Showing posts with label Stjarnan. Show all posts
Showing posts with label Stjarnan. Show all posts
Tuesday, April 12, 2016
Nýtt hlaðvarp
Gestur Baldurs Beck í 60. þætti Hlaðvarps NBA Ísland er Hrafn Kristjánsson þjálfari Stjörnunnar. Farið er yfir veturinn hjá Stjörnunni, nýja samninginn hans Hrafns við félagið, úrslitakeppnina, kynslóðaskiptin sem eru að verða í Garðabænum, taktík liðsins í vörn og sókn og leikmannamál félagsins í framtíðinni.
Hrafn spáir í spilin fyrir undanúrslitarimmurnar hjá Tindastól-Haukum og KR-Njarðvík og í lokin rabba þeir aðeins um liðið hans Hrafns í NBA deildinni (Lakers) og auðvitað ofurlið Golden State og Stephen Curry.
Þið getið hlustað á þáttinn í spilaranum hér fyrir neðan eða farið inn á hlaðvarpssíðuna og sótt hann þar á mp3 formi til að setja hann inn á spilarann ykkar. Njótið vel, kæru lesendur/hlustendur.
Efnisflokkar:
Hlaðvarpið
,
Hrafn Kristjánsson
,
Stjarnan
,
Úrslitakeppni 2016
Friday, April 1, 2016
Njarðvík áfram
Njarðvík er komið í undanúrslitin í Flatbökudeild karla eftir 79-75 útisigur á Stjörnunni í Ásgarði í gærkvöldi. Þessi sería er búin að vera myljandi jöfn og skemmtileg og við munum í fljótu bragði ekki eftir seríu þar sem allir leikir unnust á útivelli.
Kannski erum við að verða viðkvæmari með aldrinum, en við finnum alltaf meira og meira til með liðunum sem falla út úr úrslitakeppninni eftir hetjulega baráttu í hnífjöfnum rimmum líkt og Stjarnan var að gera í gærkvöldi.
Það er reyndar meira í þessu. Við erum eflaust að taka tap Garðbæinganna svona inn á okkur af því okkur er farið að þykja svo vænt um höfðingjana í liðinu - bæði leikmenn og þjálfara. Hrafn þjálfari lýsti því yfir í samtali við Vísi að hann hefði áhuga á að halda áfram með liðið og við vonum innilega að hann fái tækifæri til þess.
Hrafn er góður þjálfari og heiðursmaður sem nýtur vináttu og virðingar ritstjórnar NBA Ísland - alveg eins og forveri hans Teitur Örlygsson og raunar báðir þjálfarar Njarðvíkurliðsins. Það er svo auðvelt að halda upp á lið sem eru þjálfuð af svona toppmönnum.
Á svona tímamótum er ekki laust við að við veltum því fyrir okkur hvort meistarar eins og Justin Shouse og Marvin Valdimarsson séu jafnvel farir að hugsa um að minnka eitthvað við sig þegar kemur að því að spila körfubolta. Við vonum að sjálfssögðu ekki, en hver veit.
Það sem við vitum hinsvegar, er að þeir Tómas Hilmarsson og Sæmundur Valdimarsson ætla að vera duglegir að lyfta og æfa sig í sumar og koma geggjaðir til leiks næsta haust (ef þeir stinga ekki af úr landi, það er að segja). Það er búið að vera gaman að sjá þá fá aukið hlutverk hjá liði Stjörnunnar í vetur. Þetta eru að verða fullorðnir menn.
Við óskum Njarðvíkingum til hamingju með að vera komnir í aðra umferðina eftir alla þessa sigra á útivelli. Það er búið að vera óskaplega mikið basl á þeim grænu í allan vetur, aðallega út af meiðslum, og enn sér ekki fyrir endann á því náttúrulega.
Nú er bara að sjá hvernig Njarðvíkingum vegnar á móti Íslandsmeisturunum. Við þurfum ekki að hafa mörg orð um það risaverkefni sem það er að mæta KR og Njarðvíkingar gera sér fulla grein fyrir því, en þeir ættu alveg að geta strítt Vesturbæingunum aðeins. Það eru bæði reyndir og góðir spilarar í þessu Njarðvíkurliði og þjálfarateymið er sannarlega ekki að byrja í þessu.
