Friday, October 23, 2015

Blóðbað í Breiðholtinu


Fallega gert af Natvélinni og félögum í Þór að standa undir hrósinu sem við gáfum þeim á dögunum með því að valta yfir Tindastól í Ljósabekknum í Þorlákshöfn 92-66. Þetta eru ekki beint tölurnar sem við hefðum búist við, en Þórsarar eru þarna að láta enn betur vita af sér en þeir gerðu í Vesturbænum á mánudaginn.

Ekki skemmir að téð vél hélt áfram að terrorísera í teignum og hirti 17 fráköst, þó það væri auðvitað Davíð Ágústsson sem stal senunni með þristunum sínum sjö úr átta tilraunum.

Það er okkur alltaf ánægjuefni þegar litlu liðin úti á landi eru með kjaft, þó að þessu sinni hafi ofbeldið bitnað á öðru landsbyggðarliði. Þið vitið hvað við erum að fara.

Okkur dreymir jú öllum um að hvert einasta pláss á landinu fái forskeytið "körfuboltabærinn xxx."

Annað landsbyggðarlið með leiðindi er FSu, en það náði að hræða líftóruna úr Garðbæingum í Ásgarði í kvöld. Stjarnan náði á endanum að klára leikinn 91-87 en frá bæjardyrum heimamanna sýnir þessi leikur glöggt að það eru ansi fáir leikir gefnir í þessari deild.

Ef við skoðum dæmið frá sjónarhorni austanmanna, hljóta þessi úrslit að vera alveg sérstaklega svekkjandi, því þetta er í annað skipti á viku sem liðið tapar leik þar sem úrslitin ráðast í blálokin.

Liðið kastaði þessum kannski ekki frá sér líkt og Grindavíkurleiknum um daginn, en það er sama. FSu er hér að eiga við dæmigerða nýliðakveisu - að geta ekki klárað leiki - annað hvort vegna þess að það skortir reynslu eða gæði (oft bæði).

Nú er bara að sjá úr hverju FSu-menn eru gerðir, hvort þeir láta þetta mótlæti brjóta sig niður og eyðileggja tímabilið eða hvort þeir ná að bæta sig um þessi 5% sem vantar upp á til að fara að vinna leiki. Stigin eru dýrmæt í þessu, svo mikið er víst.

Aðalleikur kvöldsins fór fram í Breiðholtinu, þar sem ÍR tók á móti Grindavík. Þetta var aðalleikur kvöldsins af þeirri einföldu ástæðu að NBA Ísland var á svæðinu, enda alltaf gott að koma í Seljaskólann.

En talandi um Seljaskólann, megum við til með að minnast á mikilvægt atriði áður en lengra er haldið.

Um árabil - já, um árabil, voru Breiðhyltingar með allt lóðrétt niður um sig þegar kom að umgjörð og aðstöðu fyrir fjölmiðlafólk. Þar bar auðvitað hæst að internetið í kofanum var aldrei í lagi - ef það var þá einhvern tímann til staðar yfir höfuð. Við öskruðum okkur hás og skrifuðum okkur í krampa yfir þessum málum aftur og aftur en það skilaði litlu.

En batnandi fólki er best að lifa. Í kvöld varð okkur á að skjótast upp í fjölmiðlastúku inn á milli leikhluta til að skoða tölfræðina og þar beið okkar nokkuð mögnuð sjón. Þá reyndust ÍR-ingarnir ekki aðeins vera með dúndurgott internet (4G), heldur var þarna aðstaða fyrir alla fjölmiðlamenn hvort sem þeir voru skrifandi eða takandi upp og svo var þarna meira að segja kaffi, gos og bakkelsi!

Nú vitum við hvað þið eruð að hugsa - ætli blaðamannastéttin sé ekki nógu fjandi feit svo körfuboltafélögin á landinu fari ekki að bera í þau bakkelsi og slikkerí! Jú, þetta er hárrétt, en okkur þykir alveg nauðsynlegt að minnast á það þegar svona vel er staðið að málum - ekki síst þar sem menn voru með allt lóðrétt áður.

Þú þarft ekkert að vera með gos og bakkelsi, þannig séð, en það lýsir bara ákveðnum standard að hugsa vel um fjölmiðlafólkið meðan á leik stendur. Það hjálpar ekki aðeins til þegar kemur að umfjöllun, heldur er það líka augljóst merki um metnað og fagmennsku.

KR-ingar hafa verið í algjörum sérflokki þegar kemur að þessu atriði undanfarinn áratug. Við vitum alveg að KR er stór klúbbur og á því auðveldara með svona trakteríngar en önnur félög, en eins og áður sagði er þetta allt spurning um metnað félaganna. Það geta allir boðið upp á góða alhliða umgjörð ef viljinn er fyrir hendi - líka litlu klúbbarnir.

