Showing posts with label JaVale McGee. Show all posts
Showing posts with label JaVale McGee. Show all posts

Wednesday, November 2, 2016

Hver er hræddur við vængbrotna Warriors?






















Bandarískir körfuboltamiðlar hafa eðlilega gert sér mat úr því í dag og í gær hvernig LeBron James og félagar hans í Cleveland gátu ekki setið á sér með að senda mótherjum sínum í lokaúrslitunum í sumar smá pillu þegar þeir héldu upp á hrekkjavökuna.

Liðin hans LeBron James hafa vakið athygli fyrir frumlega og skemmtilega búninga undanfarin ár og 2016 varð engin undantekning í þeim efnum. Auk þess að vera með skemmtilega búninga að þessu sinni, gerðu LeBron og félagar grín að Golden State liðinu í myndmáli sínu og þeirri staðreynd að liðið hefði glutrað niður 3-1 forystu í úrslitaeinvígi liðanna í júní.



 Og auðvitað stukku miðlar eins og First Take á ESPN á þetta og veltu því fyrir sér hvort LeBron James hefði efni á því að vera með svona grín eða ekki. Það er eðlilegt að þættir eins og First Take, með vélbyssukjafta eins og Stephen A. Smith og hinn efnilega Max Kellerman (staðgengil Skip Bayless) taki svona mál fyrir, þetta er það sem svona þættir snúast um.

















Okkur er auðvitað alveg sama hvort LeBron sendir strákunum í Golden State pillur eða ekki, en þetta innslag vakti okkur til ofhugsunar.

Ætli LeBron James sé hræddur við nýjustu útgáfuna af Golden State Warriors?

James glímdi (nánast) einn síns liðs við Warriors í úrslitunum árið 2015, þegar hann hafði hvorki Kevin Love né Kyrie Irving með sér í liði og þurfti að gera þetta allt saman sjálfur. Hann náði einhverra hluta vegna að komast 2-1 yfir í því einvígi, en komst ekki lengra.

Á síðustu leiktíð lenti hann hinsvegar undir 3-1, en þá var hann með fullskipað lið með sér, sem hjálpaði honum að gera út af við þreytulegt Warriors-liðið. Tvær breytur undir lokin á því einvígi eru gjarnan nefndar til sögunnar sem örlagavaldar Warriors; leikbannið hans Draymond Green og meiðslin hans Andrew Bogut.

Warriors-liðið hefur hingað til verið þekktast fyrir hættulegustu útgáfuna af sér sem er Dauðauppstillingin svokallaða, sem er uppstillingin þar sem Draymond Green fer í miðherjastöðuna og þeir spila án þess að vera með eiginlegan stóran mann. Þessi uppstilling (Curry, Thompson, Barnes, Iguodala og Green) var svo svakaleg að hún sprengdi skalann í tölfræði fyrir lengra komna þegar kemur að sóknarhagkvæmni, en þessi leikaðferð er eins og nítró á torfærubíl. Þú getur ekkert notað hana alltaf. Bara í stuttum sprettum og þegar með þarf - annars fer allt í vitleysu.


Golden State hefur sumsé alltaf þurft að hafa Andrew Bogut, þó hann virkaði stundum utangátta og hentaði ekki á gólfinu gegn öllum liðum. Þegar allt er eðlilegt, til dæmis í flestum deildarleikjum í NBA deildinni, er betra að vera með eiginlegan miðherja í byrjunarliðinu. Það er allt í lagi að henda manni eins og Draymond Green í miðherjann annað slagið til að slá mótherjann út af laginu, en það gengur aldrei til lengdar.

Þetta fengu Warriors menn að reyna undir lok lokaúrslitaeinvígisins í sumar þegar Bogut datt út vegna meiðsla. Golden State var jú með Festus Ezeli til að hlaupa í skarðið fyrir Bogut, en hann var hvorki með heilsu til þess, né hefur hann til að bera þá kosti sem gera Bogut sérstakan. Ezeli hefur fátt fram yfir Bogut nema ef til vill að vera sprækari á löppunum, en hafði það ekki einu sinni af því hann var á felgunni vegna meiðsla sem hrjá hann enn í dag (hann er ekki enn byrjaður að spila með Portland eftir að hafa gengið í raðir félagsins í sumar).

Og hvað gerðist hjá Golden State þegar Bogut var farinn, Ezeli (og Curry) á felgunni og áberandi merki um þreytu voru farin að láta á sér kræla?

LeBron James fann lykt af blóði, setti undir sig höfuðið og bókstaflega keyrði yfir Warriors-liðið í síðustu þremur leikjunum. Við þurfum ekki að rifja tölurnar hans í þessum leikjum upp - ef þú ert að lesa þetta, þá veistu hvað þær voru sóðalegar.



