Showing posts with label Stórustrákabuxurnar. Show all posts
Showing posts with label Stórustrákabuxurnar. Show all posts

Monday, December 26, 2016

Kyrie kláraði - Curry fór í köttinn


Þó stjörnufansinn væri mikill og glæsilegur, var leikur Cleveland og Golden State um jólin í fyrra alls ekki eins góður og efni stóðu til og þjálfararnir héldu spilunum fast að vestinu ef svo má segja. Viðureign þessara tveggja sterkustu körfuboltaliða heims þessi jólin olli hinsvegar engum vonbrigðum. Hún var hreint út sagt mögnuð.

Það sem helst vakti áhuga okkar í þessum leik var að ef einhver hefur verið í vafa um hver væri neyðarkarl Warriors-liðsins, þarf hann ekki að vera það lengur. Kevin Durant er fyrsti, annar og þriðji kostur Golden State í sókninni í fjórða leikhluta og enn frekar á ögurstundu.

Þessi pólitík gerir svo ekki annað en styrkjast þegar Stephen Curry nó-sjóar enn einn Cleveland-leikinn fyrir Warriors. Curry þarf svona í alvöru að fara að hætta að fara í feluleik þegar hann er að spila við Cavs, sérstaklega á jólunum, þar sem hann er bara lélegur.

Sérstaklega ef haft er í huga að hann er tvöfaldur leikmaður ársins. Tvöfaldir leikmenn ársins eiga ekki nógu marga slæma leiki til að búa til mynstur. Það kemur bara ekki fyrir. En það er að gerast hjá Curry, sem fer í jólaköttinn að þessu sinni.

Meðan Curry hljóp um völlinn og boraði í nefið, var Kyrie Irving í miklu stuði hjá Cleveland. Það munaði engum 70 stigum á þeim þegar upp var staðið (25-15 fyrir Kyrie) og Irving hitti ekkert sérstaklega vel, en hann fyllti tölfræðiskýrsluna rækilega (25/6/10 og sjö stolnir!) og setti skotin niður þegar á þurfti að halda - skoraði m.a. það sem reyndist sigurkarfan í leiknum.

Irving er mjög sérstakur leikmaður. Hann er algjör æsó-bangsi, dripplar mikið, gefur lítið og tekur mikið af skotum, en það er að hluta til afsakanlegt af því hann er einn besti sóknarmaður í heimi. Hann lítur svo á að það sé alltaf góð hugmynd að hann sjálfur fari einn á einn, sem er viðhorf út af fyrir sig.

Pjúristarnir eru oft ekki hrifnir af honum og við verðum að segja að okkur myndi ekki langa að spila með honum í liði, en hann sýndi okkur það víst í sumar að það er hægt að ná árangri með því að spila svona.

Draymond Green var reyndar ekkert að glansa í þessum leik frekar en Curry (16/4/4 - sex tapaðir og fimm villur), en þó Kevin Durant hafi ef til vill verið einhver blanda af Hans Klaufa og Óheppna-Hans þarna í lokin, er ekki hægt að segja annað en að hann hafi verið magnaður fyrir Warriors í þessum leik.

Við vitum öll hvað hann getur, en við vitum líka (jafnvel og hann sjálfur) að það er hópur af heiterum þarna úti sem eru farnir að pískra um að Durant sé ekki nógu beittur í klötsinu - að hann bogni á ögurstundu. Það er mjög strangur lestur, því ef þú pælir í því, eru körfuboltamenn almennt ekkert góðir á ögurstundu. Slíkt eru algjörar undantekningar, sama hvað Kobe-aðdáendur rífa kjaft.

Cleveland-menn fögnuðu sigrinum á Golden State meira en þeir fögnuðu þegar þeir unnu Austurdeildina í úrslitakeppninni í vor, sem er áhugavert. Það er hinsvegar eðlilegt að þeir hafi verið ánægðir með sig í gærkvöldi af því bæði lið lögðu allt í leikinn og spiluðu af mikilli hörku. Þetta var ekki eins og í fyrra þegar liðin gengu inn á völlinn, þefuðu af anusnum á hvort öðru, urruðu lágt og bofsuðu - ó, nei. Nú var bara flautað og allt á fullt í fætingi. Fabjúlus.