Við tókum eftir því að Stefán var gestur í Körfuboltakvöldi í gær og þó við hefðum misst af viðtalinu, verandi á vellinum, sögðu strákarnir í Körfuboltakvöldi okkur að Stefán hefði verið í ótrúlega góðum anda þrátt fyrir þessa grængolandi holskeflu mótlætis sem hann hefur orðið fyrir á liðnu ári.
Eitt sem við verðum að geta sérstaklega er mætingin og stemningin sem var í Ásgarði í gær, en bæði var til algjörrar fyrirmyndar. Við eigum ekki aðeins eftir að sakna Stjörnuliðsins í næstu umferð, heldur einnig Silfurskeiðarinnar, stuðningsmannasveitar Garðbæinga, sem er búin að standa sig frábærlega í úrslitakeppninni með skemmtilegum söngvum og tralli. Prik handa þeim.
Nú fáum við sem sagt KR-Njarðvík og Haukar-Tindastóll í semífænalnum.
Vá, það verður eitthvað, krakkar.
Hérna eru nokkrar myndir úr Ásgarði í gærkvöldi:
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
Njarðvík
,
Stjarnan
,
Úrslitakeppni 2016
Friday, March 11, 2016
Stjarnan hirti annað sætið (myndir)
Það var gaman að horfa á Stjörnuna og Keflavík berjast um annað sætið í Domino´s deild karla í gærkvöldi. Leikurinn var ekki fallegur á að horfa, en gott ef hann var ekki besta mögulega upphitun liðanna fyrir úrslitakeppnina. Slík voru átökin - og það eðlilega - um hvort liðið gæti frestað því lengur að mæta KR í úrslitakeppninni.
Keflavíkurliðið hefur aðeins verið að gefa eftir undanfarið og við vitum að margir kenna Kanamálum liðsins um - að það hefði aldrei átt að skipta um Kana. Við kaupum ekki að það sé öll sagan á bak við vandræði Keflavíkur, en það er auðvitað rosalega þægilegt að benda á þetta. Kenna bara Jerome Hill um þetta allt saman. Við ætlum nú ekki að gera það, en það er ljóst að Kef þarf að rífa sig vel upp fyrir einvígið við Tindastól, annars er ekki langt eftir af leiktíðinni hjá þeim.
Hérna eru annars nokkrar myndir úr Ásgarði í kvöld:
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
Keflavík
,
Stjarnan
Saturday, October 17, 2015
Kalt start hjá KR
Kannski var það rétt sem Fannar Ólafsson sagði í Körfuboltakvöldinu í gær. Kannski mættu fyrrum félagar hans í KR eins og skussar í Garðabæinn í gærkvöldi, þegar þeir töpuðu fyrsta leiknum sínum í deildinni 80-76. Ef til vill er eitthvað örlítið til í þessu.
En ef þið hafið hlustað á eitthvað af viðtölunum við Finn þjálfara að undanförnu, ættuð þið líka að vita að hann er búinn að viðurkenna að liðið hans eigi langt í land. Kannski finnst einhverjum það léleg afsökun að Íslandsmeistararnir mæti ekki klárir til leiks að hausti, en þetta er ekki alveg svona einfalt.
Ástæðan fyrir því að KR er á eftir áætlun er þátttaka leikmanna í EM um daginn og sífelld og þrálát meiðsli lykilmanna. Það gefur augaleið að þú getur ekki æft neitt af viti ef byrjunarliðið þitt er annað hvort ekki á staðnum (og ekki þú heldur reyndar, sem aðstoðarþjálfari landsliðsins) eða að glíma við meiðsli.
En það er óþarfi að vera með einhverjar afsakanir fyrir Íslandsmeistarana. Þeir þurfa ekkert svoleiðis og eru langt frá því að fara í eitthvað hjartastopp þó þeir tapi einum leik, en það er augljóst að þeir eiga eftir að spila sig talsvert betur saman.
