Showing posts with label Andrew Wiggins. Show all posts
Showing posts with label Andrew Wiggins. Show all posts

Saturday, March 14, 2015

Wiggins er á leið í meiðsli


Sjónvarpsmenn Fox sem sjá um að sýna frá leikjum Minnesota Timberwolves eru ekki hjátrúarfullir. Það sýndi sig í nótt þegar þeir vörpuðu þessu skilti á skjáinn.



Þeir eru sem sagt búnir að gefa sér það að nýliðinn magnaði Andrew Wiggins muni spila alla leikina með liðinu í vetur þennan mánuð sem eftir er af tímabilinu. Þeir hafa sumsé engar áhyggjur af því að jinxa stjörnunýliða klúbbs sem hefur varla náð að koma saman liði kvöld eftir kvöld vegna meiðsla í mörg ár.

Þið lásuð það hér að Andrew Wiggins er á leið í meiðsli. Vonandi ekki alvarleg. Þetta er efnilegur strákur. En það er ekki fræðilegur möguleiki að hann spili alla 82 leikina fyrir liðið eftir þetta hrokafulla og heimskulega útspil sjónvarpsmanna Fox í nótt. Þvílík sauðnaut.

Sunday, January 18, 2015

Stjarna er að fæðast í Minnesota


Þið vitið hvað við eigum það til að vera skeptísk á nýliða í NBA deildinni. Þessi vantrú okkar á unga fólkinu stafar af því að við höfum brennt okkur á að trúa einhverju skrumi um háskólaleikmenn sem hafa svo ekki gert neitt nema drulla á sig þegar þeir koma í deild hinna fullorðnu.

Andrew Wiggins var einn af þessum ungu mönnum sem óhemju miklar vonir voru bundnar við. Fólk var farið að líkja honum við LeBron James löngu áður en hann spilaði sinn fyrsta NBA-leik og talað var um að hann væri mesta efni sinnar kynslóðar í súperstjörnu í NBA deildinni.

Heilladísirnar reyndust ekki á bandi Wiggins á fyrstu vikunum sínum í NBA deildinni, því í stað þess að spila með LeBron James í góðu liði í Austurdeildinni, var honum skipt í kuldann í Minnesota í til félags sem er bæði lítið og frægt fyrir að vita ekkert hvað það er að gera.

Æði.

Jæja, það góða við þetta hjá Wiggins var þó að það vantaði ekki spilamínúturnar. Vitað var að Úlfarnir yrðu ekki beint sterkir í vetur, en eins og venjan er á þeim bænum, meiddist megnið af lykilmönnum liðsins strax í haust og því hefur nánast hver sem er getað fengið mínútur hjá Minnesota ef hann á annað borð er með púls.

Það má ef til vill deila um það hvort það gerir Wiggins gott að læra fyrstu skrefin sín í NBA deildinni með gjörsamlega handónýtu liði, en eftir að hafa verið tiltölulega rólegur fyrstu vikurnar á ferlinum, er hann nú heldur betur að minna á sig.

Það er dálítið leiðinlegt fyrir Wiggins að þessi fína spilamennska hans sé til einskis, því ekki vinnur liðið hans leiki.

Það er hinsvegar mjög jákvætt að pilturinn sé að leyfa okkur að skyggnast inn í framtíðina og sýna okkur að ef til vill geti hann staðið undir einhverjum af lofræðunum sem ortar voru til hans í allt sumar.

Við finnum alltaf jafn mikið til með stuðningsmönnum Úlfanna, sem hafa mátt þola gengdarlaust mótlæti og vonbrigði síðustu ár, en nú gæti farið að sjá til sólar hjá þeim ef Wiggins heldur áfram að spila svona eins og engill.

Við skrifuðum þessa stuttu hugleiðingu í tilefni þess að Wiggins átti sinn besta leik á ferlinum í nótt þegar hann skoraði 31 stig, hirti 9 fráköst, gaf 4 stoðsendingar, varði 3 skot og stal einum bolta í óvæntum útisigri Minnesota á Denver.

Við gáfum það í kjölfarið út á Twitter að nú væri Wiggins-vagninn formlega kominn á fulla ferð, enda var mikið talað um piltinn einmitt á þeim miðli í kjölfar þessarar góðu frammistöðu hans.

Sjáðu bara hvað Wiggins er búinn að spila eins og engill í janúar.





Þetta lofar óhemju góðu og verður vonandi til þess að tala stuðningsmenn Úlfanna inn af syllunni sem þeir hafa staðið á að undanförnu. Kannski er bara von í þessu eftir allt saman.

Sunday, January 4, 2015

Erfiður áratugur hjá Úlfunum


Hversu líklegt er að við fáum að sjá Minnesota Timberwolves í úrslitakeppninni í vor? Ekki mjög. Raunar eru betri líkur á því að sjá fljúgandi svín keppa í listdansi á skautum í helvíti en að Úlfarnir komist í úrslitakeppnina. Og það er hæpið að breyting verði þar á á allra næstu árum.

