Showing posts with label Tímamótaefni. Show all posts
Showing posts with label Tímamótaefni. Show all posts

Tuesday, July 29, 2014

Það er ekkert grín að sauma Gudmundsson



Þessi krúttlega kerling heitir Donna Millak og hefur verið saumakona hjá Portland Trailblazers í yfir fjörutíu ár. Hún var meira að segja búin að vera hjá félaginu í heil fimm ár þegar það varð meistari með Bill Walton í fararbroddi árið 1977 og hefur síðan upplifað gleði og sorgir bæði í vinnunni og í einkalífinu.

Donna gamla sér meðal annars um að sauma nöfnin aftan á búninga leikmanna og er því stundum með þeim fyrstu til að frétta af því þegar félagið nælir sér í nýja leikmenn. Starf hennar hefur breyst mikið samfara bættri tækni eins og er ekki alveg sama handavinnan og það var. Á áttunda og níunda áratugnum þurftu leikmenn til dæmis sjálfir að mæta til Donnu til að máta búningana sína.

Það er langt síðan leikmenn komu til Donnu til að máta búninga, en eitt og annað stendur upp úr hjá þeirri gömlu á þessum langa ferli. Hún man þannig vel eftir því þegar hún græjaði búninginn fyrir Bill Walton, sem líklega er besti leikmaður í sögu Blazers.

"Hann var sannarlega risavaxinn," sagði Donna, sem stundum þurfti að yfirvinna feimni sína og fara inn í karlaklefann til að láta leikmennina máta búningana sína. Þar sá hún eitt og annað þó hún reyndi að horfa niður á tærnar á sér eins og hún gat.

Uppáhalds leikmaðurinn hennar var Brian Grant sem lék með liðinu frá 1997 til aldamóta. Svo mikið hélt hún upp á Grant að hún saumaði treyjuna hans á sjálfa sig eins og þið sjáið á myndinni hér til hliðar.

Sum nöfn reyndust Donnu erfiðari en önnur þegar kom að því að sauma þau aftan á búningana. Eitt það erfiðasta þurfti hún að sauma haustið 1981 þegar 218 sentimetra hár íslenskur piltur að nafni Pétur Guðmundsson gekk í raðir Blazers.

"Það var rétt svo að nafnið passaði á treyjuna og ég varð að beygja það ansi hressilega svo það kæmist fyrir," sagði Donna. Sumir segja að hún hafi þess vegna verið fegin því að miðherjinn með langa nafnið var ekki nema einn vetur hjá Blazers.

Hér fyrir neðan er mynd af liði Portland veturinn 1981-82. Þetta er ansi reffilegur hópur undir stjórn þjálfarans goðsagnakennda Jack Ramsay sem færði félaginu áðurnefndan meistaratitil árið 1977. Ramsay lést í vor, 89 ára að aldri. Hann er lengst til hægri í fremri röðinni.

Okkar maður Pétur Guðmundsson er svo að sjálfssögðu beint undir körfunni í treyju númer 40 og með mottu að framan og léttan Martin Riggs að aftan.

"Pétur sýndi það að það bjó mikið í honum þegar hann var hjá okkur," sagði Ramsay í samtali við Tímann í Los Angeles á níunda áratugnum. "Hann var með þokkalegt skot og var merkilegt nokk fínasti sendingamaður, en hann átti talsverða vinnu fyrir höndum á öðrum sviðum leiksins."


Tuesday, April 24, 2012

Framvegis verður lítið um körfubolta í Newark


Körfuknattleiksfélagið New Jersey Nets hefur spilað sinn síðasta leik í Newark. Verður framvegis í Brooklyn frá og með næsta tímabili. Alltaf verið að breyta í NBA.

Saga Nets á undanförnum árum hefur ekki verið vörðuð stórsigrum og gleði, en liðið fór þó í lokaúrslitin í tvö ár í röð undir stjórn Jason Kidd (2002-03).

Sé eitthvað fólk í öngum sínum yfir flutningi þessum, hefur ekki heyrst mikið í því.

Þessir 300 manns frá Newark sem bera taugar til liðsins munu þurfa að leggja á sig ansi myndarlegt ferðalag til að fara á Nets leiki framvegis.

Stuðningsmennirnir halda niðri í sér andanum. Afar fátt bendir til þess að Deron Williams muni verða um kyrrt hjá félaginu þegar samningur hans rennur út.

Hann vildi fá Dwight Howard eða viðlíka leikmann með sér til Nets, en nú er útlit fyrir að enginn slíkur glans verði í boði. Hvort sem Jay-Z mætir á leiki eða ekki.

Megum til með að láta þetta stutta myndbrot fljóta með þessari hugleiðingu. Ætla má að þessi gaukur sé einn af 300 harðlínustuðningsmönnum Nets sem munu láta sig hafa þvælinginn til að styðja Nets áfram. En kannski hefur hann bara migið á rafmagnsgirðingu. Hver veit.

Saturday, March 10, 2012

Vel kæst körfuboltaskata


Því miður eru ekki til nein lög í meingölluðu réttarkerfi Bandaríkjanna sem banna leiki eins og viðureign Charlotte Bobcats og New Jersey Nets í kvöld. Hér fyrir neðan má sjá stutta glefsu úr þessum epíska slag.

Saturday, February 25, 2012

Thursday, January 26, 2012

Spurningar um hugarfar


"What was your mindset coming into tonights game?" er óhemju algeng spurning af vörum hliðarlínufréttamanna í sjónvarpsútsendingum frá NBA leikjum.

Pau Gasol var spurður að þessu eftir góðan sigur Lakers á grönnunum í Clippers í nótt.

Oftast afgreiðum við hugleiðingar sem þessar á Twitter, en þessi tiltekna pæling tekur meira pláss en 140 stafi.

Hvað í ósköpunum ætlast þessi sjónvarpsmaður til að fá út úr leikmanninum með svona spurningu? Svona í alvöru.

Lauslega þýtt er spyrillinn að fiska eftir því hvert hugarfar leikmannsins hafi verið áður en hann steig inn á völlinn.

Eru góðar líkur á því að Gasol hefði svarað á þessa leið: "Hugarfarið var hræðilegt. Við vissum að við myndum tapa þessum leik," eða: "Mér fannst það gott, enda hlustuðum við allir á Geirmund Valtýsson áður en við mættum til leiks."

Það er óhjákvæmilegt að detti inn klisjur í íþróttaviðtölum, en sumar spurningar eru bara vanvirðing við viðmælandann og áhorfendur heima í stofu. Hvað varðar þetta meinta viðtal við Pau Gasol í nótt hefði spyrillinn allt eins getað spurt Spánverjann hvað hann ætti margar plötur með Dio eða hvort fílaði tannkrem með lakkrísbragði.

Við verðum að fara að hrista eitthvað upp í þessu. Þetta gengur ekki svona lengur

(Mynd: Jim Gray kemur þessu máli ekkert við, en er bara ógeðslegur og því kjörinn í að undirstrika boðskapinn í pistlinum)

Wednesday, January 25, 2012