Eins innilega og við fögnum endurkomu Ægis Þórs Steinarssonar* til landsins, hefði pilturinn auðvitað mátt fara í eitthvað annað lið en KR, bara til að reyna að jafna mótið.
Þið vitið að við höfum óhemju gaman af að horfa á Ægi spila körfubolta og það eina neikvæða við komu hans í íslenska boltann er að hann gæti átt eftir að skemma tölfræðina hans Pavels all verulega, sérstaklega hvað varðar stoðsendingarnar.
Nú er KR liðið náttúrulega að gera tilraunir með að láta Ægi stýra leik liðsins úr hinni hefðbundnu leikstjórnandastöðu, en tefla Pavel fram í stöðu kraftframherja. Ef allt væri eðlilegt, myndi Pavel Ermolinski líklega spila stöðu kraftframherja í deildinni hér heima. Hann er tveir metrar og frákastar eins og andskotinn sjálfur, svo hann er upplagður leikmaður í þá stöðu þó hann finni sig að sjálfssögðu betur í leikstjórnandanum.
Það góða við að spila fjarkann fyrir Pavel er að hann þarf þá síður að elta eldsnögga bakverði út um allan völl í vörninni, en í staðinn þarf hann að leggja meira á sig í teignum, þar sem olnbogar fljúga og kraftar og kíló ráða miklu.

Þetta er allt á frumstigi ennþá hjá KR. Það á alveg eftir að koma í ljós hvernig þetta þróast hjá liðinu, hvort því hentar betur að láta Ægi eða Pavel stýra leiknum og fleira í þeim dúr. Finnur þjálfari benti okkur réttilega á það að svona hlutir leystust venjulega þegar tímabilið fer á fullt og það á eftir að rætast. Það er óþarfi að hafa áhyggjur af KR.
Annars ætlar Finnur víst að breyta eitthvað um leikaðferð í vetur og hefur í hyggju að nýta hina miklu breidd sem er í KR liðinu til hins ítrasta. Þá með því að spila stífan varnarleik og keyra á andstæðingana við hvert mögulegt tækifæri.
Það má vel vera að einhver af liðunum í deildinni geti haldið í við byrjunarlið Vesturbæinga, en ef allt er eðlilegt, ætti heldur að draga í sundur þegar sterkur bekkur KR mætir þunnum bekkjum flestra mótherjanna.
Hvað frammistöðu einstaka leikmanna varðar, er ekki hægt annað en að gretta sig örlítið þegar kemur að frumraun Ægis Þórs með KR í deildinni. Blessaður pilturinn hitti nákvæmlega ekkert í þessum leik (2 af 12 í skotum), en hann á eftir að hrista þessa frammistöðu af sér og gera betur í næstu leikjum, það er engin spurning.

Kunnugir segja okkur að Michael Craion hjá KR sé í lélegu formi, sem sé fastur liður hjá þeim sterka leikmanni á haustin. Við fullyrðum ekkert um það, en við höfum oft séð Craion spila betur en hann gerði í gær. Hann átti erfitt uppdráttar gegn Alonzo Coleman í teignum og klikkaði á nokkrum kanínum.
Það vakti hinsvegar athygli okkar að Craion var mjög viljugur að spila félaga sína uppi og það finnst okkur mjög rómantískt þó hann hafi stundum ákveðið að kasta boltanum út fyrir línu í stað þess að fara upp sjálfur í teignum. Miðherjinn knái skilaði nú samt 16 stigum, 8 fráköstum, 4 stoðsendingum, 5 stolnum boltum og tveimur vörðum skotum. Og við skömmum hann fyrir það. Eðlilegt.
Hann Pavel vinur okkar olli engum vonbrigðum frekar en fyrri daginn og skilaði 15/13/7/3 leik úr framherjastöðunni. Það er svo mikill lúxus að vera með svona boltalipran fjarka að það ætti að vera bannað. Sjáið til dæmis menn eins og Draymond Green hjá Golden State, sem á það oft til að fara sjálfur upp með boltann í hraðaupphlaup eftir að hafa hirt varnarfrákast. Svona menn er dásamlegt að hafa.
