Saturday, November 17, 2012

- Þáttaskil hjá besta körfuboltamanni heims -


Miami-penninn Tom Haberstroh á ESPN átti kollgátuna í fyrradag þegar honum þótti ástæða til að skrifa grein um það þegar LeBron James ákvað að gefa boltann í stað þess að skjóta sjálfur á lokamínútu viðureignar Denver og Miami á dögunum.

Hversu oft höfum við ekki heyrt og séð þetta í gegn um árin?  James var ekki búinn að vera lengi í deildinni þegar byrjað var að skrifa heilu hlemmana um ákvarðanatöku hans á ögurstundu - skoða hverja ákvörðun og hverja hreyfingu í gegn um smásjá.

Það hefur vissulega komið fyrir á níu ára ferli hans að LeBron James hafi annað hvort (saurlosun) á sig eða ekki ráðið við verkefnið. 

James (saurlosun) á gólfið þegar Celtics sló Cleveland-liðið hans út úr úrslitakeppninni árið sem Cavaliers átti endanlega að fara alla leið árið 2010. Aftur (saurlosun) hann þegar Miami tapaði fyrir Dallas í lokaúrslitunum árið 2011.

Árið 2007 fór hann líka með veikt Cleveland-lið í úrslitin gegn San Antonio en réði þá ekki við verkefnið. Það verður að teljast fullkomlega mannlegt, því San Antonio var um það bil 840 sinnum sterkara lið en Cleveland og lokaði einfaldlega hurðinni á eina manninn sem gat eitthvað hjá Cavs.

LeBron var ekki búinn að vera lengi í deildinni þegar hann byrjaði að verða fyrir gagnrýni fyrir að gefa boltann á ögurstundu í stað þess að reyna að skora sjálfur. Ekki síst af því "Jordan og Kobe gerðu það alltaf."

Flestir sem skrifuðu um þetta tiltekna málefni tóku þó afstöðu með James, því það var augljóst að hann var bara að leita að besta skotinu sem í boði var, hvort sem hann tók það eða einhver annar.

Þetta er kallað að treysta meðspilurum sínum, en það er siður sem mörg stórstjarnan hefur átt erfitt með að temja sér.

Fólk er alltaf svo fljótt að gleyma því að James hefur hvað eftir annað lokað leikjum upp á sitt einsdæmi, aldrei eins eftirminnilega og með Cleveland gegn Detroit Pistons forðum.

Það er fallegt að hugsa til þess að pilturinn hafi kosið að vera samkvæmur sjálfum sér og halda sínum (rétta) leikstíl áfram þrátt fyrir alla þessa gagnrýni. Málið er auðvitað það að James er ekki þessi hefðbundni ofur-skorari og neyðarkall, þó hafi alla burði til þess.

Hann er ekki Kobe Bryant.

Hann er hinsvegar LeBron James, guði sé lof.

 Lang-, langbesti körfuboltamaður í heimi í dag.

Hann hlær að samkeppninni, óttast engan og stundum er eins og hann svífi í gegn um heilu leikina.

Maðurinn er  óstöðvandi á báðum endum vallarins og er alltaf að leita leiða til að vinna körfuboltaleiki, taka réttar ákvarðanir.

Sé það skot, verður það skot. Sé það sending, verður það sending. Gjör það sem til þarf til að vinna. Leyndarmálið.

Nei, ekki Kobe Bryant. Frekar eins og Larry Bird. Bara aðeins minni sveitalubbi, aðeins minni hormotta og sítt að aftan. Og aðeins meira svona... einn fræknasti íþróttamaður sögunnar.

Við erum alltaf að sjá nýjar og fallegar hliðar á þeirri dásamlegu staðreynd að LeBron James er loksins búinn að finna leið í gegn um gaddavírsgirðingarnar sem stóðu fyrir álit okkar allra á honum. Hann er frjáls ferða sinna, veit hver hann er og hvað hann þarf að gera. Gæti þess vegna sagt okkur að hann fílaði Creed og komist upp með það.

Þess vegna þótti Haberstroh ástæða til að skrifa þessa grein.

Það hjálpaði vissulega málstaðnum að þessi umrædda sending James þarna í Denver, sem var á galopinn Norris Cole í horninu, skilaði körfu sem ísaði leikinn.

En hvort sem skotið hefði farið niður eða ekki, er fólk nú farið að eyða orkunni í að hugsa um eitthvað annað en hvort James drekkur Coke eða Pepsi.

LeBron James fær að einbeita sér að því að vera hann sjálfur og halda áfram að vinna körfuboltaleiki með meistaraliðinu sínu.

Það eru falleg tíðindi.

Við urðum líka að skrifa grein, alveg eins og Haberstroh. Af því LeBron er leikmaður sem neyðir okkur reglulega að lyklaborðinu, hvort sem við höfum heilsu til að skrifa eða ekki. Hann er uppspretta andagiftar, hann er það góður.

Það hefur aldrei verið planið hjá okkur að fara í einhverja herferð til að auka hróður LeBron James á Íslandi, en það er ekki hægt að kalla þessa sífelldu pistla okkar um hann neitt annað en það - herferð.

Hann á bara skilið orðið að fallega sé um hann skrifað.

Hann er búinn að borga upp lánin sín í deildinni. Búinn að vinna vinnuna, svitna svitanum og bíta í súra eplið. Hann er búinn að gera mistök og að lokum hefur hann nú uppskorið eftir sáningu.

Fáir íþróttamenn, ef einhverjir, hafa byrjað í atvinnumennsku með öðru eins fári og LeBron James.

Við höfum sagt það áður og segjum enn. Það merkilegasta við feril James er að okkar mati sú staðreynd þrátt fyrir smá hiksta inn á milli, hefur pilturinn náð að standa undir megninu af þeim óraunhæfu kröfum sem til hans hafa verið gerðar á skrumfylltum fyrri áratug hans í NBA.

Það er ekki víst að þú áttir þig á því hve mikið afrek það er.

Nú er LeBron svo byrjaður að taka til hendinni í síðasta kaflanum í bókinni um James Konung, en sá kafli snýr að því að vinna fleiri meistaratitla. Það er ekki gott að segja til um hversu marga titla hann á eftir að vinna á ferlinum en flest bendir til þess að þeir verði fleiri en þessi eini.

Og það er sko ekkert að því okkar vegna.