Warriors-menn fara ekkert á taugum þó þeir hafi tapað þessum leik, en þeir eru hundpirraðir á tapinu og þó þeir séu ekki beint hræddir við Cleveland - þeir eru ekki hræddir við neitt lið - eru LeBron og félagar búnir að þröngva þá til virðingar við sig ef svo má segja. Þessi lið eru farin að þekkjast nokkuð vel, en öfugt við síðustu tvö ár, er það Cleveland sem býr yfir meiri stöðugleika og samhæfingu. Þetta skiptir máli.

Cleveland er eina liðið sem er með plan sem gengur reglulega upp á móti Golden State, sem segir okkur ekki annað en það að meistararnir séu helvíti góðir í körfubolta. Það er augljóst að þeir eru alveg tilbúnir í að mæta Warriors aftur í úrslitum ef til þess kemur og vonandi fyrir þá verður hægðaheilinn JR Smith búinn að jafna sig í lúkunni þá.

Það eina sem við höfum áhyggjur af fyrir hönd Cavs er hvað LeBron James er að spila allt of mikið. Liðið er ekki í það harðri keppni í deildarkeppninni að það þurfi að vera að láta hann spila 40 mínútur kvöld eftir kvöld. Það er fullkomlega glórulaust.

Við segjum stundum að alls konar hlutir séu glórulausir, en að láta LeBron spila svona mikið á þessum tímapunkti er glórulausara en allir þeir hlutir samanlagt.

Gaurinn er bara rúmlega þrítugur, en hann er búinn að spila fleiri mínútur en Rolling Stones og þó hann sé geimvera, eru menn með þennan mílufjölda og á þessum aldri (þó LeBron hafi sennilega spilað fleiri mínútur en allir alltaf ever á þessum aldri/árafjölda í deildinni) einfaldlega tifandi tímasprengjur varðandi meiðslahættu.

En hvað um það. Það sem upp úr stendur er að við fengum alveg ógeðslega skemmtilegan jólaleik, sem gerir ekki annað en að bæta hátíðarskap okkar allra. Dásamlegt alveg.

--------------------------------------------------------------------------------------------------------

P.s. - Halló! Nennir einhver að lyfjaprófa Richard Jefferson snöggvast?


Wednesday, November 30, 2016

Draymond Green afgreiðir körfuboltaleiki, aftur


Þau ykkar sem hlustuðu á hlaðvarpið okkar á föstudaginn var, hafa eflaust tekið eftir því að þar fór að minnsta kosti helmingur þátttakenda gjörsamlega á límingunum við það að lýsa hrifningu sinni á spilamennsku Leatherman-framherjans Draymond Green hjá Golden State Warriors.

Alhliða spilamennska Green er nú í sviðsljósinu sem aldrei fyrr, ekki síst varnarleikur kappans, sem var eitt helsta umræðuefnið þegar leikmanninn bar á góma í ofangreindu hlaðvarpi. Hann er orðinn svo góður í körfubolta að það virðist ekki vera hægt að jinxa hann einu sinni.

Ekki ef marka má frammistöðu hans á lokaaugnablikunum þegar Warriors-liðið tók á móti Atlanta Haukunum á dögunum, en þá tók Green sig til og gerði nákvæmlega það sem lýst var í hlaðvarpinu; hann tók þá skynsömu ákvörðun að klára leikinn upp á sitt einsdæmi á lokamínútunum - og það sem meira er - hann gerði það (mestmegnis) með því að spila varnarleik.

Þetta var dálítið dæmigerður Warriors-leikur. Það var alltaf líklegra að Golden State væri að fara að vinna hann, því lið sem stunda það að vinna 10+ leiki í röð eiga það til að vera sigurstranglegri en... til dæmis lið úr Austurdeildinni.

