Sunday, May 29, 2011

Tími Oklahoma og Chicago reyndist ekki kominn:


Við erum búin að vera dálítið vond við Oklahoma og Chicago. Það fór svo að lokum að bæði lið töpuðu 4-1 í undanúrslitunum, en bæði þessi lið eru betri en sú tölfræði gefur til kynna. Auðvitað voru það vonbrigði fyrir liðin að detta svona út.

Chicago var eftir allt með besta árangurinn í vetur, verðmætasta leikmanninn og þjálfara ársins. Og í vestrinu var það Oklahoma sem átti að vera spútnikliðið ef svo ólíklega vildi til að Lakers færi ekki í úrslitin.

Hafi þessi niðurstaða í undanúrslitunum kennt okkur eitthvað, er það sú staðreynd að reynslan skiptir máli. Bæði Chicago og Oklahoma voru með nokkra af þessum leikjum í höndunum en gáfu þá frá sér með klaufaskap og reynsluleysi. Chicago átti ekki svör við varnarleik Miami og sóknarleik ofurstjarnanna þegar allt var undir. Oklahoma náði ekki að klára með unninn leik á heimavelli gegn Dallas.

Það er í fljótu bragði hægt að benda þrjú tilvik þar sem Miami og Dallas unnu leiki þar sem þau voru dauð og grafin. Leikjum sem þau hefðu líklega tapað ef óreyndir andstæðingar þeirra hefðu náð einu vel tímasettu stoppi eða skoti. Og það eru ekki bara leikmennirnir sem eru blautir á bak við eyrun. Þjálfarar liðanna tveggja voru búnir að vinna samanlagt tvo leiki í úrslitakeppni áður en keppni hófst um daginn.

Við erum ekki vön að vera að horfa á glasið hálffullt en við ætlum að reyna það í þessu tilviki. Flest lið þurfa að ganga í gegn um smá brölt áður en þau fara að vinna titla og þannig verður það með Oklahoma og Chicago.

Oklahoma var að vinna 20+ leiki á ári fyrir ansi stuttu síðan. Tók Öskubuskuna á þetta í fyrra og veitti Lakers fína keppni í fyrstu umferð úrslitakeppninnar. Og í ár fer liðið í úrslit Vesturdeildar, þar sem það tapar reyndar dálítið illa, en einvígið var jafnara en tölur segja til um.

Lykilmenn Oklahoma eru kornungir og ákafir og virðast vera rétt stilltir. Það er óhjákvæmilegt að vakni margar spurningar eftir að lið dettur út 4-1 og fer illa að ráði sínu á köflum eins og Oklahoma gerði gegn Dallas.

Er Scott Brooks nógu góður þjálfari? Er Russell Westbrook leikstjórnandi og á félagið að hafa lyklana að sóknarleiknum í höndunum á honum? Er þeim stætt á að hafa James Harden áfram á bekknum? Á Kendrick Perkins eftir að nýtast liðinu almennilega? Getur Kevin Durant alið með sér meiri grimmd og staðið af sér þær barsmíðar sem hann fær í úrslitakeppni? Heldur Ibaka áfram að bæta sig og verður hægt að nota hann í stóru leikjunum?

Þetta eru ansi margar spurningar. Flestar þeirra eiga rétt á sér. En munum að Oklahoma er eitt yngsta lið deildarinnar og getur bara orðið betra. Og hvaða lið eru að fara að standa í vegi fyrir Oklahoma í vestrinu á næstu árum? Ekki mörg. Höfum glasið bara hálffullt og sleppum því að fara í panikk. Þetta lið er á bullandi uppleið og þarf að tapa aðeins áður en það fer að vinna meira. Pressan verður meiri á næsta ári en þessir piltar eru alveg til í að mæta henni.

Það sama er uppi á teningnum hjá Chicago Bulls. Þar verður meiri pressa á næsta ári.  Liðið átti frábæra deildakeppni og hefði tekið því síðasta sumar ef því hefði verið sagt að það færi í úrslit Austurdeildar. Chicago fór langauðveldustu leiðina í undanúrslit en vann fyrir því með því að vera með besta árangurinn í deildakeppninni.

Rétt eins og með Oklahoma, hefur ansi mörgum spurningum verið beint að Chicago eftir útreiðina sem það fékk frá Miami.

