Saturday, May 14, 2011

Gamlir kunningjar að ljúka keppni á stóra sviðinu:


Það hlaut að koma að því einn daginn, en við áttum ekki von á að það yrði vorið 2011.

Þú ert kannski einn af þeim sem duttu inn í NBA boltann þegar Michael Jordan var að vinna síðustu titlana sína með Chicago Bulls. Sá síðasti kom árið 1998 og eftir það urðu eðlilega straumhvörf í deildinni - stórveldi Chicago Bulls lagðist í dvala. Það virðist óskaplega langt síðan.

Þrír menn hafa skipt á milli sín flestum þeim titlum sem í boði hafa verið síðan árið 1998. Þetta eru auðvitað Shaquille O´Neal, Tim Duncan og Kobe Bryant. Einhver þeirra hefur spilað til úrslita um NBA titilinn á hverju einasta ári síðan #23 hætti.

Þangað til nú.

Við höfum fylgst með NBA nokkuð lengi en munum í fljótu bragði ekki eftir öðrum eins hamagangi og verið hefur í úrslitakeppninni árið 2011. Hér eru mjög sögulegir hlutir að gerast.

Í fyrrasumar, fyrrahaust, vetur og nú fram á vor, spáðum við að LA Lakers og Boston Celtics myndu leika aftur til úrslita um meistaratitilinn. Það var dálítið leiðinleg og óspennandi spá, en við sáum þetta ekki þróast öðruvísi, sérstaklega ekki í Vesturdeildinni.

Nú er önnur umferðin ekki einu sinni búin og minni spámenn eru búnir að bókstaflega drulla yfir gömlu risana, San Antonio, LA Lakers og Boston. Þessi lið voru send í frí með afgerandi hætti og nú er að verða komið að leiðarlokum.

San Antonio afskrifuðum við í fyrra en þó við höfum ekki ætlað liðinu langt í úrslitakeppninni núna, bjuggumst við ekki við að Memphis af öllum liðum ætti eftir að rassskella Spurs.

Það hefur tekið marga ansi langan tíma að afskrifa Spurs en nú þora loks allir að gera það. San Antonio vann fjóra meistaratitla út af Tim Duncan, en það er ekki sami Duncan og kom vægast sagt illa út úr einvíginu við Memphis.

Sóp Dallas-liðsins á Lakers eru einhver ótrúlegustu úrslit síðari tíma í úrslitakeppninni. Þegar Lakers lestin fer út af sporinu, lifir enginn af. Þetta Lakers lið verður gott áfram en þessi hræðilegi skellur sem það fékk nú, sýnir okkur að liðið nær ekki fyrri hæðum með þennan mannskap.

Lakers skorti hungur í ár. Það vantaði neistann. Varnarleikurinn var ömurlegur og Phil Jackson var ekki að ná til manna. Það var eiginlega sorglegt að horfa upp á þetta.

Nú þarf að finna nýjan þjálfara sem er Kobe þóknanlegur og reyna að mótívera mannskapinn aftur. Bryant hefur ekki tog til að bera liðið á herðum sér lengur og það er erfitt að sjá Lakers vinna titla nema með breytingum.

Samsæriskenningar um Howard-Bynum skipti eru þegar komnar á flug. Þegar Lakers vantar leikmenn, þá fara þeir bara og ná í þá. Þannig er það bara.

Boston hafði heppnina ekki með sér í þessari úrslitakeppni en tapaði fyrir betra Miami liði. Meiðsli Rajon Rondo og fleiri góðra manna höfðu sitt að segja í þessu samhengi, en stjörnur liðsins virkuðu bara of þreyttar í verkefnið.

Perkins-skiptin við Oklahoma verða áfram gagnrýnd harðlega, en við eigum eftir að sjá hvað kemur út úr Perkins og Green á næstu árum til að dæma endanlega um þetta.

Það er auðvelt að benda á að Perkins (og Tony Allen reyndar) hefði aldrei átt að fara frá Boston. Það er hægt að benda á að Boston var nánast ósigrandi í deildakeppninni þegar Shaq var heill. Það er hægt að benda á að Rajon Rondo spilaði með annari hendi í síðustu leikjunum.

Þetta var allt óheppilegt, en Boston er komið yfir síðasta söludag með að vinna annan titil. Það verða einhverjar breytingar hjá þeim í sumar en þær þurfa að vera stórkostlegar til að komast fram hjá ungu liðunum í Austurdeildinni.

Það er skrítið að hugsa til þess að Shaquille O´Neal gæti hafa spilað sinn síðasta leik á ferlinum. Hann hefur tekið það mjög nærri sér að ná ekki að hjálpa Celtics í úrslitakeppninni en krónísk meiðsli hans hljóta að fá hann til að hugsa um að fara að hengja það upp.

Það er alltaf hálf melankólískt þegar verða kynslóðaskipti í NBA, ekki síst þegar þau gerast með jafn afgerandi hætti og nú.

Þeir Shaq, Kobe og Duncan voru leikmenn áratugarins en nú er þeirra tími liðinn og kominn tími á næstu kynslóð að taka við. Ungu mennirnir virðast vera alveg klárir í það.