Showing posts with label Fjölnir. Show all posts
Showing posts with label Fjölnir. Show all posts

Thursday, March 27, 2014

Grafarvogur versus Egilsstaðir


Spurt er: Hver sendi frá sér eftirfarandi yfirlýsingu í haust?

"Það verða klárlega Fjölnir og Höttur sem keppa um að fylgja Stólunum í úrvalsdeildina næsta vetur!"

Það er rétt hjá þér. Ekki nokkur maður. Það var enginn svo fjandi fullur.

Fjölnismenn tryggðu sér einvígið við Héraðsbúana í gærkvöldi þegar þeir lögðu Breiðablik 82-77 í æsispennandi umspils-oddaeik í Dalhúsum.

Áður höfðu Hattarmenn sent Þórsara frá Akureyri í sumarfrí. Hér eru á ferðinni liðin sem höfnuðu í 2.-5 sæti í 1. deildinni í vetur. Stólarnir fóru beint upp, en næstu fjögur liðin fóru í umspil.

Það eru ekkert allir með þetta á hreinu (ekki við amk) og því kannski ekki úr vegi að útskýra þetta fyrir leikmanninum.

Kópavogsliðið fór dálítið illa að ráði sínu í gærkvöldi, því það var yfir lengst af í síðari hálfleiknum. Þá tökum við samt ekkert af Fjölnismönnum, sem voru töffarar og settu niður risaskot í lokin, meðan fát kom á Blikana. Þetta leit hreint ekki vel út hjá Fjölni á síðustu mínútunum, en þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem við sjáum þetta lið sýna flottan karakter á ögurstundu í vetur.

Ólafur Torfason var að venju allt eins hrikalegur og hann á kyn til og skilaði 21/19. Eins verður að geta framlagi Róberts Sigurðssonar í krönsinu. Frýs í æðum blóð!

Það verður örugglega bullandi fjör í úrslitaeinvíginu, en þið þekkið okkur, auðvitað verðum við að bjóða upp á smá skammt af leiðindum. 

Hvaða erindi haldið þið að Höttur eigi upp í úrvalsdeild, þegar 840 sinnum stærri klúbbur eins og Valur fer upp annað hvert ár og en drullar alltaf strax á sig og vinnur varla leik?

Ætla mætti að Fjölnir ætti meira erindi í deild þeirra bestu en Höttur, enda miklu stærri klúbbur með 7.489 sinnum fleiri iðkendur og allt það. 

En eins og Valsmennirnir hafa reyndar sýnt okkur, skiptir stærð félaganna svo sem ekki öllu máli. Þeir virðast fullfærir um að drulla á sig hvort sem koma 20 manns eða 200 manns á leikina - og hvort sem sjoppan er tveir eða tvöhundruð fermetrar. 

Við áttum okkur ekki alveg á metnaði Valsmanna, eða öllu heldur skorti þar á. Kannski er metnaðurinn meiri við Lagarfljótið en á Hlíðarenda. Hann verður amk að vera það ef Höttur rambar nú upp. Annars verður þetta eitthvað neyðarlegt.

En nóg af svona leiðindum. Fjölnir á auðvitað að vera uppi í Úrvalsdeildinni. Það má vel vera að Grafarvogspiltarnir séu Arsenal íslenska körfuboltans, en þeir ná nú yfirleitt að hlaða í þokkalegasta lið inn á milli þess sem þeir dæla hverjum gæðaleikmanninum á eftir öðrum til útlanda og í önnur lið hér heima.

Gætum við samt fengið að sjá Fjölnir taka einn vetur með alla sína menn? Þetta eru ekki að verða neinir smá karlar sem hafa verið að koma frá Fjölni og eru ýmist í atvinnumennsku eða í lykilhlutverkum í öðrum liðum. Pant.

Hvað Hött varðar, væri auðvitað gaman fyrir félagið að fá aðeins að reyna fyrir sér í efstu deild, þó varla yrði til annars en að vera gólfmotta í nokkra mánuði. Þeir sem fylgjast eitthvað með í körfunni á annað borð, vita hvað er rosalegur styrkleikamunur á liðunum í efstu og næstefstu deild.

En, já. Nokkrar myndir.









Saturday, February 8, 2014

Sveiflan stöðvaðist í Grafarvogi


Fjölnismenn unnu í kvöld magnaðan sigur á Tindastól frá Sauðárkróki 95-78 í 1. deildinni. Stólarnir voru taplausir (12-0) fyrir leikinn og því engin furða að heimamenn fögnuðu vel eftir sigurinn.

Skagfirðingarnir eru enn á toppi 1. deildar en Fjölnismenn í 3.-4. sæti með Héraðsbúunum í Hetti.  Töff sigur hjá Grafarvogspiltum, með þá Emil Þór og Pál Fannar í fararbroddi.

Davíð Ingi Bustion er líklega eini leikmaðurinn í 1. deildinni sem getur komið inn af bekknum í 12 mínútur og náð bæði að hirða 10 fráköst og gera allt vitlaust á vellinum með báráttu sinni.

Okkur leiddist ekki að horfa á Darrell Flakes spila fyrir Stólana. Kappinn lék fyrst hér á Íslandi sem atvinnumaður rétt áður en ljósaperan var fundin upp. Algjör meistari.

Af hverju er ekki til blogg á Íslandi sem heitir Skallabletturinn á Darrell Flake?

Við hentum hér inn nokkrum gulum myndum úr Dalhúsunum í kvöld.

























