Eftir ógurlegt stríð við tæknidrauga og annað mótlæti, hefur okkur nú loksins tekist að hnoða saman undir/yfir hlaðvarpið árlega, þar sem við tippum það hvað liðin í NBA muni vinna marga leiki í deildarkeppninni - það er yfir eða undir sigrafjöldanum sem veðbankarnir í Las Vegas gefa út á haustin.
Starfsfólk NBA Ísland er að sjálfssögðu engir fjárhættuspilarar og mælir raunar alls ekki með neinu slíku fyrir lesendur, við styðjumst aðeins við tölurnar frá Vegas til gamans. Þá er hugmyndin að hlaðvarpi sem þessu að sjálfssögðu ekki ný á nálinni, en þó er ekki útilokað að NBA Ísland hafi verið fyrsta NBA hlaðvarpið sem byrjaði að apa þessa iðju eftir ESPN-hlaðvarpanum fyrrverandi, Bill Simmons.
Hvað um þetta allt saman, hér hafið þið Vegas-varpið árlega um Austurdeildina. Vesturdeildarvarpið kemur strax í kjölfarið. Við vonum að það stytti ykkur biðina eftir deildarkeppninni sem hefst á þriðjudagskvöldið. Það er sem sagt annað kvöld. Vá.
Þú getur hlustað á hlaðvarpið í spilaranum hér fyrir neðan, eða farið inn á hlaðvarpssíðuna okkar og sótt það til að setja inn á spilarann þinn.