Var Derrick Rose að bregðast liðinu sínu með skotvali sínu og ákvörðunum? Voru það mistök að fá Carlos Boozer? Var Tom Thibodeau að standa sig í Miami seríunni? Vantar Chicago ekki almennilegan skotbakvörð? Hefði Kurt Thomas ekki átt að fá eitthvað af mínutunum hans Boozers? Hefði verið hægt að ætlast til þess að fá meira frá Luol Deng í sókninni? Hver á að vera annar kostur í sókninni hjá þessu liði?

Ef við munum rétt voru fleiri sérfræðingar á því en færri að Miami færi með sigur af hólmi í einvíginu gegn Chicago en við vorum ekki alveg að sjá af hverju. Sjáum það kannski núna. Þeir sem tippuðu á móti Chicago voru að velta því fyrir sér hvernig liðið færi að því að skora nóg á sterka Miami-vörnina og munurinn lá að miklu leyti þar. Chicago er í bullandi vandræðum með að slútta. LeBron James fór hamförum í vörninni á Rose og fékk líka góða hjálp. Þegar Rose er tekinn svona úr umferð, er ekki mikið eftir í sóknarleik Chicago.

Leikir liðanna voru flestir jafnir og spennandi en þó bæði lið hafi verið að slútta illa á lokamínútunum í gegn um einvígið, voru það stjörnurnar hjá Miami sem gerðu gæfumuninn. Við tippuðum á Chicago í þessu einvígi af því við héltum í barnaskap okkar að Chicago myndi gjörsamlega eiga teiginn. Það gekk ekki eftir og við urðum fyrir vonbrigðum með stóru mennina hjá Chicago. Vissum að Boozer myndi ekki gera neitt, en Noah átti að dansa stríðsdans í teignum og hirða 20 fráköst í hverjum einasta leik og senda LeBron og Wade í gólfið til skiptis. Og þegar hann færi í villuvandræði áttu Asik og Thomas að halda áfram að gera þetta sama. Vonbrigði.

Chicago er ekki eins ungt og efnilegt lið eins og Oklahoma, en það er sannarlega komið til að vera við toppinn í Austurdeildinni næstu ár. Derrick Rose er algjör lykilmaður í þessu liði og hann mun læra af manna mest af þessu Miami-einvígi. Hann er rétt stilltur og kemur sterkari út úr þessu, það er bókað. Vonandi verður sömu sögu að segja af Thibodeau þjálfara. Þessir gaurar vita að þeir eiga eftir að spila ansi oft við Miami á komandi árum.

Það sem Chicago þarf að gera öðru fremur er að útvega sér boðlegan skotbakvörð og senda Rose og Boozer saman á æfingu daglega til að bæta tvímenninginn.

Boozer var 20/10 maður hjá Utah af því hann fékk góða þjónustu en hana er hann ekki að fá hjá Bulls.

Það á kannski eftir að batna en ef Boozer er ekki að skila góðum sóknartölum, hefur hann ekkert inn á völlinn að gera af því hann er einn lélegasti varnarmaður deildarinnar. Og nennir heldur ekki að spila vörn.

Það er með ólíkindum að þessi maður sé að spila fyrir Tom Thibodeau. Ekki gleyma því að Boozer er ekki búinn að gefa Chicago nema smjörþefinn af meiðslatendensunum sínum.

Kannski tekur hann sig á og verður meiri lykilmaður hjá Bulls á næstu leiktíð, en það sem er líklegra er að félagið eigi eftir að dauðsjá eftir því að hafa samið við hann. Það er ekki mjög algengt að meistaralið séu með byrjunarliðsmann sem nennir ekki og getur ekki spilað vörn og er alltaf meiddur.

Ok við skulum hætta að pönkast á Boozer. Chicago ætti að verða betra á næstu leiktíð jafnvel þó engar mannabreytingar verði gerðar. En liðið verður ekkert krúttlið á næsta ári. Á næsta ári verður krafan að fara í lokaúrslit, allt annað verða vonbrigði. Aðeins Miami verður með meiri pressu á sér næsta vor.

Það var kannski til of mikils mælst að ætla Chicago og Oklahoma að fara alla leið í lokaúrslitin í ár en það er enginn heimsendir fyrir þessi lið. Þau fengu góðan skóla og verða bara betri á næsta ári.