Saturday, May 21, 2011

Það er kominn tími á nýtt stórveldi í NBA


Hugtakið kynslóðaskipti er líklega ofnotað í boltaíþróttum en þó er ekki hægt annað en nota þessa klisju til að lýsa því sem er að gerast í NBA þessa dagana. Gömlu stórveldin Lakers, Celtics og Spurs hafa náð hátindi frægðar sinnar og styrkleika með núverandi mannskap.

Liðin eru komin mislangt á þessari leið hnignunar. San Antonio hefur lokið keppni sem stórveldi af þeirri einföldu ástæðu að Tim Duncan hefur ekki lengur líkamlega burði til að binda liðið saman á báðum endum vallarins.

Það er kannski full snemmt að dæma Lakers úr leik í ljósi þess að félaginu hefur hingað til tekist að næla sér í sterka leikmenn til að halda sér á toppnum (sjá: orðróm um t.d. Dwight Howard), en þetta frábæra lið keyrði á vegg um daginn þegar því var slátrað af Dallas-liði sem er ekkert mikið betra en það hefur verið síðustu fjögur ár.

Boston er svo einhversstaðar mitt á milli. Það er of snemmt að dæma liðið alveg úr leik eins og San Antonio, en Celtics þurfa meiri liðsstyrk en Lakers til að keppa aftur um titilinn. Kobe er kannski að eldast aðeins, en hann hefur öfluga stóra menn með sér (Gasol og Bynum) sem enn eru ferskari en þeir Pierce, Allen og Garnett hjá Boston.


























Við höfum verið að heyra raddir sem ætla að gjaldfella úrslitin í ár af því stórveldin þrjú eru fallin úr leik, en það er ósanngjarnt, sömu liðin geta ekki unnið endalaust. Þú púllar engan Ryan Giggs í NBA deildinni.

Celtics/Lakers, Detroit, Chicago, Houston, Chicago, Lakers, San Antonio, Celtics/Lakers.

Svona hefur landslagið verið frá áttunda áratug síðustu aldar en nú þarf að öllum líkindum að fara að rista ný nöfn á dollurnar, sem er frábær tilhugsun.

Lið Chicago Bulls var ekki kallað stórveldi árið 1991, ekki frekar en aldamótalið Lakers. Þessi lið þurftu að fá nokkra skelli áður en þau náðu á toppinn. Á sama hátt verður alltaf stjarna fyrir aftan titlana sem Houston vann um miðjan tíunda áratuginn líkt og titil San Antonio á verkfallsárinu 1999, hvort sem það er sanngjarnt eða ekki.

Það á eftir að koma í ljós hvort liðið sem vinnur meistaratitilinn árið 2011 verður one hit wonder eins og Miami 2006 eða hvort titillinn verður bara upphafið að einhverju sögulegu. Ef við skoðum liðin fjögur sem eru eftir, verðum við að hallast að síðari kostinum.

Margir hallast að því að það verði Dallas sem tekur þetta í ár en þó ljótt sé að segja það yrði það eina niðurstaðan sem gæti orðið til að gjaldfella titilinn að okkar mati.

Af hverju? Af því sama hvað hver segir, er þetta Dallas lið ekki það mikið betra en hin liðin sem Nowitzki hefur farið fyrir á síðustu árum. Og Dallas er eina liðið af þessum fjórum sem er á síðasta séns til að vinna eitthvað. Dirk verður ekki betri og margir af lykilmönnum liðsins eru að verða eða eru þegar orðnir of gamlir.

Sú er ekki raunin með Oklahoma, Chicago og Miami.

Oklahoma er ungt og vel mannað lið sem getur orðið betra og sömu sögu er að segja um Chicago, sem þar að auki er með alla hefðina með sér og stóran markað.

Flestir eru svo sammála um að Miami geti ekki orðið nema betra á næstu árum þegar það getur leyft sér aðeins meira svigrúm í leikmannamálum og stjörnurnar spilast betur saman. Það eina sem í fljótu bragði gæti skemmt fyrir Miami er heilsan á Dwyane Wade.

Við skulum því ekki fara á límingunum þó Lakers og Celtics séu fallin úr leik í ár og "nýtt" nafn fari á bikarinn.

NBA deildin hefur sjaldan eða aldrei verið skemmtilegri og er stútfull af hæfileikamönnum sem eru æstir í að verða næsta stórveldi.

Margir hallast enn að því að verði verkfall í NBA í sumar en ef það þarf endilega að koma, er það að koma á flottum tíma. Sumir segja að það sé að koma á versta mögulega tíma, en það er einfaldlega rangt.

Það er að koma á besta mögulega tíma í sögulegu samhengi vegna þeirra miklu kynslóðaskipta sem eru í gangi.

Það hefði verið hrikalegt ef verkfall hefði rænt einhvert stórveldið möguleika á að vinna tvöfalt eða þrefalt en nú er engu slíku fyrir að fara. Borðið er hreint.

Auðvitað yrði verkfall massa turn-off, en tíminn gæti ekki verið betri þó deildin sé í mikilli sókn. Við skulum samt vona að ekkert verði af þessu, Zach Randolph er alveg maðurinn til að verða Shawn Kemp þessa verkfalls.

Við skulum því ekki fara í þunglyndiskast og verða svartsýn þó nýir hlutir séu að gerast í deildinni okkar. Hún mun halda áfram að standa fyrir sínu. Leikurinn mun alltaf sigra að lokum.