 Nú er kominn nóvember 2016, nýtt tímabil og Kevin Durant er kominn til Golden State. Já, þessi langi sem er búinn að vera einn af þremur bestu körfuboltamönnum heims í nokkur ár. Nú er hann kominn í lið Warriors og fyrir vikið er bolurinn búinn að ákveða að það verði stórslys ef liðið endurheimtir ekki titilinn úr höndum fjenda sinna í austri.

En þó að Kevin Durant sé alveg hreint ógeðslega góður í körfubolta, þá er ólíklegt að jafnvel hann nái að fylla upp í skarðið sem þeir Bogut, Ezeli, Marrese Speights og Harrison Barnes skildu eftir sig. Jú, jú, hann getur skorað meira en þeir allir saman í svefni, en hvað um allt hitt sem þeir gerðu fyrir Golden State?

Eins og til dæmis að spilaða rútíneraðan varnar- og sóknarleik sem tók ár að stilla saman og auðvitað það sem er svo mikið í tísku núna - að verja helvítis körfuna fyrir árásum andstæðinganna?

Zaza Pachulia? Anderson Varejao? JaVale McGee?

Þetta er ein af stóru ráðgátum vetrarins. Við vitum hvað gæti gerst ef Golden State nær ekki að stoppa upp í þessu göt, því allur sóknarleikur jarðarinnar nær tæplega að gera það.

Ætli LeBron James sé hræddur við nýjustu útgáfuna af Golden State Warriors, in deed.

Monday, April 29, 2013

JaVale og Bogut skiptast á kveðjum


Fyrst var það JaVale sem bauð Bogut upp á andlitsmeðferð:



En Bogut svaraði fyrir sig í nótt með einni hrikalegri:

Thursday, February 14, 2013

Viðstöðulaus handboltatroðsla frá JaVale


Sagt er að gamli dísellyftarinn Andre Miller hjá Denver sé besti sirkussendingamaður í NBA deildinni og engin ástæða til að mótmæla þeirri kenningu af miklum krafti, hann er klárlega með þeim bestu. Sjáðu bara þetta rugl:



Ekki aðeins er sendingin frábær yfir næstum allan völlinn, heldur er móttakan hjá geimvísindamanninum JaVale McGee af dýrari gerðinni. Við höfum amk aldrei áður séð mann taka viðstöðulausa handboltatroðslu. Þetta er á fárra færi, krakkar, ykkur er óhætt að trúa því. Mögnuð tilþrif.

Talandi um handbolta. Hvaða þvættingur væri það nú að sjá hinn 213 sentimetra háa McGee spila skyttu í handbolta? Spurning um að fá gaurinn í HK þegar hægist á hjá honum í NBA. Ætti að geta skotið yfir íslenska hávörn þegar haft er í huga að hann er með rúmlega 80 sentimetra í stökkkraft og skanka sem ná yfir Fossvoginn.

Monday, January 21, 2013

Kvöld fyrirbæranna



Leikur Denver Nuggets og Oklahoma City í gærkvöld hafði alla burði til að verða einn af leikjum ársins, en því miður var dómaratríóið búið að ákveða það fyrir leik að hleypa þessum frábæru liðum aldrei á flug.

Án gríns, þeir eyðilögðu leikinn.

Við höfum aldrei séð jafn margar sóknarvillur, skrefa- og tvígripsdóma í einum körfuboltaleik. Það var með ólíkindum.

Í þessi fáu skipti sem skemmtikraftarnir inni á vellinum fengu þó að spila, fórum við að hugsa hvað það væri nú gaman að horfa á þessi tvö lið leika listir sínar.

Það eru nefnilega svo margir sérstakir körfuboltamenn í þessum tveimur liðum - fyrirbæri, ef þannig má að orði komast.

Russell Westbrook var klárlega maður leiksins. Westbrook er ofurhetja með tvö sjálf. Hann er annað hvort góði- eða slæmi Russ. Í nótt var hann lengst af góði Russ, með slettum af vonda Russ, sem er eiginlega skemmtilegasti kokteillinn.

Það er eitt heitasta deiluefni NBA deildarinnar hvort Russell Westbrok sé góður, einstakur, leikmaður, eða ólíkindatól sem skemmi fyrir Oklahoma. Fleiri eru á því að hann sé góður leikmaður, en það er ljóst að hann er enn ekki búinn að ná að temja sig og þroskast eins og lög gera ráð fyrir með úrvalsleikmenn. Það kemur og það er miklu auðveldara að temja villtan hest en að berja lata truntu áfram.

