Saturday, May 7, 2011

Sögulegir hlutir að gerast í úrslitakeppninni:


Ef eitthvað lið getur klúðrað 3-0 forystu, er það líklega Dallas Mavericks. Ef eitthvað lið getur komist í sögubækur með því að vinna seríu eftir að hafa lent undir 3-0, er það klárlega þetta Lakers-lið.

Dallas er nýbúið að sýna okkur (leikur 4 í Portland) að það hefur alla burði til að láta hlutina snúast í höndunum á sér. Lakers-liðið er með Kobe Bryant og Phil Jackson í sínum röðum, svo einhverjir séu nefndir. Menn sem hafa gert þetta allt saman áður.

Hvað ef Lakers-menn næðu nú að vinna leik fjögur í Dallas og færu svo á heimavöllinn burstuðu Mavs hressilega í leik fimm? Væri það ekki nóg til að rifja upp gamlar og slæmar minningar hjá Mavericks? Nóg til að láta þá kúka undir og missa seríuna frá sér?

Ofangreindar hugleiðingar eiga allar rétt á sér. Ekki tækjum við áhættu á því að veðja á móti Lakers. Þessi sería getur enn orðið spennandi - af hverju ekki?

En það er ekki málið.

Málið er, að Lakers-liðið er ekki með sjálfu sér. Það er eitthvað að. Aldur leikmanna hjálpar ekki, en það er eitthvað meira að. Þeir töpuðu tveimur leikjum gegn Hornets í fyrstu umferð en það hefur gerst áður. Það kom á daginn að það var ekkert til að hafa áhyggjur af. En að lenda undir 3-0 á móti Dallas eftir að hafa nánast gefið frá sér tvo vinnanlega leiki? Óhugsandi.

Memphis hefur verið spútniklið úrslitakeppninnar 2011, ekki spurning. Fáir reiknuðu með því að þeir tækju Spurs létt og næðu splitti í fyrstu tveimur leikjunum í Oklahoma í annari umferð. Algjört Öskubuskuævintýri. En það er samt miklu ótrúlegra að Dallas skuli vera í 3-0 á móti Lakers. Óhugsandi.

Þetta er síðasta árið hans Phil Jackson. Hann á í versta falli aðeins einn leik eftir á lygilegum þjálfaraferlinum. Kobe Bryant er hættur að geta gert hvað sem honum sýnist á vellinum. Andrew Bynum er ekki hægt að treysta vegna meiðsla og Pau Gasol virkar einfaldlega uppgefinn.

Fyrir stuttu síðan virtist enginn í Vesturdeildinni eiga eftir að koma nálægt Lakers á næstu misserum. Ekki lengur. Framvegis verður Lakers-liðið ekki með frípassa í finals. Ekki með þennan mannskap. Þú sérð það á þeim. Það er bara ekki innistæða fyrir þessu. Verða ekki sterkari næsta vetur nema stokka upp og fá til sín fleiri stórspilara.

Það er furðulegt að þetta hafi gerst svona eins og hendi hafi verið veifað, en það fer ekkert á milli mála. Lakara lið er að slá Lakers út úr úrslitakeppninni. Nákvæmlega ekkert eðlilegt við það.

Þetta Lakers-stórveldi eins og við þekkjum það hefur lokið keppni.

Og erkifjendurnir á austurströndinni gætu verið á sömu leið.