Talandi um dásamlega menn. Justin Shouse segir að félagar hans í Stjörnuliðinu séu farnir að kalla hann Rauðvínið og vísa þar með í að hann verði bara betri með aldrinum. Kannski er sitt hvað til í þessu, því sá gamli bar enga virðingu fyrir KR-liðinu frekar hann er vanur og sýndi að það er nóg eftir í pokanum hjá honum. Bauð upp á 23 stig, 5 fráköst, 7 stoðsendingar og reyndar 7 tapaða bolta. Þvílík gersemi sem þessi drengur er.

Tómas Þórður Hilmarsson vakti verðskuldaða athygli fyrir frammistöðu sína með Stjörnunni í gær. Ungi maðurinn skoraði átta stig og hirti fjórtán fráköst, flest allra á vellinum. Það er gaman að sjá svona stráka fá sénsinn og taka honum opnum örmum.
Öllu frægari Tómasinn í liði Stjörnunnar fékk ekki að taka þátt í síðustu mínútum leiksins þegar hann fékk fimmtu villuna sína, sem var í kjánalegri kantinum en skítur skeður eins og þeir segja.
Tómas á eftir að teygja vel á gólfinu í Garðinum í vetur þar sem hann er sífelld og alvarleg skotógn fyrir utan línu. Honum er þó fjandakornið alveg óhætt að taka fleiri en sjö skot í leik eins og hann gerði í gær, því auðvitað setti hann 3 af 4 langskotum sínum niður eins og Curry-inn sem hann er.
Þú manst kannski eftir fáránlegri nýtingunni hans á öllum sviðum á síðustu leiktíð, þegar hann skilaði 50-40-90 tímabili og var raunar nær því að ná 60/50/90 sísoni, sem er algjör þvættingur. Gaurinn bauð upp á 56% skot, 48% í þristum og yfir 91% á línunni. Svona menn fá kauphækkun og fara í Garðabæinn.
Eitt sem vakti alveg sérstaka athygli okkar af því við erum búin að vera að bíða eftir því. Sæmundur Valdimarsson (a.k.a. Lil Marv) virðist nefnilega hafa rifið duglega í lóðin í sumar, því hann er ekki lítill lengur.
Handleggirnir á honum voru eins og pípuhreinsarar í fyrra, en nú ber fyrir byssum og allt annað að sjá drenginn. Hann hirti líka 7 fráköst á aðeins 9 mínútum í gær og nú langar okkur að vita hvort Marvin finnst það bara allt í lagi að litli bróðir hans sé búinn að kjöta sig upp og sé orðinn stærri en hann. Ekki tækjum við svona lagað í mál.
Bandaríkjamaðurinn Coleman hjá Stjörnunni var óhemju lengi í gang í sóknarleiknum, en eins og við sögðum, olli hann landa sínum Craion erfiðleikum beggja vegna á vellinum.
Þarna virðist vera á ferðinni hæfileikaríkur strákur með ljómandi fína hæð, sem auk þess virðist spila fyrir liðið. Hann setti líka stórar körfur á lokasprettinum, svo það getur vel verið að Stjarnan sé þar komin með keeper í kananum stóra.
Domino´s deildin okkar fer ljómandi vel af stað og við erum þegar búin að fá fullt af rafmögnuðum spennuleikjum eins og leik Stjörnunnar og KR í gær. Það er fínt fyrir deildina að KR skuli byrja á að tapa leik, því margir hölluðust að því að þetta mót yrði aðeins formsatriði fyrir Vesturbæinga. Þetta er nú samt sjaldnast þannig eins og þið vitið. Þú þarft að hafa fyrir því að vinna þessa deild.
Að lokum er ekki annað eftir en að senda Jóni Axeli Guðmundssyni hjá Grindavík úthróp fyrir að hjóla í þrefalda tvennu strax í fyrstu umferð, þegar hann bauð upp á 16/10/10 leik í skrautlegum sigri þeirra gulu á FSU í Iðu. Svona eiga menn að stimpla sig inn - svona komast menn í góðu bækurnar á NBA Ísland og á þrennuvegginn á Körfuboltakvöldi Kjartans Atla og félaga.**
Mikið ljómandi er það nú gaman að þetta skuli vera byrjað aftur. Aaaaah!