Það er skemmst frá því að segja að Oklahoma hefði aldrei átt möguleika gegn Denver í gær ef Westbrook hefði ekki notið við. Ef tölfræðin er skoðuð, er Kevin Durant fyllilega á pari við félaga sinn, en hann gat ekki blautan í gær - tveimur dögum eftir að hafa skorað yfir 50 stig.

Westbrook hélt uppi eins manns sókn á Denver bróðurpartinn af leiknum þrátt fyrir að hafa snúið sig illa á ökkla í fyrri hálfleik. Hann hefur aldrei misst úr leik á ferlinum og ætlaði nú ekki að byrja á því í Denver af öllum stöðum. Lét bara teipa sig upp á nýtt og hélt áfram. Einn af fjömörgum kostum við Westbrook sem enginn talar um, af því það hefur ekki komið til tals.

Það eru ekki margir leikmenn í NBA deildinni sem geta gert það sem Westbrook gerði í gær. Að halda heilu liði á tánum og koma sér á vítalínuna eða skora sókn eftir sókn eftir sókn. Þetta gerir hann með fádæma grimmd, keppnisskapi, klókindum og líkamlegum burðum sem fáir hafa yfir að ráða.

Við verðum líka að gefa Westbrook auka rokkstig fyrir grínið sem hann bauð upp á undir lokin á leik Denver og Oklahoma í nótt, þegar hann eyðilaggði skemmtiatriði í tvígang fyrir lukkudýri Nuggets - bara til að stríða áhorfendum. Hann fékk líka allt húsið upp á móti sér.

Ef Scott Brooks hefði haft vit á því að láta Kendrick Perkins ekki spila í þessum leik, hefði Westbrook meira að segja örugglega átt síðasta orðið.

En það vill svo skemmtilega til að Westbrook var ekki eina fyrirbærið á vellinum í Denver í nótt. Liðsfélagi hans Kevin Durant er sannarlega fyrirbæri líka. Hann er öskufljótur, hittinn og getur sett boltann á gólfið þó hann sé langt yfir tvo metra á hæð og sé með vænghaf upp á 230 sentimetra.

Það segir sína sögu um Durant að hann geti átt ömurlegan leik en samt skorað 37 stig. Það hefur með það að gera að hann hefur öðlast virðingu dómara og er líklega bestur allra leikmanna NBA í að koma sér á vítalínuna.

Ekki búinn að taka nema 42 víti síðustu tveimur leikjum!

Denver er líka með fyrirbæri í sínum röðum. Efstur á blaði þar er auðvitað varamiðherjinn Javale McGee á myndinni hér til hliðar.

Hann er ekki bara sjö fet á hæð, heldur gæti hann málað þakið á Hallgrímskirkju með vænghafinu einu saman.  Bættu svo við það þeirri staðreynd að hann hoppar hærra en flestir og við erum komin með mann sem truflar flugumferð þegar mest lætur.

Eini gallinn við þetta allt saman er að það er alls ekki víst að sé nokkur heima þó ljósin séu kveikt hjá honum og það er einmitt ástæðan fyrir því að hann er ekki einn besti miðherji heimsins.

Annað fyrirbæri í framlínu Denver er svo Dýrmennið Kenneth Faried (sjá efstu mynd). Hann er með einn besta mótorinn í NBA deildinni, sívinnandi og hefur ótrúlegt nef fyrir því að rífa niður öll fráköst sem skoppa af körfunum á báðum endum vallarins.

Varaleikstjórnandinn Andre Miller er svo fyrirbæri út af fyrir sig, en á allt annan hátt en áðurnefndir félagar hans.

Miller er búinn að vera lengi í bransanum og hefur alla tíð þótt frekar svifaseinn leikmaður. Það bætir hann upp með annars vegar klókindum og hinsvegar... þeirri staðreynd að hann er með þyngsta afturenda í sögu leiksins.

Miller getur póstað upp á helming leikmanna í NBA deildinni þrátt fyrir að vera innan við 190 sentimetrar á hæð af því hann er með skut eins og fimm tonna dísellyftari.

Þú stoppar þetta ekkert ef þetta fer af stað á sléttu gólfi.

Þetta voru nokkur orð um fyrirbærin sem við sáum á flugi í Denver í nótt. Það er ekki bara körfubolti sem ber fyrir augu á leikjum í NBA deildinni.

 Við þökkum þeim sem lásu. Góðar stundir.

Monday, May 7, 2012

Saturday, April 9, 2011

JaVale McGee býður upp á andlitsmeðferð


Af hverju ættu stuðningsmenn Boston að sakna Kendrick Perkins þegar þeir hafa Nenad Krstic?