Þetta var samt alveg leikur þarna í restina á mánudagskvöldið og Atlanta er alveg með gaura sem geta sparkað í punginn á þér ef þú yfirbugar þá ekki, svona ef við gætum þess að hafa líkingamálið bæði karllægt og ofbeldisfullt í tilefni jólanna.

Jæja, eins og þið sjáið í myndbandinu hérna fyrir neðan, freistaði Curry þess að stinga rýtingnum í Haukaliðið, en hetjuskotin hans voru ekki að detta og þið heyrið alveg að sjónvarpsþulir Warriors-liðsins eru ekkert yfir sig hrifnir af ákvarðanatöku og óþolnimæði sinna manna í sókninni þarna í lokin.

Það var á þessum tímapunkti sem Draymond Green tók áðurnefnda ákvörðun, sem minnst var á í hlaðvarpinu á föstudaginn; svona: Æ, best að loka þessu bara, snöggvast!

Smelltu á play, spólaðu á 7:30 og sjáðu hvað gerist. Nei, reyndar ekki. Farðu á 7:30 og horfðu bara á hvað Draymond Green gerir!



Það er ekki flókin stærðfræði að nánast allt jákvætt sem gerist hjá góða liðinu frá og með þessum tímapunkti, kemur frá Green. Sama hvort það eru hindranir, stoðsendingar, fráköst, hagkvæmar villur, réttar staðsetningar og ákvarðanir - jú, eða kannski tvö varin skot sem klára leikinn og annað þeirra hrekkur meira að segja af sóknarmanninum og í innkast, eins og til að kóróna fagmennskuna.

Þetta er akkúrat málið með Draymond Green. Hvenær sástu svona leikmann, með svona pakka, gera svona hluti inni á körfuboltavelli síðast? Nákvæmlega.

Við vitum alveg að við erum dramatísk og við vitum líka að við höfum ekki með körfuboltalegt kapítal í að ætla okkur að fara að greina NBA leiki - hvort sem um er að ræða varnar- eða sóknarleik, Val eða Warriors. Við erum hvorki Valur Ingimundar né Hubie Brown (aiiit?).

En málið snýst heldur ekkert um það.

Málið snýst alfarið um það hvað Draymond Green er orðinn ískyggilega góður í körfubolta og hvað sú staðreynd er sumpart farin að grafa undan hugmyndafræði okkar um stórstjörnuna í NBA sem setið hefur og safnað ryki um árabil. Þetta er sannarlega rannsóknarefni, sem taka verður föstum tökum, helst með hjálp sérfræðinga, þegar hlutirnir róast aðeins á ritstjórninni eftir mánaðamótin.

Wednesday, May 25, 2016

Oklahoma heldur áfram að koma á óvart


Bara að við hefðum nú yfirgripsmikla þekkingu á körfuknattleik, þá gætum við sagt ykkur hvernig í fjandanum stendur á því að Oklahoma City er að taka tvö af bestu liðum sem NBA deildin hefur alið af sér og SLÁTRA þeim.

Við gætum alveg farið í að apa einhverjar fabúleringar um X og O eftir einhverjum af þeim örfáu pennum sem hafa eitthvað vit á körfubolta, en það yrði bara kjánalegt. Í staðinn segjum við ykkur frá því hvað fyrir leikmannsaugu okkar bar og hvernig við upplifðum það. Hvernig við upplifðum það að sjá NBA meistarana tapa tveimur leikjum í röð í fyrsta skipti í vetur og það með tilþrifum.


Það sem við tókum fyrst eftir þegar við horfðum á þessa seríu og allir hljóta að hafa séð mjög augljóslega í leik fjögur, er að Stephen Curry er ekki hann sjálfur í þessu einvígi. Og þá erum við ekki að meina að hann sé eitthvað andlega vanstilltur eða eitthvað þannig, heldur að hann sé meiddur. Stephen Curry er augljóslega meiddur og það sjá allir sem hafa séð svo mikið sem 3-4 leiki með Golden State í vetur.