-----------------------------------------------------------------------------------------------------------
* - Ægir Þór gekk gjarnan undir gælunafninu Geitungurinn á NBA Ísland hér áður og við höfum heyrt það haft eftir bæði í blöðum og í sjónvarpi. Við heyrðum hinsvegar af því að Ægir væri ekki allt of sáttur við gælunafnið sem við fundum handa honum (þó það passi vel, annars væri fólk ekki að nota það) og þess vegna erum við að hugsa um að droppa því í bili.

Við skulum sjá til með Geitunginn. Sjá hvað kappinn segir um þetta sjálfur.
** - Körfuboltakvöldið á Stöð 2 Sport fer óhemju vel af stað að okkar mati. Við erum kannski ekki hlutlaus vegna augljósrar tengingar okkar við stöðina, en það er nóg að skoða ummælin á samfélagsmiðlum til að sjá að körfuboltafjölskyldan jafnt sem óbreyttir eru mjög ánægð með hvernig Kjartan Atli og félagar hafa farið af stað í þessu.
Þið megið ekki gleyma því að það er eitt að vita eitthvað um körfubolta - annað að stýra umræðuþætti um hann í sjónvarpinu í beinni útsendingu. Kjartan Atli er fagmaður og er að leysa þetta verkefni með sóma. Það stefnir í frábæran vetur í körfunni með svona umgjörð. Það verða jólin í allan vetur.
Efnisflokkar:
Ægir Þór Steinarsson
,
Heimabrugg
,
Jón Axel Guðmundsson
,
Justin Shouse
,
Kjartan Atli Kjartansson
,
Körfuboltakvöld
,
KR
,
Lil Marv
,
Pavel Ermolinski
,
Stjarnan
,
Tómas Hilmarsson
,
Tómas Tómasson
Tuesday, February 24, 2015
Nýtt hlaðvarp
Þá er komið að 36. þætti hlaðvarpsins hjá okkur. Fulltrúi NBA Ísland slær á þráðinn til Kjartans Atla Kjartanssonar úr þjálfarateymi Stjörnunnar, sem um helgina tryggði sér bikarmeistaratitilinn í karlaflokki. Kjartan segir frá upplifun sinni, talar um starfið hjá Stjörnunni, gulldrenginn Justin Shouse og margt fleira. Síðari hluti viðtalsins snýr svo að félagaskiptunum í NBA deildinni á dögunum og hvaða lið séu að gera sig líkleg til að vinnna meistaratitil í sumar.
Smelltu hér til að komast á hlaðvarpssíðuna og nálgast þáttinn.
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
Hlaðvarpið
,
Kjartan Atli Kjartansson
,
Stjarnan
Saturday, March 29, 2014
Æsilegar lokasekúndur í KEF (via Leikbrot)
Efnisflokkar:
Á ögurstundu
,
Heimabrugg
,
Keflavík
,
Marvin Valdimarsson
,
Stjarnan
Thursday, February 27, 2014
Þýðingarmikill sigur hjá Stjörnumönnum
Spennan í Domino´s deild karla er að verða óbærileg. Í kvöld fór fram sex stiga leikur í Ásgarði, þar sem heimamenn í Stjörnunni unnu nauman sigur á Snæfelli 93-88 í bráðfjörugum leik.
Sigurinn lyfti Garðbæingum upp fyrir Hólmara á innbyrðisviðureignum, því liðin eru jöfn að stigum í deildinni - Stjarnan í sjöunda sæti en Snæfell í því áttunda. Þetta getur þó átt eftir að breytast fljótlega, því ÍR ingar eru skammt undan og eiga leik inni. ÍR-ingarnir verða þó að komast upp fyrir bæði Stjörnuna og Snæfell, sem bæði hafa betri stöðu í innbyrðisviðureignum í vetur.