En vindum okkur að leiknum. Þeir eru eflaust fáir sem eru sammála okkur, en okkur þótti leikur ÍR og Grindavíkur alveg ógeðslega skemmtilegur.

Eins og þið vitið líklega, vann Grindavík miklu öruggari sigur en lokatölurnar 79-94 segja til um, þetta var blástur frá upphafi og langleiðina til enda. ÍR lenti sannarlega í grændernum í kvöld.

Hvernig á annars að vinna lið sem hittir úr 15 af fyrstu 25 þriggja stiga skotunum sínum? Það má vel vera að það sé hægt, en það er nokkuð ljóst að ÍR-liðið hefur ekki burði til þess. Breiðhyltingarnir hittu bara á Grindavík á röngum degi og við höfðum það á tilfinningunni að gestunum hefði mistekist að skora í c.a. tveimur sóknum allan fyrri hálfleikinn. Þeir leiddu enda 57-31 í kaffipásunni og þá voru úrslit leiksins löngu ráðin.

Mönnum féllust hendur yfir hittni Grindvíkinga í kvöld - þetta var bara eins og í gamla daga, þegar Grindavík gat skotið hvaða lið sem er út af kortinu þegar það var í stuði. Ykkur langar örugglega að vita hvoru liðinu það var að kenna að öll þessi skot fóru niður og að okkar mati var þetta 65% gegn 35%.

Það er að segja: 65% af ástæðunni fyrir stórsigri Grindavíkur var sú staðreynd að það hitti á sjóðandi heitt kvöld eins og stundum gerist, en 35% af þessu ætlum við að skrifa á varnarleik og vanhæfni ÍR-inga.

Nú er voðalega þægilegt að sitja heima í stofu og rífa kjaft þegar lið lendir í því að vera skotið í kaf, en það verður bara að segjast eins og er að ÍR-ingarnir virkuðu óskaplega ráða- og andlausir í leiknum, ekki síst í vörninni.

Stærsta vandamálið sem þessi slaka ÍR vörn stóð frammi fyrir hét Jón Axel Guðmundsson, en þó hann hafi vissulega fengið góða hjálp úr öllum áttum, var það fyrst og síðast hann sem eyðilagði kvöldið fyrir Breiðhyltingum.

Það er afskaplega gaman að fylgjast með Jóni spila núna. Við skrifuðum eitthvað um hann þegar hann var að stíga sín fyrstu skref með Grindavíkurliðinu en nú er hann hvorki efnilegur né krúttlegur, hann er bara góður.

Sjálfstraustið bókstaflega lekur af drengnum þessa dagana enda full ástæða til.

Það er allt í lagi fyrir átján ára pilt að bjóða upp á þrennur í fyrstu tveimur leikjum mótsins og fylgja þeim eftir með 19/9/5/2 leik í kvöld. Nítján stig úr átta skotum? Það er í lagi.

Einhver ungur maðurinn hefði tekið "hitatékkið" ef hann hefði hitt fimm af fyrstu sex þristunum sínum, en þessi hafði meiri áhuga á því að stýra leik sinna manna og finna félaga sína.

Kannski hefur allt þetta þrennutal í kring um Jón Axel verið byrjað að fara í taugarnar á reynsluboltum Grindavíkurliðsins, því þeir Jóhann Árni Ólafsson (20/11/8) og Ómar Sævarsson (12/12/5) gáfu unga manninum ekkert eftir á skýrslunni í kvöld.

Þá er ekki hægt að ljúka þessu án þess að minnast á þátt gamla mannsins Páls Axels, sem virtist ekki geta klikkað.

Og eins og það séu ekki nógu slæm tíðindi fyrir mótherja Grindvíkinga að Jón Axel skuli vera sprungin út, kemur bróðir hans Ingvi Þór fast á hæla hans í efnilegheitum og hæfileikum.

Það verður ekkert gaman að spila við þetta lið þegar það verður komið með kana, en það hefur ekki þurft utanaðkomandi aðstoð til að vinna þrjá fyrstu leikina sína.

Næsta verkefni Grindvíkinga er Snæfell en svo kemur fyrsta stóra prófið þegar liðið mætir í Ásgarðinn þann 5. nóvember. Hver veit nema liðið verði orðið blindað af sjálfstrausti þegar þar að kemur.

Hvort sem þetta unga og skemmtilega Grindavíkurlið á eftir að gera einhverja hluti í vetur eða ekki, er það er alveg ljóst að þetta verður ekki síðasti leikurinn sem við horfum á með því. Það er hágæðaskemmtun að horfa á þetta lið spila undir styrkri leikstjórn átján ára tölfræðisóða. Skál fyrir því.

Hérna eru örfáar myndir: