Monday, May 9, 2011

Atlanta og Memphis eru að spila körfubolta. Ekki Phil Jackson, Kobe Bryant og meistarar LA Lakers


Svona fór þetta þá. Það þýddi ekki einu sinni að jinxa Dallas með því að dæma meistarana úr leik í stöðunni 3-0.

Lakers hittu á skelfilegan dag til að vera undir 3-0. Þú veist, svona dag þar sem Dallas getur ekki með nokkru móti klikkað á þriggja stiga skoti.

Dallas sópaði Lakers út úr úrslitakeppninni með 122-86 sigri á heimavelli.

Það þarf svo sem ekki að analísera þessa seríu neitt stórkostlega. Lakers, sem hafa átt það til að hiksta aðeins í fyrri umferðum í úrslitakeppninni undanfarin ár, gerðu meira en að hiksta að þessu sinni.

Þetta var óþekkjanlegt lið. Horfðu bara á alla GALopnu þristana sem Dallas jarðaði í einvíginu.

Þetta var rosalega dapurt hjá meisturunum.

Stundum eru menn bara ekki með þetta og Lakers-menn voru ekki með þetta gegn Dallas. Það var engu líkara en þeir væru farnir að finna fyrir því að vera búnir að spila 100 leiki á hverju ári síðan 2008. Lykilmenn að eldast og allt það jara jara. Það er ekki einu sinni hægt að pikka út leikmenn og rífa í sig. Þeir spiluðu bara allir eins og aumingjar.

Við höfum fengið skammir fyrir að hrósa ekki Dirk Nowitzki og Dallas-liðinu. Það er af því þetta lið er ekki að gera neitt sem við höfum ekki séð áður. Það er þekkt stærð og gengur mikið til á sömu prinsippum og hafa einmitt ekki skilað því langt á undanförnum árum.

Auðvitað spilaði Dallas samt fantavel. Dirk hefur verið stórkostlegur og hefur fengið mikla hjálp frá félögum sínum. Þú vinnur ekki sex leiki í röð í úrslitakeppni ef þú ert með lélegt lið. Það er samt ekki málið. Málið fyrir okkur er að meistarar síðustu tveggja ára lögðust í götuna og drulluðu á sig.

Það er grátlegt að sjá Phil Jackson fá slíka útreið í sínum síðustu leikjum sem þjálfari. Vera sópað í fyrsta sinn á 20 árum sem þjálfari og horfa á liðið sitt gjörsamlega brotna niður. Og tapa kúlinu.

Við missum okkur þegar við sjáum svona bull eins og Andrew Bynum var að bjóða upp á þegar hann gaf Barea litla olnbogaskotið. Við erum alltaf að kvarta yfir því að NBA deildin sé orðin dömubindaauglýsing, en það er eitt að spila fast og annað að vera bara klassalaus fáviti. Það var Bynum í þetta skipti. Pikkaðu á einhvern sem er svipaður á stærð og þú og þakkaðu fyrir að einhver tekur sig ekki til og sparkar í gimpahnéð á þér.

Það er gaman að fá óvænt úrslit af og til í körfubolta en við erum hætt að fatta hvað er að gerast í þessari Vesturdeild þetta vorið. San Antonio og LA Lakers hafa verið send í frí með skömm og nýju krakkarnir í hverfinu eru að gera allt vitlaust.

Við gerum öllu þessu drama ekki skil í einni færslu. Við þurfum að pæla í arfleifð Lakers-liðsins og Phil Jackson og ræða sérstaka stöðu sem er komin upp í úrslitakeppninni. Meira um það síðar.