Haukarnir gerðu sér lítið fyrir og sóttu sigur í Keflavík í fyrsta skipti í einn og hálfan áratug á bak við þrennu frá Emil okkar Barja. Þeir eru ekkert að grínast þessir Hafnfirðingar og eru sannarlega að setja fjör í þennan lokasprett í deildinni eins og ÍR-ingarnir.
Það virðist vera smá deyfð yfir Keflvíkingum þessa dagana og heimildir okkar herma að andinn sé ekki með besta móti í herbúðum þeirra. Það er samt nægur tími fyrir Keflvíkingana til að snúa bökum saman og koma flottir inn í úrslitakeppnina.
Það er nánast sama hvert er litið, það er ljóst að það verður extra pressa á liðunum með heimavallarréttinn í úrslitakeppninni í vor, af því liðin í neðri sætunum eru mörg hver mjög óárennileg þessa dagana.
Hey, nokkrar myndir úr Ásgarðinum í kvöld =>
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
Snæfell
,
Stjarnan
Monday, February 17, 2014
ÍR-ingar gera sig breiða

ÍR vann enn einn leikinn í kvöld þegar það lagði Stjörnuna 106-99 í einstaklega áhorfendavænum leik í Hellinum.
Í haust voru stuðningsmenn ÍR helst að vona að liðið myndi nú ná að halda sér í deildinni, en nú er annað hljóð komið í mannskapinn.
Heimildir okkar herma að liðið sé búið að vinna 6 af 8 leikjum eftir áramót og þar af er naumt tap fyrir KR þar sem ÍR var vængbrotið án Matthíasar Sigurðarsonar.
Það er alltaf gaman þegar lið sem hafa verið í vandræðum ná að rífa sig upp og komast á beinu brautina og nú er svo komið að Breiðhyltingarnir eru allt í einu komnir upp að hlið Stjörnunnar og Snæfells í 7.-9. sæti deildarinnar.

Stórhöfðinginn Sveinbjörn Claessen skilaði 22/7, Hjalti Friðriksson 20/7/8, Björgvin Ríharðsson 18, Nigel Moore 16/12/9, Matthías Orri 16/7 og svo koma spaðar eins og Ragnar Örn Bragason inn í nokkrar mínútur og henda inn 12 stigum (4/5 í þristum). Það er ekkert að þessu!

Leikmenn og þjálfarar Stjörnunnar voru augljóslega hund-pirraðir eftir tapið í Hellinum í kvöld. Þeir voru aftur komnir með Matthew Hairston inn í liðið eftir leikbann, en varnarleikur liðsins var bara alls ekki nógu góður.
Eins og við komum inn á í upphafi, var leikurinn í kvöld mjög áhorfendavænn, því á löngum köflum var bara allt í - beggja vegna vallarins.
Ætli Teitur og félagar nái ekki að skrúfa sig saman og laga þetta hjá sér. Annað kæmi okkur á óvart. En það er ljóst að nú má ekki misstíga sig neitt. Það er stutt í vorið og baráttan um sæti í úrslitakeppninni verður rosalega hörð.
Efnisflokkar:
Heimabrugg
,
ÍR
,
Stjarnan
Friday, February 14, 2014
Grindavík sótti stigin í Ásgarðinn
Íslandsmeistarar Grindavíkur sóttu Stjörnuna heim í úrvalsdeildinni í gærkvöldi og höfðu nokkuð sannfærandi sigur 94-90. Stjarnan var sem fyrr án Júníors Hairston sem tekur út leikbann og munar um minna. Það var nú samt gaman að horfa á Garðbæingana berjast fyrir sínu svona Kanalausa. Þeir voru alveg í séns, en þetta var bara ekki að detta fyrir þá.
Nú er lið Stjörnunnar annars loksins að skríða saman eftir mikil meiðsli framan af vetri og því forvitnilegt að sjá hvernig það flýtur inn í vorið. Íslandsmeistararnir eru bara að chilla í kring um þriðja sætið og hafa engar stórar áhyggjur af þessu öllu saman. Hérna eru nokkrar myndir
Efnisflokkar:
Grindavík
,
Heimabrugg
,
Stjarnan
Subscribe to:
Posts (Atom)