp fyrir 50 sigra og fór beint í lokaúrslitin. Þið munið hvernig liðið komst þangað - hvað James fékk mikla hjálp við það.


Svo eru það árin hjá Miami. Það var sama uppi á teningnum þar, Miami hafði gengið svona la la áður en James mætti á ströndina, en um leið og hann kom, varð allt vitlaust. Miami vann tæpa 60 leiki að meðaltali (verkbannsárið uppreiknað) árin fjögur sem hann spilaði þar og fór í lokaúrslit öll árin - sem er rugl, þó austrið hafi verið veikara en Oprah Winfrey.


Það er afar sjaldgæft að einn körfuboltamaður hafi önnur eins áhrif og James hefur haft undanfarin áratug - ekki bara á liðið sem hann spilar með, heldur einnig á valdajafnvægið í allri deildinni. Síðasti leikmaðurinn sem hafði önnur eins áhrif með félagaskiptum var Shaquille O´Neal. Hann fór frá meistaraliði Lakers og gerði Miami að meistara (með góðri hjálp).

Við vitum alveg að það hjálpar James mikið hvað deildin sem hann spilar í er mikið dómsdags rusl, en þú getur ekki tekið það af honum að þetta er helvíti magnaður árangur hjá honum. Þetta er kallað að vera sigurvegari.

Nú, ef þetta fer allt saman fyrir ofan garð og neðan hjá þér, geturðu að minnsta kosti skoðað grafíkina sem við útbjuggum með færslunni. Hún er af dýrari gerðinni þó við segjum sjálf frá.