Það ríkir ákveðin örvænting af því NBA Ísland er ekki búið að segja frá því hvað gerðist í fyrstu umferð úrslitakeppninnar í NBA. Hafðu ekki áhyggjur, hér kemur það.
AUSTURDEILD:
Chicago-Indiana (4-1) var aldrei spennandi sería og átti heldur ekki að vera það. Chicago búið að vera á góðu skriði og kláraði dæmið eins og við var búist.
Chicago þurfti sem betur fer ekki á Carlos Boozer að halda í einvíginu, því hann var ekki með í því. Eitthvað af því skrifast á támeiðslin hans. Þegar allt er talið, er Indiana ekki nógu sterkt lið til að eiga skilið að fara í úrslitakeppni. Þetta var formsatriði hjá Chicago og gott að sjá að liðið hafði drápseðli til að klára þessa seríu með formlegum hætti.
Orlando-Atlanta (2-4) var leiðinlegasta einvígið í fyrstu umferðinni eins og reikna mátti með, enda er Atlanta í miðri herferð sem ætlað er að eyða áhuga á íþróttinni körfubolta.
Bæði lið sýndu sínar verstu hliðar í þessu einvígi en svo fór að lokum að Orlando hafði betur hvað það varðar og tapaði seríunni.
Dwight Howard spilaði mjög vel en það eru óveðursský á himninum yfir Orlando. Van Gundy verður eflaust látinn fara þó það sé ekki honum að kenna að liðið sé að borga Hedo Turkoglu og Gilbert Arenas peninga sem nægðu til að koma Orkuveitu Reykjavíkur yfir núllið.
Boston-New York (4-0) var minnst spennandi serían í úrslitakeppninni. Margir voru að vona að New York næði að stríða Boston eitthvað, en varnarleikur liðsins og meiðsli Chauncey Billups og Amare Stoudemire komu í veg fyrir það. New York-liðið barðist hetjulega en átti aldrei séns þó það hafi verið í bullandi séns með að stela leik í Boston. Celtics kláruðu þetta dæmi nokkuð vel bara. Kannski betur en reiknað var með.
Miami-Philadelphia (4-1) er sería sem þróaðist svipað og búist var við en þar stendur líklega upp úr hvað Sixers-liðið stóð sig vel og fór fram úr væntingum í vetur. Doug Collins gerði vel með þann mannskap sem hann hafði úr að moða og var kannski óheppinn að mæta einmitt Miami í fyrstu umferðinni - líklega það lið sem Sixers hentaði verst að mæta. Miami kláraði þetta einvígi á hæfileikunum en lendir strax í miklum vandræðum í næstu umferð ef það ætlar að halda áfram að dúlla sér eins og það gerði gegn Sixers.
VESTURDEILD:
San Antonio-Memphis (2-4) var auðvitað öskubuskuævintýri fyrstu umferðarinnar. Einhverjir Nostradamusar spáðu Memphis sigri í einvíginu en hefðu ekki gert það ef líf þeirra hefði legið við. Ekkert mál að þykjast vera gáfaður á pappír, það vitum við.
Gregg Popovich hefur látið í veðri vaka að meiðsli Tim Duncan og Manu Ginobili hafi skemmt fyrir liði Spurs þó það sé auðvitað engin afsökun.
Meiðsli eða ekki, við höfum aldrei séð Tim Duncan jafn ævintýralega lélegan og hann var í þessari seríu. Parker og Manu áttu spretti en voru ekki góðir.
Memphis-liðið var einfaldlega betra og óttaðist Spurs ekki á nokkrum tímapunkti, sem er ótrúlegt. Við höfum oft sagt að Memphis ætti að vera með leikmenn til að vera betra lið en það hefur verið undanfarin ár og nú er það að sýna sig - og það án Rudy Gay. Lionel Hollins þjálfari er að gera ótrúlega hluti með þetta lið.
Oklahoma-Denver (4-2) er sería sem margir töldu að færi jafnvel alla leið í sjö leiki. Oklahoma var ekki sammála því og átti þessa seríu. Tímabilið hjá Denver endar því í ákveðnu þunglyndi eftir alla gleðina sem ríkti eftir Carmelo-skiptin. Melo eða ekki Melo, Denver er bara ekki með þetta. Það er bara þannig.
Dallas-Portland (4-2) var áhugaverð sería fyrir þær sakir að flestir voru að tippa á að Portland myndi vinna hana.
Dirk og félagar náðu hinsvegar að hrista af sér slenið sem einkenndi liðið á lokasprettinum í deildinni og klára þetta. Dirk var fáránlega góður í þessu einvígi og þeir eru ekki margir leikmennirnir sem spiluðu betur en hann í fyrstu umferðinni.
Fjórði leikur liðanna (Brandon Roy leikurinn) var stórkostlegur en enn eitt árið þarf Portland að sætta sig við að vera bara efnilegt lið. LaMarcus Aldridge gleymdi dálítið að mæta í þetta einvígi.
Rétt eins og til dæmis gegn Houston og Oklahoma í fyrstu umferðinni á síðustu árum, var liðið bara að stríða okkur.
Chris Paul sýndi okkur sparihliðarnar á köflum í þessu einvígi og þegar hann gerir það, kemst enginn leikstjórnandi í heiminum nálægt honum í hæfileikum.
Engin skömm af því fyrir Hornets að tapa fyrir Lakers og slútta tímabilinu svona eftir að hafa misst sinn næstbesta mann í meiðsli fyrir nokkru síðan.
Við fengum enga sjö leikja seríu í fyrstu umferðinni og það er allt í lagi, því þetta voru frábærir leikir sem voru í boði - ein allra besta 1. umferð síðari ár að margra mati.
Memphis og Atlanta fóru gegn hefðinni og náðu að vinna einvígi sín án þess að vera með heimavallarrétt. Memphis varð fjórða 8. sætis liðið í sögunni til að slá út liðið í efsta sæti.