Tuesday, December 10, 2013

Ó, þið ungu hetjur


Við kíktum til gamans á leik Philadelphia og Orlando frá því fyrir nokkrum dögum, svona út af öllu fjaðrafokinu sem var í kring um þennan leik. Þar gerðist það í fyrsta skipti að nýliðar í sitt hvoru liðinu næðu þrefaldri tvennu þegar Sixers vann 126-125 seiglusigur eftir tvíframlengdan og æsispennandi leik.

Þetta voru þeir Michael Carter-Williams hjá Philadelphia og Victor Oladipo hjá Orlando. Sérstaklega hefur Carter-Williams vakið áhuga okkar og aðdáun. Hann sló auðvitað í gegn í sínum fyrsta leik sem atvinnumaður eins og þið munið kannski.

Það er fullkomlega glórulaust að hugsa til þess hvað fær félög eins og Cleveland til þess að sleppa því að taka leikmann eins og Carter-Williams í nýliðavalinu.

Velja heldur sekk eins og aumingja Anthony Bennett, sem hefur aldrei komist í form og skýtur 22% utan af velli. Svona getur lífið verið furðulegt og ósanngjarnt.

Bennett er kandídat í að verða slakasti leikmaður sem valinn hefur verið númer eitt í sögu NBA, en við skulum vona að aumingja drengurinn nái sér á strik.

Oft hafa óveður gengið yfir Fíladelfíu þó spáin hafi verið góð. Vonandi verður breyting þar á núna. Liðið á helling inni og ætti að vera í flottum málum með Carter-Williams við stýrið í framtíðinni. Kannski var nýliðavalið árið 2013 ekki versta draft í sögu mannkynsins eftir allt saman.

Guð blessi tveggja metra leikstjórnendur.