Nú ætlum við alls ekki að taka neitt af varnarleik Oklahoma, sem hefur verið alveg frábær í þessari rimmu, en það er ekki bara þessum varnarleik að kenna að Stephen Curry er svona langt frá sínu besta. Þeir Adams og Ibaka hafa náð að snúa einu og einu skoti frá honum, en það er alveg stórfurðulegt að sjá Curry allt í einu klikka á opnum þristum, stuttum skotum og sniðskotum, aftur og aftur og aftur í sama leiknum.


Við horfðum á tugi leikja með Warriors í vetur. Þetta eru skot sem hann er ekki bara að hitta vel úr - þetta eru skot sem fara ÖLL niður hjá honum. ALLTAF. Sama hvort það er með vinstri eða hægri, eftir gegnumbrot eða hraðaupphlaup, með mann í sér eða ekki. Hann bara setur svona skot og er betri í því en allir leikmenn í deildinni. Tölfræðin meira að segja bakkar það upp.

Curry fékk þannig sjö galopin skot í leiknum í nótt og hitti aðeins úr tveimur þeirra - var 0 af 5 í þriggja stiga skotum af þeirri gerðinni. Það er bara augljóst að hér er ekki allt með felldu.

Ástæðan fyrir því að við erum að velta okkur upp úr þessu er jú að Curry er tvöfaldur verðmætasti leikmaður NBA deildarinnar og því má nærri geta hvort það skiptir liðið hans máli að hafa hann á fullu gasi eður ei. Og það er allt frekar ei núna.

Tölfræðin hans Curry er einhverra hluta vegna fín í þessu einvígi, þar sem hann er með 24 stig, 5 fráköst, 5 stoðsendingar og 4,3 tapaða bolta í leik og skotnýtingu upp á 42%/37% og 86%. En þegar rýnt er í tölfræðina hans fyrir lengra komna, stökkva pöddurnar upp undan steininum.

Þannig skorar Golden State ekki nema skitin 98,8 stig per 100 sóknir þegar Stephen Curry en er ljómandi fínt 110,7 þegar hann er á bekknum.

Til samanburðar er Oklahoma að skora 115,4 stig á hverjar 100 sóknir þegar Russell Westbrook er inni á vellinum, en svo gjörsamlega hrynur leikur liðsins þegar hann fer útaf - alveg niður í 81,4 stig á 100 sóknir!

Við áttum okkur á því að úrtakið er ekki stórt í þessu sambandi, en til að setja þessar tölur í samhengi má nefna að Philadelphia var með verstu sóknartölfræðina í deildarkeppninni í vetur með 96,6 stig og aðeins Sixers, Lakers og Suns skoruðu innan við 100 stig á hverjar 100 sóknir á liðinni leiktíð.

Til gamans má geta þess að Golden State var einmitt með bestu sóknina í deildarkeppninni með 112,5 stig per 100 sóknir, Oklahoma með 109,9, San Antonio með 108,4, Cleveland með 108,1 og Toronto með 107.

Hver sagði að það væri varnarleikur sem væri lykillinn að því að vinna titla? Segir það ekki eitthvað að liðin fjögur sem eru eftir í úrslitakeppninni séu í fjórum af fimm efstu sætunum í þessari tölfræði? Það er einhver fylgni þarna á milli.

Og af því þú fórst að pæla í því í framhaldinu af þessu, þá var San Antonio með (sögulega) bestu vörnina í deildarkeppninni í vetur með 96,6 stig fengin á sig per 100 sóknir. Golden State leiddi deildina í þessari tölfræði á síðustu leiktíð, en var aðeins í fimmta sæti á þessari með 100,9. Hin liðin þrjú í undanúrslitunum koma svo skemmtilega hvert á eftir öðru í sætum 10, 11 og 12 á þessum lista. Cleveland með 102,3, Toronto með 102,7 og Oklahoma með 103 slétt.


Þetta var ljómandi fínn útúrdúr til að nota til að sleppa við að reyna að útskýra hvað er að gerast í einvígi Oklahoma og Golden State - hvernig meistararnir eru allt í einu bara einu tapi frá því að láta sparka sér í sumarfrí... Það er með ólíkindum.

