Hvergi koma veikleikar körfuboltaliða jafn átakanlega í ljós og í úrslitakeppninni, þegar þjálfarar andstæðinganna reyna að nýta sér hvern einasta millimetra sem þeir hafa á þig. Það sem sagt kemst fljótlega upp um þig ef þú ert ekki alvöru í úrslitakeppninni.
Flest liðanna sem eru nú að bítast í annari umferðinni áttu nokkuð náðug einvígi í þeirri fyrstu, en núna er allt annað uppi á teningnum. Núna snýst allt um
tommurnar sem Al Pacino talaði um forðum.
Og af því þessir veikleikar eru stundum dálítið áberandi hjá liðum þegar komið er fram í fjórða og fimmta leik í einvígi, hættir okkur til að hrökkva í neikvæðnigírinn og fara að velta okkur upp úr því sem upp á vantar hjá liðunum í stað þess að skoða hvað þau gera vel. Við erum svo sem ekki ein um að sjá glasið svona hálftómt - Twitter er t.d. miskunnarlaus vélbyssa sem hlífir engum.
En við skulum hætta að velta okkur upp úr þessu og kíkja aðeins á það hvað er að gerast í rimmunum fjórum sem eru í gangi í úrslitakeppninni, þar sem staðan er svona þegar þetta er skrifað:
Eins og þið munið kannski, var staðan 1-1 á öllum vígstöðvum eftir fyrstu tvo leikina og var það í fyrsta skipti í ansi mörg ár sem sú staða kom upp eftir tvo leiki í 2. umferðinni, sem var nokkuð óvænt. Nú eru hinsvegar búnir fimm leikir í öllum rimmum og þá eru línur oftast farnar að skýrast nokkuð vel.
ATLANTA (3) - WASHINGTON (2)
Atlanta hafði heilladísirnar sannarlega á sínu bandi í nótt þegar það vann nauman
82-81 sigur á Washington á heimavelli sínum í fimmta leik.

Atlanta tapaði boltanum 23 sinnum í leiknum og skaut innan við 23% úr þriggja stiga skotum en vann samt, sem er ekkert annað en heppni í bland við góða baráttu.
Við leyfum okkur að fullyrða að Atlanta muni ekki vinna annan leik það sem eftir er í úrslitakeppninni með svona spilamennsku.
Það sem vakti helst athygli okkar í þessu einvígi var hvað Washington-liðið var fullt af góðum anda nánast allan leikinn.
Það hleypti óneitanlega fjöri í liðið að fá John Wall aftur inn og hann fær mörg rokkstig fyrir að ákveða að spila þrátt fyrir handarmeiðsli.
En Wall gerði meira en að spila, hann stýrði leik Wizards eins og herforingi og það er ekki hægt annað en öfunda Washington af bakvarðaparinu unga - honum og Bradley Beal - sem voru báðir frábærir í þessum leik.
Það sama verður ekki sagt um Nene frænda þinn, sem ákvað að vera Lélegi Nene í nótt og það hjálpaði Washington ekki neitt. Annað sem hjálpar liðinu ekki er að það er að spila á færri mönnum en LA Clippers, sem er ekki til eftirbreytni.

Það var eiginlega alveg magnað við þennan leik að okkur þótti Washington vera með hann í hendi sér nánast allan leikinn og sjálfstraustið geislaði af liðinu - sérstaklega bakvarðaparinu unga.
Paul Pierce hélt að hann hefði tryggt Washington sigur í leiknum með þriggja stiga körfu rétt fyrir leikslok, en eins og flest ykkar sáu, voru það Al Horford og heilladísirnar sem kláruðu leikinn þegar innan við tvær sekúndur voru eftir og Washington búið með leikhléin sín.
Við neyðumst víst til að hrósa Atlanta liðinu fyrir að hafa klárað þennan leik, en við finnum satt best að segja talsvert færri hluti til að hrósa Atlanta fyrir en Washington.
Atlanta vann 60 leiki í vetur og á auðvitað ekki að vera í svona rosalegum vandræðum með lið sem vann ekki nema 46 leiki.
Eini maðurinn sem okkur langar að hrósa hjá Atlanta er Al Horford og það er ekki af því hann skoraði sigurkörfuna eftir sóknarfrákast. Það er meira af því hann skoraði 23 stig, hirti 11 fráköst og varði 5 skot í leiknum og var langbesti maður Atlanta.

Það kom upp úr kafinu eftir leikinn að Mike Budenholzer þjálfari (ársins) Atlanta teiknaði lokaleikkerfið upp fyrir Dennis Schröder, sem er eitthvað sem við bara föttum ekki.
Schröder er vissulega fljótur og góður að komast fram hjá manninum sínum, en þar með er það upptalið. Hann getur ekki skotið til að bjarga lífi sínu og þó hann virðist vera mjög hugrakkur, finnst okkur stórfurðulegt að Jeff Teague hafi ekki verið látinn slútta þessu.
Washington getur huggað sig við að næsti leikur eru á heimavelli, þó það hafi reyndar ekki spilað sérstaklega vel þar í úrslitakeppninni síðustu tvö ár. Það kæmi okkur á óvart ef Wizards næði ekki að klóra þetta í oddaleik.