Við verðum reyndar að hafa það í huga að það stóð nú aldrei til hjá Úlfunum að fara í úrslitakeppnina í vor. Hugmyndin var að búa til gott körfuboltalið með þeim Ricky Rubio, Kevin Love og Nikola Pekovic. Þið munið öll hvernig það gekk, svona inn á milli ferða á slysó.

Því var hætt við það allt saman, Ástþór seldur og stefnan sett á að byrja upp á nýtt og byggja upp nýtt lið skipað ungum og efnilegum leikmönnum. Í fimmtánþúsund-sjöhundruðfimmtugasta-
ogáttunda skiptið.

Kannski er þetta að verða dálítið þreytt aðferðafræði, en svona er þetta víst hjá Úlfunum og fólkið í Minnesota virðist hafa keypt þetta plan. Að ættleiða hvolpana efnilegu og styðja þá af stað út í lífið. Að byrja enn og aftur upp á nýtt.


En hvað erum við að tuða um Úlfana núna? Nú þegar félagið er í enn einum öldudalnum, aðeins nokkrum mánuðum eftir að það var einn mest spennandi klúbburinn í NBA. Liðið sem allir fylgdust reglulega með og farið var að valda stuðningsmannaframhjáhöldum og vagnhoppi daglega.

Jú, í því sem við fórum að hugsa um efniviðinn hjá Úlfunum, áttuðum við okkur um leið á því hvað þessir strákar eins og Andrew Wiggins eiga óhemju langt í land áður en þeir búa til lið sem einhver þarf að taka alvarlega. Það þýðir að sama skapi að klúbburinn sem hefur verið lengst allra utan úrslitakeppninnar í NBA, þarf enn að bíða eitthvað lengur.

Minnesota hefur nefnilega ekki komist í úrslitakeppnina síðan 2004 og því verða ellefu ár í vor síðan liðið fékk að spreyta sig á alvörunni. Þetta ku vera næstlengsta lægð þessarar tegundar síðan 16 liða úrslitakeppnin var tekin í gagnið með núverandi fyrirkomulagi árið 1984.

Aðeins Golden State getur státað af öðrum eins aulagangi, þegar liðið missti af úrslitakeppninni tólf ár í röð frá árinu 1995 til 2007. Fólk gleymir því kannski í allri gleðinni við Flóann í dag, að Warriors var eiginlega ekki búið að gera neitt annað en gera sig að fífli í rúman áratug þegar það svo loksins komst í úrslitakeppnina árið 2006.

Eins og mörg ykkar muna, var það svo reyndar úrslitakeppni fyrir allan peninginn, þegar liðið gerði sér lítið fyrir og sló efsta lið deildakeppninnar út í fyrstu umferðinni (Dallas, sem vann hvorki meira né minna en 67 leiki í deildakeppninni þann veturinn).

Það hljómar kannski ekkert svakalega langt, þannig, þessi ellefu ár án úrslitakeppni hjá Úlfunum. En bíðið þið bara.

Eruð þið búin að gleyma því hvernig Minnesota var mannað þegar það fór síðast í úrslitakeppni? Og munið þið hverjir mótherjar þess voru? Hafið ekki áhyggjur, við erum hérna til að hjálpa þeim sem muna þetta ekki.

Minnesota-liðið árið 2004 gerði nefnilega miklu meira en að komast í úrslitakeppnina. Það fór alla leið í úrslitaeinvígi Vesturdeildarinnar þar sem það þurfti reyndar að láta í minni pokann gegn pappírs-pésunum í Los Angeles Lakers.

Úlfarnir voru með gríðarlega öflugt lið þarna fyrir tíu árum síðan og unnu 58 leiki í deildakeppninni, sem er langbesti árangur í sögu félagsins. Fjögur bestu árin hjá Úlfunum voru árin 2000 (50 sigrar), 2002 (50 sigrar), 2003 (51 sigur) og téð 2004 (58 sigrar).

Minnesota er eitt af yngstu félögunum í NBA deildinni og var ekki stofnað fyrr en 1989. Fyrstu árin í deildinni voru skiljanlega ansi mögur, þar sem liðið var að vinna 15-20 leiki, en svo fór ástandið hægt og bítandi að skána.

Saturday, August 2, 2014

Svona var sumarið 2014: LeBron James


Lætin í kring um leikmannamarkaðinn, nýliðavalið og sumardeildirnar í Orlando og Las Vegas eru orðin svo mikil að segja má að NBA-pennar vestra fái sama og ekkert sumarfrí. Bættu svo við það HM í körfubolta og þá er sumarið orðið ansi stutt hjá þeim sem vinna t.d. við það að fjalla um NBA á einn eða annan hátt.

Ekkert að því.

Við sögðum ykkur eftir að lokaúrslitaeinvíginu lauk að við ætluðum ekki að taka okkur langt sumarfrí og við ætlum að reyna að standa við það. Auðvitað er andinn á ritstjórninni ekki eins frjór á sumrin og hann er yfir veturinn, en eins og við sögðum áðan, hefur ekki verið nein lognmolla í NBA deildnni í sumar.

Wednesday, October 9, 2013