Showing posts with label NBA Ísland. Show all posts
Showing posts with label NBA Ísland. Show all posts

Tuesday, November 1, 2016

Frá ritstjórn


Við munum vel hvað við blótuðum Bill Simmons ekki í hljóði hérna forðum þegar hann hætti að nenna að skrifa pistla á ESPN og gerði ekkert annað en að dæla út (stundum metnaðarlitlum) hlaðvörpum.

Líklega hefur Simmons aldrei verið jafn lélegur við að skrifa pistla á sínum tíma og við höfum verið undanfarið, en munurinn er kannski sá að hann var í 100% starfi við það, meðan við þurfum að djöggla námi, fjölskyldulífi, leik og starfi. Jú og við tölum/skrifum stundum um eitthvað annað en Boston Celtics.

Annars er þessum pistli ekki ætlað að vera skot á Simmons blessaðan, því hann var ákveðinn brautryðjandi fyrir fólk með takmarkaða menntun, metnað og gáfnafar í íþróttablaðamennsku. Þetta er ekkert skot, þetta er staðreynd og Simmons sjálfur myndi eflaust kvitta upp á þetta. Simmons hafði tvennt til brunns að bera og hefur enn - hann er duglegur andskoti þegar hann nennir því og hann er með frjótt ímyndunarafl.

Og hann veitti okkur líka innblástur á sínum tíma. Það má hann sannarlega eiga, þrátt fyrir sína vankanta. Og hann reyndi að vera skemmtilegur, þó það hafi stundum farið öfugt ofan í fólk. 

Við komumst að því sjálf fyrir löngu að það er alveg sama hvort þú heitir Bjarni Fel eða Bill Simmons, Martin Tyler eða Marv Albert, það verður alltaf alveg rosalega mikið af fólki þarna úti sem hatar þig og allt sem þú segir og er tilbúið að segja þér það, hvort sem þú átt það skilið eða ekki. Þannig er þetta bara.

Ætli við höfum ekki reynt með veikum mætti að feta í fótspor Simmons í baráttunni hér á landi. Við höfum verið að breiða út fagnaðarerindið frá því á níunda áratug síðustu aldar og það með nokkuð markvísum og beinum hætti í ræðu og riti síðasta rúma áratuginn. Fólk á skilið að fá að kynnast bestu skemmtun jarðar, meira að segja leiðinlegt fólk... svona næstum því.

Stundum berast okkur skilaboð og skeyti frá fólki sem kennir okkur um endurnýjaðan eða nýupptekinn áhuga sinn á NBA deildinni (eða körfubolta yfir höfuð) og þá brosum við eins og hýenur á Holtinu. Og svo rennur eitt lítið tár niður aðra hvora kinnina. Við erum ekki flóknari lífverur en þetta. Við fengum svona skilaboð í dag og það verður aldrei þreytt. Það skiptir máli.



Þúsund sinnum hefur staðið til að breyta NBA Ísland. Spæsa síðuna upp, færa hana í nýjan búning, kommersjalísera hana, breyta henni, en aldrei hefur orðið neitt úr því. Það kemur til af tveimur ástæðum:

1.) - Við trúum ekki á það að breyta einhverju ef það virkar (sæmilega, á sinn hátt).

2.) - Við rekum síðuna eins og við treystum okkur að reka hana, án mikilla afskipta eða aðstoðar annara, af því þá getum við verið örugg um að hún gangi og virki. Við erum hvorki markaðsfræðingar né forritarar - við skrifum um körfubolta.

NBA Ísland hefur sumsé verið dálítið eins og Andre Miller í gegn um tíðina. Ekkert flott, ekkert flashy, en hún hefur alltaf rúllað áfram, þó hægt hafi farið.

Þetta þýðir þó ekki að við séum ekki opin fyrir því að reyna nýja hluti. Ef þú eða þið vitið um fólk sem langar að hjálpa til, sponsa síðuna, gefa henni andlitslyftingu, hýsa hana, hanna hana, skrifa á hana eða kaupa hana, þá erum við alveg tilbúin að hlusta. 

Þetta vita allir sem lesa NBA Ísland að staðaldri, en við höfum engar áhyggjur af því að eitthvað svona komi upp á, af því við höfum sterkan grun um að það sé sennilega einmitt svona sem fólk vill hafa Íslandið sitt. Einfalt, asnalegt, íhaldssamt, einlægt, ókeypis og annað slagið fyndið eða fræðandi.

Ef ekki, er símanúmerið okkar nbaisland@gmail.com

Afsakið þennan stórundarlega pistil sem rann allt í einu fram af lyklaborðinu og gleðilega NBA hátíð 2016-17, kæru lesendur. Takk fyrir lesturinn á síðunni og hlustunina á hlaðvarpið. Það eruð þið sem haldið þessu uppátæki gangandi.

Ritstjórnin

Thursday, February 25, 2016

Frá ritstjórn


Þið vitið að okkur hérna á ritstjórn NBA Ísland þykir ákaflega vænt um traustan lesendahópinn okkar, sem að hluta til hefur verið með okkur frá byrjun. Þannig reynum við að koma til móts við lesendur eins og við getum þegar það á við.

