Tuesday, October 20, 2015
Natvélin í urrandi botni
Við sögðum ykkur frá upplifun okkar af KR-liðinu um helgina, eftir að það tapaði fyrir Stjörnunni í Garðabæ.
Í gærkvöldi kíktum við á Vesturbæinga taka á móti Þórsurum frá Þorlákshöfn og sjáum hreint ekki eftir því.
Þeir sem sáu þennan leik voru að tala um að öfugt við leikinn í Garðabæ á föstudaginn, hafi KR amk átt nokkrar glefsur af almennilegri spilamennsku að þessu sinni. Ekki margar, en nógu margar til að klára Þórsarana sem þó bitu og klóruðu allan tímann, 90-80.
En við ætlum ekki að þvaðra um KR núna og við ætlum reyndar ekki að þvaðra um Þór heldur - ekki þannig. Við þurfum að tala aðeins um miðherja Þórs, Ragnar Ágúst Nathanaelsson - Natvélina!
Sagan segir að pilturinn hafi endurskoðað viðhorf sín til körfuknattleiksíþróttarinnar fyrir nokkrum misserum, sem hefur eflaust verið ákvörðun sem honum var hjálpað að taka, en það fylgir því auðvitað enginn eftir nema hann sjálfur.
Kannski hefur einhver sest niður með honum og sagt: "Hey, þú ert tveir og átján - kannski geturðu fengið vinnu við að troða körfuboltum ofan í körfur!"
Hvað sem því líður virðist Ragnar hafa gefið rekið hælana í klárinn og skerpt á plönum sínum. Hann var náttúrulega verðlaunaður fyrir það með því að fá að vera í frægasta landsliðshóp í sögu íslensks körfubolta sem Spútnik-aði yfir sig á EM um daginn.
Það er freistandi að fara að velta sér upp úr tröllatölfræðinni sem Ragnar er búinn að bjóða upp á í fyrstu tveimur leikjunum sínum í deildinni í ár (22 stig, 15 fráköst og 3 varin) en til þess er skammtastærðin einfaldlega of lítil.
Nei, við þurfum nefnilega ekki að horfa í tölfræðina til að átta okkur á því hvað er að gerast hjá Natvélinni. Það er nóg að horfa á piltinn spila í nokkrar mínútur.
Við sáum Ragnar spila gegn KR í gærkvöldi og það er skemmst frá því að segja að við vorum mjög hrifin af því sem fyrir augu bar.
Hann hefur alltaf verið stór, en það eru komin miklu meiri læti í hann núna. Hann er allur fljótari, kvikari og sterkari og það sem okkur finnst skipta mestu máli, hann spilar með miklu meira sjálfstrausti en áður.
Og hluti af þessu sjálfstrausti er farið að brjótast út í smá hroka.
Nú erum við almennt ekkert sérstaklega hrifin af hroka* en við erum þeirrar skoðunar að því sé eins farið með miðherja í körfubolta og stórsöngvara - t.d. tenóra. Þeir fúnkera bara miklu betur ef þeir eru hrokafullir.
Sjáðu til dæmis menn eins og Fannar Ólafsson - hvar væri hann án þessarar góðu slettu af hroka? Hefði hann farið fyrir KR og unnið alla þessa titla án hrokans? Kannski, en hrokinn skemmdi áreiðanlega ekki fyrir.
Leikstíll þeirra er gjörólíkur, en það er gaman að fylgjast með vexti og þroska tveggja ungra og 218 sentimetra hárra miðherja um þessar mundir - þeirra Ragnars og frönsku andspyrnu-hreyfingarinnar Rudy Gobert.
Frakkinn knái spilaði líka á EM og okkur datt hann í hug af því hann er líka á bullandi uppleið og er dásamlega hrokafullur. Og ekki bara af því hann er franskur. Hann ætlar að verða besti miðherji í heimi og er alveg nákvæmlega sama hvað þér finnst um það.
Ragnari virðist líka vera drullusama hvað mönnum eins og Michael Craion finnst um veru hans í teigum Domino´s deildarinnar - hann virðist kominn hingað til að vera með dólg og draga Þórsliðið eins langt og hann mögulega getur.
Hann er ekki eitthvað stiff sem sveiflast fram og aftur í teignum og veit ekkert hvað það er að gera, hann er farinn að telja á báðum endum vallarins.
Fá menn til að skipta um skoðun þegar þeir ætla að keyra á körfuna eða skjóta í teignum - og berja skotin þeirra upp í rjáfur ef þeir eru nógu vitlausir til að reyna þau. Taka við boltanum á blokkinni og setja niður stutta króka eða þruma niður troðslum á hinum endanum.
Með öðrum orðum, Natvélin er að verða fullorðins og það er orðið alveg drulluskemmtilegt að horfa á hana vinna á fullum snúningi eins og í DHL höllinni í gærkvöldi, þar sem hún grændaði sér inn 25 stig, 17 fráköst og sex varin skot.
Við hvetjum Ragnar eindregið til að halda áfram á þessari braut, halda áfram að æfa, halda sér hungruðum og hrokafullum og sverja þess eið að troða yfir allt og alla í þessari deild - aftur og aftur, oft og fast! Hrækja á tölfræðiskýrslur og slá met!
Svo á hann alltaf eftir að koma í hlaðvarp NBA Ísland og segja okkur alla söguna, enda liggur fyrir samningur þess efnis sem undirritaður var á Twitter fyrir margt löngu.
------------------------------------------------------------------------------------------------------------
* - Nema þegar Zlatan er annars vegar, auðvitað.
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
Hroki og hleypidómar
,
KR
,
Miðherjar
,
Natvélin
,
Ragnar Nathanaelsson
,
Þau erfa landið
,
Þór Þorlákshöfn