Sunday, July 1, 2012

Dwight Howard tekur við Danny Ainge verðlaununum


Vonandi verður þessi pistill stuttur, því hann er hrútleiðinlegur og neikvæður. Hættu umsvifalaust að lesa ef þú ert mótfallin(n) slíku drama.

Þetta er út af honum Dwight Howard. Við höfum nokkrum sinnum átt það til að stríða honum á þessu vefsvæði og þegar við skrifum um hann hefur það stundum verið í leiðindatón. Núna erum við aftur á móti gjörsamlega búin að fá nóg af Dwight Howard. Mælirinn er fullur.

Helmingurinn af þessu er fjölmiðlum að kenna. Þeir eru búnir að vera með Dwight Howard efstan í fréttum í að okkur finnst mörg ár. Það er komið nóg af þessu. Hinn helminginn af bullinu á Howard sjálfur, því hann hefur ekki hugmynd um hvað hann ætlar að gera við líf sitt sem atvinnumaður og dregur okkur öll með sér niður í þennan valkvíðadrullupoll.

Við vitum ekki með ykkur, en við höfum fengið svo miklu, miklu meira en nóg af þessu bulli.

Þegar öllu er á botninn hvolft, er Dwight Howard ekki leikmaður til að standa undir öllu þessu óþolandi skrumi. Hann er ofmetnasti leikmaður síðari tíma í NBA.

Howard er fínn varnarmaður og góður frákastari, en ofmetinn á báðum sviðum og það er líka restin af leik hans.

Dwight Howard mun aldrei leiða lið til meistaratitils, ekki nálægt því, af því hann er ekki nálægt því að standa undir neinu slíku.

Hann er enginn sóknarmaður, grátlega léleg vítaskytta og hefur sýnt fram á það að undanförnu að hann er ekki eftirsóknarverður liðsfélagi ef á móti blæs.

Við roðnum í hvert skipti sem hann vinnur til verðlauna og þegar hann er kallaður besti miðherji í heimi. Miðherjastaðan er dauð.

Dúkkulísum eins og Howard hefði verið pakkað saman á níunda og tíunda áratugnum þegar voru alvöru stórir menn í deildinni.

Þess vegna höfum við fengið meira en nóg af öllu þessu fári í kring um það hvert Dwight Howard vill fara. Af hverju í fjandanum skiptir Orlando þessu fífli ekki til New Jersey hið snarasta? Félagið getur fengið einhverja mola fyrir hann þar og verður að láta sér það duga. Howard er löngu búinn að eyðileggja möguleikann á því að Magic fái raunvirði fyrir hann út af bullinu í honum. Hann mun heldur ekki hika við að ganga út þegar samningur hans rennur út ef til þess kemur, sem reyndar verður að teljast ólíklegt.

Dwight Howard er sagður trúaður og góður piltur og það má vel vera.

Hann er hinsvegar illa gefinn og virðist ekki hafa nokkra einustu hugmynd um takmörk sín eða hafa skilning á því hvernig NBA deildin virkar. Virðist vilja vera bæði "maðurinn" og meistari hjá nýja liðinu sínu, sem er hlægilegt.


Eftir hverju þessi snillingur er að bíða, veit enginn. Allra síst hann sjálfur.

Körfuboltinn verður allur miklu betri þegar þessi ofmetni bjáni sem Howard er, heldur sér loksins saman og byrjar að spila, hvar sem það verður nú.

Við vitum samt öll að þögnin verður ekki löng. Það verður ekki langt þangað til hann byrjar að væla aftur og þá út af óhæfum þjálfara eða slökum meðspilurum.

LeBron James hefur verið blóraböggull og óvinsælasti leikmaður NBA deildarinnar undanfarin ár, eða frá því hann framdi almannatengslamorð með "Ákvörðuninni" og eldflaugaverkfræðiummælum sem komu í kjölfarið.

Nú hefur hann hinsvegar leiðrétt þessi mistök og unnið titil og fer því smátt og smátt að komast aftur í góðu bækurnar hjá pöpulnum.

Við þurfum því að fá nýjan blóraböggul, nýja flóttageit sem við getum bölvað fyrir heimsku sína og titlaleysi - og Dwight Howard er fullkominn í hlutverkið.

Reyndar er Carmelo Anthony að veita honum sælskap á toppi þessa lista, en það verður Dwight sem situr í skussasætinu á næstu misserum. Köllum þetta Danny Ainge-verðlaunin í höfuðið á einum hataðasta manni deildarinnar á sínum tíma.

Til að súmmera. Ákveddu þig Dwigt, naglhaltu kjafti og reyndu að bæta þig sem leikmaður. Reyndu svo að vinna nokkra titla til að standa undir þessu fáránlega skrumi sem í kring um þig er alla daga. Þá skulum við athuga hvort við fyrirgefum þér allar þessar ömurlegu fyrirsagnir og greinar sem mengað hafa sjónlínu okkar síðustu misseri.

Þangað til skaltu steinþegja!