Oft vantar fólk upplýsingar um hitt eða þetta (t.d. leikjadagskrá), stundum vantar það ráðleggingar um eitt eða annað (t.d. ferðir á leiki) og stundum hefur það samband til að segja okkur að það hafi gaman af að lesa NBA Ísland. 

Þetta síðastnefnda verður aldrei þreytt.

Fyrir þá sem vilja fá sem mest út úr því að nota NBA Ísland (til viðbótar við lesturinn) hlusta auðvitað á hlaðvarpið, læka NBA Ísland á Facebook og fylgja okkur eftir á Twitter. Það er til dæmis þægilegt að vera með læk á Íslandið á Facebook, því við setjum nýjar greinar oft beint þar inn eftir að þær fæðast og margir lesa pistlana eftir að við birtum tengla á þá á Facebook.

Twitter er óhemju gagnlegt og skemmtilegt verkfæri. Við notum Twitter líka til að miðla efninu okkar, en megnið af tímanum hjá okkur í því apparati fer í að vera með fíflagang á leikskólastigi, hvort sem hann tengist körfubolta eður ei. 

Við hvetjum fólk eindregið til að bæta NBA Ísland í félagsmiðlaflóruna sína. Það borgar sig.

Það er til dæmis ógeðslega hallærislegt að síðan skuli vera föst í 980 lækum á Facebook. Þetta á að fara yfir þúsund og það strax.

Sömu sögu er að segja af Twitternum, þar sem við erum með 1890 fylgjendur í stað 2000+, sem er algjört lágmark ef við eigum að vera að þessu yfir höfuð. Verið endilega dugleg að læka og fylgja og fáið vini ykkar og fjölskyldu til að taka þátt líka.

Einhverra hluta vegna virðist ákveðinn hluti lesenda okkar einfaldlega ekki hafa andlega burði til að átta sig á því að það er hægt að sjá það á ákveðinni síðu á NBA Ísland hvaða leikir verða í beinum útsendingum bæði á Stöð 2 Sport og NBATV. Kannski er það af því það stendur ekki ritað "Dagskrá/Leikir í beinni" með nógu stórum og skýrum stöfum á tveimur stöðum á síðunni. Hvur veit.

Þeir sem kynnu að hafa áhuga á að auglýsa eitthvað á síðunni geta haft samband á nbaisland@gmail.com, en við þurfum ef til vill að fara að hressa aðeins upp á þann hluta hjá okkur. Í framhaldi af því þyrftum við svo dæmis að reyna að keyra NBA Ísland punktur is aftur í gang.

Að lokum viljum við fara þess auðmjúklega á leit við lesendur síðunnar að þeir aðstoði okkur við að reka hana með fjárframlögum, en það er hægt að gera í gegn um paypal-þjónustuna með því að smella á gula hnappinn "Þitt framlag" til hægri á síðunni eða smella hér

Það er dýrt að endurnýja tölvukostinn, myndavélaflotann og byggja upp hljóðver fyrir hlaðvarpsupptökur og því þætti okkur vænt um ef þið gætuð veitt okkur lið í þeim efnum, það þurfa alls ekki að vera stórar upphæðir ef þeir sem eru aflögufærir taka þátt. Allt efnið á NBA Ísland er frítt og verður það áfram, en þeir sem vilja koma þakklæti sínu á framfæri geta notað tækifærið og gert það núna. Hver veit, kannski verða þeir gjafmildustu verðlaunaðir með NBA Ísland bol...



Ykkur er að sjálfssögðu alltaf frjálst að hafa samband við ritstjórnina á nbaisland@gmail.com ef þið hafið einhverjar spurningar eða athugasemdir um eitthvað tengt Íslandinu ykkar. Það er mjög gefandi að fá bréf frá lesendum og heyra hvernig efnið leggst í þá, því stór partur af öllu þessu umstangi er jú alltaf tileinkaður ykkur - lesendunum okkar.

Viðingarfyllst,
Ritstjórn NBA Ísland

Friday, May 8, 2015

Verum í sambandi, verum tengd


Stundum gleymum við því að 99,99999% íslensku þjóðarinnar veit ekki að NBA Ísland sé til, svo það er enn fullt að körfuboltalega þenkjandi fólki þarna úti sem er að missa af ekki bara skrifum hér á síðunni, heldur líka hlutum eins og hlaðvarpinu og einföldum hlutum eins og dagskránni á NBATV og Stöð 2 Sport, sem við höfum gert okkar besta til að hafa klára hér á síðunni.

Því þótti okkur kjörið tækifæri núna að benda áhugasömum á það að NBA Ísland er til dæmis bæði á Facebook og Twitter. Það þýðir að þeir sem læka NBA Ísland á Facebook og elta NBA Ísland á Twitter verða því oftast varir við það undir eins og eitthvað er í gangi á síðunni, því ritstjórn hennar linkar gjarnan á nýtt efni þegar það dettur inn á síðuna.