Það hefur sitt að segja í seríunni að Stephen Curry sé ekki alveg með sjálfum sér eins og við sögðum og að Draymond Green hefur til dæmis spilað eins og órangútan á alsælu í leikjunum í Oklahoma.

En við skulum hætta að framleiða afsakanir handa Warriors-mönnum - hvorki þeir né þjálfarinn þeirra kæra sig um svoleiðis væl. Það er eitt af svo mörgu sem er svo töff við þetta Warriors-lið. Þeir eru allir svo auðmjúkir (meira að segja Draymond Green, þó hann gnísti tönnum á meðan) og nánast léttir á því þó þeir hafi ekki aðeins tapað tveimur leikjum í röð í fyrsta skipti á leiktíðinni, heldur var þeim pakkað saman. Sjáðu bara  brosið hans Steve Kerr eftir leikinn í nótt:


Ef við ættum að útskýra yfirburði Oklahoma í þessu einvígi á sem einfaldastan máta, til dæmis eins og til þess að hanna fyrirsögn úr því, myndum við líklega hafa hana "Of mikið OKC."  Þar eigum við auðvitað við að Oklahoma er búið að taka sína uppáhalds leikaðferð og troða henni upp á Golden State hvort sem þeim líkar betur eða verr.

Sóknarleikur Oklahoma er nákvæmlega eins og maðurinn sem fer fyrir honum, Russell Westbrook: gjörsamlega villtur og óútreiknanlegur þó hann sé einfaldur. Málið er bara að þegar leikmenn Oklahoma geta valtað yfir hvaða lið sem er í deildinni þegar allir leikmenn liðsins leggja sig 100% fram á báðum endum vallarins og þegar þeir grípa til besta vopnsins síns, á ekki Warriors einu sinni séns.

Þetta leynivopn er svo sem ekkert leynivopn. Oklahoma er bara íþróttafræðilega betra en önnur lið í deildinni. Þeir getta teflt fram svo illviðráðanlegum liðsuppstillingum þar sem þeir hafa yfirburði hvað varðar hraða, hæð, lengd og sprengikraft. Þetta er dálítið frumstætt, en svona er þetta bara.


Það er annars fljótlegt að renna yfir það sem er að ganga upp hjá Oklahoma og hefur tryggt ótrúlega 3-1 forystu í þessu einvígi.

Þetta byrjar allt hjá Billy Donovan þjálfara, sem er ekki búinn að troða sokk upp í ritstjórn NBA Ísland, heldur er hann búinn að troða sokkaskúffu upp í okkur með því að vera á góðri leið með að út-þjálfa þrjá af bestu þjálfurum NBA deildarinnar í fyrstu úrslitakeppninni sinni og er 7-3 á móti liðunum tveimur sem flestir spáðu því að yrðu meistarar í júní (það er að segja annað hvort Spurs eða Warriors).

Næstum því allir leikmennirnir sem koma við sögu hjá Oklahoma í þessu einvígi eru að spila frábærlega vel og sumir hverjir eru að tvöfalda það framlag sem nokkur maður eða kona þorði að treysta á frá þeim í þessu einvígi. Þetta eru menn eins og Andre Roberson og Dion Waiters og raunar Steven Adams líka. Þessir kallar hafa allir farið á kostum á sinn hátt og eiga stóran þátt í velgengni liðsins.

Oklahoma fer samt aldrei lengra en Russell Westbrook og Kevin Durant draga það og eins og staðan er í dag, eru þeir einfaldlega að spila eins og tveir bestu körfuboltamenn í heimi. Það er er óþarfi að gera upp á milli þeirra Durant (28,8 stig, 8,8 fráköst, 2 stolnir og 1,8 varin - 45% fg, 31% 3pt og 91% ft) og Westbrook (27 stig, 6,5 fráköst, 11,8 stoð, 3,8 stolnir - 42% fg, 36% 3pt og 87% ft) en af því við erum svo mikil fífl, þá gerum við það samt.