Saturday, October 26, 2013

Héraðsbúar með dólg í Dalhúsum


Aldrei þessu vant nenntum ómögulega að keyra vestur á Ísafjörð í gærkvöldi, svo við ákváðum í staðinn að skella okkur í Grafarvoginn og sjá Fjölnismenn taka á móti Hetti frá Egilsstöðum. Fljótlega varð ljóst að Héraðsmennirnir voru ekki mættir í Dalhúsin til að lita og leira, heldur flugu þeir aftur austur með 83-90 sigur í farteskinu.

Ef þið staldrið aðeins við og hugsið um helstu kenningar sem settar hafa verið fram í skynheildarsálfræði og hugrænni bókmenntafræði frá árinu 1990, verður niðurstaðan mjög líklega eitthvað svipuð og þekking okkar á Hattarliðinu.

Sem sagt engin.

Aldrei hefði okkur grunað að Höttur ætti eftir að æða í Grafarvoginn og vera bara með læti og vinna, en það var kannski bara af því við höfðum hvorki hugmynd um styrk heimamanna né gestanna.

Breytingarnar á liði Fjölnis frá því á síðustu leiktíð eru svo rosalegar að í rauninni átti klúbburinn ekki annað eftir en að skipta um nafn og búning.

Það hljómar reyndar alls ekki illa að kalla körfuboltafélagið í Grafarvogi bara Huginn, Súluna eða Hrafnkel Freysgoða, en þeir hafa ákveðið að halda sig við Fjölnisnafnið og ætla sér væntanlega fljótt upp í efstu deild aftur..

Brottfallið á úrvalsleikmönnum Fjölnis hefur verið mikið á síðustu árum, en síðastliðið vor þegar liðið féll í 1. deildina, steyptust hrægammarnir á líkið og kroppuðu allt kjöt af beinunum. Þegar upp var staðið voru nær allir strákarnir sem kunnu körfubolta farnir úr Grafarvoginum. Það væri hægt að setja saman suddalegt körfuboltalið úr mannskapnum sem komið hefur upp hjá Fjölni síðustu 8-10 árin eða svo, en það þýðir ekkert að tala um það.

Sú samsuða leikmanna sem nú er í Grafarvoginum er reyndar drullu skemmtileg, við ljúgum engu til um það. Þar kennir ýmissa grasa og finna má leikmenn kenndir hafa verið við Keflavík, Grindavík, Snæfell og KR svo einhver séu nefnd.

Gengi Fjölnis hefur kannski ekki verið fullkomið í upphafi leiktíðar, en þetta lið er ljómandi skemmtilegt og óskandi væri að fleiri nenntu að mæta á völlinn og styðja þessa stráka. Stundum höfðum við á tilfinningunni að það væru fjórtán manns á leiknum.

Það verður ekki bara breyting á leikmannahópnum þegar lið fellur í 1. deildina. Áhorfendum fækkar umtalsvert, fjölmiðlamenn eru sjaldséðir, umgjörðin dettur aðeins niður og hvorki vott né þurrt í boði fyrir blaðamenn uppi á svölum.

Þetta er miður, en vafalítið algeng þróun hjá félögum við þessar aðstæður.

Þetta raus í okkur er auðvitað ekki hefðbundin umfjöllun um körfuboltaleikinn frekar en venjulega þegar við byrjum að rugla, en við getum að sjálfssögðu ekki sett lokapuntinn á þessa hugleiðingu án þess að minnast á hrikalegheitin sem Ólafur Torfason var að bjóða upp á hjá heimamönnum.

Það var eins og hann hefði móðgast þegar Pavel Ermolinski setti tröllaþrennuna í Stykkishólmi í gær og ákveðið að fara sjálfur á tölfræðitúr.

Uppskeran hjá miðherjanum kjötmikla var 25 stig (10-16 í skotum), 20 fráköst og  5 stoðsendingar. Þetta þýðir hvorki meira né minna en 43 stig í framlag frá pilti, sem er glæsilegur árangur. Ekkert að því að vera með 13/13 meðaltal í deildinni eins og Ólafur í byrjun leiktíðar.

Af öðrum snáðum í Fjölnisliðinu má nefna að Páll Fannar Helgason var flottur í leikstjórnandanum með 18/5/4 og fína hittni og þá var atmennið Davíð Ingi Bustion (10/9/4) sjálfum sér samkvæmur og hamaðist eins og enginn væri morgundagurinn.

Davíð, sem varð Íslandsmeistari með Grindavík á síðustu leiktíð, minnir okkur stundum á Denver-manninn Kenneth Faried í NBA deildinni. Helsti munurinn á þeim er þó sá að Davíð er miklu betri varnarmaður.

Emil Jóhannson hafði mjög hægt um sig í liði Fjölnis það litla sem hann spilaði. Við áttum okkur ekki á því hvort það var út af meiðslum eða hvort honum er bara ekki ætlað stærri rulla en þetta í liðinu. Furðulegt.

Erlenda vinnuaflið í liðunum var í besta falli bleh.

Hérna fyrir neðan getið þið kíkt á nokkrar myndir frá leiknum ef þið hafið áhuga.















Saturday, January 5, 2013

Skjótan bata


Í umfjöllun okkar um leik Stjörnunnar og Fjölnis í kvöld gleymdum við auðvitað mikilvægasta atriðinu.

Það var að óska baráttujaxlinum Jóni Sverrissyni alls hins besta eftir að hann meiddist a hné í leiknum.

Jón er einn beittasti frákastari landsins og er ungum iðkendum góð fyrirmynd líkt og félagar hans í Fjölnisliðinu.

NBA Ísland óskar Jóni besta mögulega bata og skjótrar endurkomu á völlinn. Vonandi er þetta ekki of alvarlegt hjá honum.

Karfan.is greinir frá þessu atviki í kvöld en þar kemur reyndar fram að allt sé óslitið hjá kappanum.

Þú getur lesið um það hér.