Eins og flest ykkar vita, hefur NBA Ísland verið til í núverandi mynd í meira en fimm ár, en samt er lygilega mikið af fólki þarna úti - og meira að segja fólki sem les NBA Ísland reglulega - sem hefur ekki hugmynd um að síðan bjóði bæði upp á hlaðvarp og dagskrársíðu. Það væri því bráðsniðugt ef þið sem vitið af þessu getið látið félaga ykkar vita af þessu, t.d. með Facebook-læki eða einhverju slíku.

Ástæðan fyrir því að við erum að þessu tuði er að það er alveg sama hvað við plöggum hluti eins og beinar útsendingar í drasl - við fáum alltaf 6000 spurningar í tölvupósti og á Twitter um hvaða leikir séu í beinni og hvenær og bla bla bla....

Verum tengd, gott fólk. Verum upplýst.

Ritstjórnin.

Monday, October 27, 2014

Íslandið í Garðinum


Okkur þykir alltaf jafn vænt um það þegar menn taka sig til og representera NBA Ísland þegar þeir fara á leiki í NBA deildinni. Nýjasta dæmið um þetta gefur að líta hérna fyrir neðan, en það eru myndir frá pílagrímsför KR-ingsins Þorsteins Jónssonar í Madison Square Garden á dögunum.

Steini skellti sér á leik New York Knicks og Toronto Raptors og tók bolinn alla leið með því að fá sér frauðfingur og tilheyrandi. Rúsínan í pylsuendanum er samt að sjálfssögðu bolurinn, en þær eru að verða ansi margar hallirnar í NBA sem heimsóttar hafa verið af Íslendingum í NBA Ísland bolum.

Eins og nærri má geta skemmti Þorsteinn sér konunglega í Garðinum á dögunum, en í samtali við ritstjórnina sagði hann að það sem hefði komið sér mest á óvart væri hvað Amare Stoudemire gæti enn hoppað hátt. Þið sjáið hann einmitt svífa um loftin blá á einni myndinni hérna fyrir neðan.

Við þökkum Þorsteini fyrir þetta skemmtilega innlegg og hvetjum alla sem vilja representera Íslandið sitt til að senda okkur myndir frá ferðalögum sínum ytra. Það eru meira að segja enn til örfáir bolir á lagernum ef einhver hefur áhuga á að fá sér svoleiðis og taka þetta alla leið. Þið getið sent línu á nbaisland@gmail.com til að kanna málið.



Wednesday, May 7, 2014

Sportþátturinn á Suðurland FM


Baldur Beck fór í smá spjall hjá Gesti frá Hæli í Sportþættinum á Suðurland fm í kvöld. Umræðuefnið var merkilegt nokk úrslitakeppni NBA deildarinnar og nýkjörinn Verðmætasti leikmaður ársins í NBA - Kevin Durant.

Friday, January 17, 2014

Fulltrúi NBA Ísland á Úlfavaktinni í Heiðurshöllina


Lesendur NBA Ísland eru alltaf á ferð og flugi og það er dásamlegt hvað þeir eru duglegir við að fara á NBA leiki sem fulltrúar NBA Ísland klæddir í bolinn góða.

Nýjasta myndin frá þessu tilefni er sannarlega með þeim dýrari sem borist hafa, en þar fer enginn annar en séra Guðni Már Harðarson úr Lindasókn í Kópavogi. Séra Guðni er mikill áhugamaður um íþróttir og er einn harðasti stuðningsmaður Minnesota Úlfanna hér á landi.

Guðni var svo heppinn að fá að stunda nám í Minnesota og gat því laumað sér á leiki með Úlfunum af og til. Úlfavaktin góða er orðin alþekkt fyrirbæri hjá NBA-hneigðum Twitternotendum sem eiga það til að vaka fram eftir nóttu.

Ritstjórn NBA Ísland er óhemju montin af því að geta kallað séra Guðna fýsískan fulltrúa síðunnar á Úlfavaktinni.

Við ætlum því að nota þetta tækifæri til að tilkynna ykkur að séra Guðni Már hefur hér með verið innvígður í Heiðurshöll NBA Ísland fyrir að standa Úlfavaktina af drengskap fyrir hönd síðunnar og hreinlega fyrir að vera toppmaður í alla staði. Hann lengi lifi - húrra, húrra, húrra!

Friday, January 3, 2014

Gleðilegt ár krakkar


NBA Ísland óskar lesendum gleðilegs árs og þakkar fyrir lesturinn
og stuðninginn á árinu 2013. Þið eruð sannkallað úrvalsfólk.


Wednesday, October 30, 2013

Þetta er byrjað


 Deildakeppnin í NBA deildinnin hófst í nótt með þremur leikjum eins og þið hafið væntanlega tekið eftir.

Fulltrúi NBA Ísland, persónulegi trúbadorinn Björgvin Ingi, skellti sér á grannaslaginn í Los Angeles eins og þið sjáið á myndinni hér til hliðar.

Alltaf frábært að hafa fulltrúa á svæðinu.

Það er búið að vera snælduviltlaust að gera hjá ritstjórninni í hliðarverkefnum og því höfum við ekki hitað upp fyrir leiktíðina með hefðbundnum hætti, en þó er von á efni í þá áttina mjög fljótlega.

Gleðilega hátíð og góða skemmtun elskurnar.