Sumir segja að Kevin Durant sé búinn að vera maður úrslitakeppninnar til þessa, en hluti þeirra sem "kjósa" Durant, gera það af því hann er ekki Russell Westbrook - af því hann fer í taugarnar á þeim. Eitt sem vinnur mikið með Durant í þessari tilgangslausu hugleiðingu er hvað drengurinn er búinn að spila frábæra vörn í einvíginu við meistarana.

Viltu til dæmis giska á hvernig tveir bestu leikmenn Oklahoma eru búnir að skjóta þegar Kevin Durant er að dekka þá? Okkur grunaði það. Stephen Curry og Draymond Green eru 1 af 19 í skotum með níu tapaða bolta í þeim tilvikum sem Durant hefur dekkað þá. Þetta er náttúrulega lygileg tölfræði.

Þrátt fyrir þessar áhrifamiklu tölur, er það samt Russell Westbrook sem í okkar bókum er búinn að spila manna best eins og dæmið með stigaskor Oklahoma þegar hann var utan/innan vallar sýndi réttilega.

Golden State á bara ekkert svar við Westbrook, ekki frekar en San Antonio. Hann er bara allt of mikill Russell Westbrook. Hann gerir haug af mistökum, missir boltann oft og tekur mörg glórulaus skot, en hann mun alltaf gera það, sama hvort hann er að spila leik á undirbúningstímabilinu eða í lokaúrslitum. Russ hefur alltaf verið, er og verður alltaf, nákvæmlega Russ.

Við tókum eftir því að Kenny Smith í Inside the NBA þættinum fræga á TNT hélt því fram í nótt að nú væri komin gríðarleg pressa á Oklahoma að vinna fimmta leikinn í einvíginu í Oakland.

Fyrirgefðu, Jet, en huh?

Fyrsti og eini pressuleikurinn í þessari seríu fór fram í nótt. Pressan var mikil á Warriors er því tölfræðin fyrir lið sem lenda undir 3-1 í seríum í úrslitakeppni er álíka góð og líkur á að vinna í lottói. Svona til gamans getum við sagt ykkur það að lið sem hafa náð 3-1 forystu í undanúrslitarimmum í sögu NBA hafa unnið 37 einvígi og tapað aðeins tveimur. Tuttugu af þessum 37 liðum kláruðu seríuna í leik fimm.

Síðasta lið til að koma til baka og vinna undanúrslitaseríu eftir að hafa lent 3-1 undir var Boston liðið hans Larry Bird sem sneri við blaðinu gegn Philadelphia 76ers árið 1981 og toppaði það svo með því að vinna Houston 4-2 í úrslitaeinvíginu. Þetta var fyrsti titillinn hans Larry Bird með Boston.

En það var líka pressa á Oklahoma fyrir leik fjögur, bara öðruvísi pressa. Oklahoma VARÐ að vinna fjórða leikinn ef það ætlaði sér að vinna þessa seríu, af því ef það hefði tapað honum, hefði staðan verið orðin 2-2, Golden State búið að stela heimavellinum aftur og ætti nú tvo heimaleiki í þriggja leikja seríu.

Sem sagt, beisikklí ómögulegt dæmi, þó Oklahoma sé búið að vera að vinna ótrúlega sannfærandi útisigra í þessari úrslitakeppni.

Nú er staðan hinsvegar orðin sú að Golden State verður að vinna þrjá leiki í röð eða fara í sumarfrí, en það sem er svo magnað við blessaða úrslitakeppnina er að lið Warriors þarf ekki annað en að vinna einn heimaleik (næsta leik) til að hlaða pressunni aftur á Oklahoma. Þá vita þeir að þeir verða að vinna leik sex á heimavelli, því líkurnar á því að vinna Golden State á útivelli í leik sjö eru... við skulum segja helvíti litlar.

Þetta er svo gaman að þetta ætti næstum því að vera bannað.



































LOL!

Saturday, October 31, 2015

Klikkaðasti körfuboltamaður heims


Hér er bara lítið dæmi frá því í nótt sem rökstyður af hverju Russell Westbrook er klikkaðasti körfuboltamaður heims í dag. Klikkaður, eins og í óútreiknanlegur, hvatvís, ör, óhræddur og alveg ógeðslega góður.

Tuesday, June 10, 2014

Jafnt hjá San Antonio og Miami


San Antonio er tæknilega með betra lið en Miami, en Flórídaliðið er með LeBron James í sínum röðum. Heimamenn í San Antonio virkuðu betri í öðrum leiknum þangað til James hugsaði með sér að nú væri líklega best að jafna bara einvígið og fara heim með stöðuna 1-1.

San Antonio var búið að vinna átta heimaleiki í röð í úrslitakeppninni og engan þeirra með minna en 15 stiga mun, sem var NBA met.

James skoraði 35 stig, þar af 33 á síðustu 36 mínútunum, þegar Miami lagði San Antonio 98-96 á sunnudaginn og jafnaði metin í einvíginu. LeBron hitti úr 14 af 22 skotum sínum í leiknum, sem er um 64% nýting. Shaquille O´Neal er eini maðurinn í sögu NBA sem hefur skorað svona mörg stig með 64%+ skotnýtingu, en við depluðum ekki auga yfir þessu.

Þetta var ósköp venjulegur leikur hjá James. O.k. kannski aðeins betri en venjulegur, en samt eitthvað svo áreynslulaus. Svona er James búinn að stilla stöngina hátt. Hann á hvern stórleikinn á fætur öðrum, en við tökum varla eftir því.

Eins og svo oft áður byrjar hann á því að leggja á borð fyrir félaga sína og hefur frekar hægt um sig þegar kemur að því að skjóta á körfuna. Hann skoraði aðeins tvö stig í fyrsta leikhluta, þar sem hann skaut 1-4 og gott ef þetta var ekki lægsta samanlagða stigaskor þeirra James og Wade í 1. leikhluta síðan sá fyrrnefndi gekk í raðir Miami.

Frá og með öðrum leikhluta - og sérstaklega í þeim þriðja - hitti James úr 11 af næstu 13 skotum sínum, aðallega af því hann réðist á körfuna við hvert einasta tækifæri sem gafst. Þið eruð öll búin að átta ykkur á því hvað gerist þegar James er í árásarham í kring um körfuna og eins og til að bæta gráu ofan á svart fyrir Spurs, var hann sjóðandi heitur fyrir utan líka eftir því sem leið á leikinn.

Þú getur voðalega lítið gert að því, af því það er illa séð að nota handsprengjur og/eða Volvo Laplander á körfuboltavöllum. Þetta eru í fljótu bragði einu verkfærin sem okkur dettur í hug að gætu stjakað LeBron James út af sporinu þegar hann er í þessum ham.

Og á hinum enda vallarins sá James oft um að gæta Tony Parker, sem er verkefni sem fáir ráða við. Þessi skák Miami-manna gekk vel upp og hæðin og lengdin á James truflaði Parker mikið. Það mætti halda að LeBron James væri góður í körfubolta.

San Antonio líður best varnarlega þegar það getur haft bæði Tim Duncan og Tiago Splitter inná í einu, en minniboltatilburðir Miami og ógn fyrir utan gera það að verkum að það er ekki alltaf hægt.

Rétt eins og í fyrra, hefur þessi barátta mikið að segja um niðurstöðuna í einvíginu. Það vakti athygli okkar hvað veðbankar virkuðu ákveðnir í því að San Antonio ætti eftir að vinna þetta einvígi áður en það hófst.

  • Skipti heimavöllurinn þá svona miklu máli? 
  • Var San Antonio búið að spila svona vel? 
  • Eða var Miami svona lélegt? 

Ekki gott að segja.

En það sem við vitum, er að Miami er búið að spila 46 leiki í röð í úrslitakeppni án þess að tapa tveimur leikjum í röð. Það segir sína sögu um styrk og velgengni Miami. Líka skondið að þetta er í þriðja skiptið í röð sem Miami tapar opnunarleiknum í lokaúrslitunum.

Þessi rimma verður rosaleg.