Showing posts with label Húnavaka. Show all posts
Showing posts with label Húnavaka. Show all posts

Thursday, November 12, 2015

Curry gerði allt vitlaust í Húnaveri


Stephen Curry heldur bara áfram að gera hluti sem enginn getur gert nema hann. Og sumir af þessum hlutum eiga ekki að vera hægt. Drengurinn er svo heitur um þessar mundir. Er á allra vörum. Sá virðist einbeittur og ákveðinn í að fá afhenta styttu í vor. Svona styttu eins og hann fékk síðasta vor.

Hvað um það, hér eru tvær klippur með Stephen Curry að ganga á vatni í auðveldum 100-84 sigri Golden State (9-0) á Memphis (3-6) í nótt. Þett´er svo mikið rugl. Hann hættir ekki.


Saturday, May 16, 2015

Memphis stendur í stað


Við höfum örugglega sagt ykkur þessa sögu tíu sinnum, en það er af því að hún er sönnust allra sagna í NBA deildinni: Memphis vantar skyttur og/eða vængmann sem getur skorað stig hjálparlaust (neyðarkarl). Þetta er búið að vera vandamál Memphis í mörg ár en félagið neitar að leysa það.

Nýjasta ráðstöfun Memphis í þessum efnum var að semja við sextugan Vince Carter og einum óstöðugasta körfuboltamann í heimi, Jeff Green. Og í nótt sáum við niðurstöðurnar: Memphis er komið í sumarfrí eftir 108-95 tap fyrir meistaraefnunum í Golden State.

Við ætlum að reyna að hafa þessa hugleiðingu ekki mjög langa af því við erum orðin dauðþreytt á að berja þennan sama dauða hund með þessum sama ryðgaða felgulykli. Eini munurinn á þessari færslu og þeirri sem við skrifum árlega við þetta sama tilefni, er að núna ætlum við að setja einhverjar kúl töflur eða gröf inn í hana svo hún lúkki betur og líti út fyrir að vera vísindalegur sannleikur.

Fyrstu viðbrögð okkar eftir tap Memphis í nótt voru pirringur.

Af hverju gat Memphis ekki útvegað sér betri skyttur? Af hverju Jeff Green? Af hverju geta Marc Gasol og Zach Randolph ekki druslast til að dómínera undir körfunni? Af hverju fær framsóknar-flokkurinn fleiri en ekkert atkvæði í kosningum? Eru Íslendingar heimskasta þjóð í heimi?

Þið sjáið að þetta eru sömu spurningarnar og venjulega, það er bara önnur dagsetning á þeim. Við vitum alveg svarið við flestum þessum spurningum, en þeim er vitanlega beint inn á skrifstofuna hjá Grizzlies. Það er nefnilega fólkið á kontórnum sem þarf að svara fyrir þetta. Leikmennirnir gera sitt besta, en vita innst inni að þeir hafa ekki það sem til þarf, því miður.

Margir halda upp á Memphis af því það spilar körfubolta af gamla skólanum, grit and grind (ísl. hamagangur og hakk) og er í alla staði lið hins vinnandi verkamanns.

Þetta er allt gott og vel, en það er alveg sama hvað þetta lið reynir oft, það fer ekki alla leið á meðan eru svona stórar eyður í planinu hjá því.

Einn uppáhalds frasinn hans Charles Barkley er að segja að hin og þessi lið í NBA deildinni séu bara "stökkskotalið" sem geti ekki náð alvöru árangri.

Þar á hann við lið sem byggja mikið á lengri skotum en síður á t.d. hnoði í teignum. Þessi skoðun hans hefur vitanlega farið öfugt ofan í hvern einasta mann og konu sem aðhyllist tölfræði fyrir lengra komna.

En það er önnur hlið á málinu, því þó þú verðir ekki meistari með eintómum stökkskotum, verður þú það ekki heldur ef þú getur ekki tekið stökkskot. Fyrir svo utan það að Dallas 2011 og San Antonio 2014 voru skólabókadæmi um stökkskotalið og þeim vegnaði ágætlega eins og þið munið.

Thursday, May 14, 2015

Allt um stöðu mála í úrslitakeppninni


Hvergi koma veikleikar körfuboltaliða jafn átakanlega í ljós og í úrslitakeppninni, þegar þjálfarar andstæðinganna reyna að nýta sér hvern einasta millimetra sem þeir hafa á þig. Það sem sagt kemst fljótlega upp um þig ef þú ert ekki alvöru í úrslitakeppninni.

Flest liðanna sem eru nú að bítast í annari umferðinni áttu nokkuð náðug einvígi í þeirri fyrstu, en núna er allt annað uppi á teningnum. Núna snýst allt um tommurnar sem Al Pacino talaði um forðum.

Og af því þessir veikleikar eru stundum dálítið áberandi hjá liðum þegar komið er fram í fjórða og fimmta leik í einvígi, hættir okkur til að hrökkva í neikvæðnigírinn og fara að velta okkur upp úr því sem upp á vantar hjá liðunum í stað þess að skoða hvað þau gera vel. Við erum svo sem ekki ein um að sjá glasið svona hálftómt - Twitter er t.d. miskunnarlaus vélbyssa sem hlífir engum.

En við skulum hætta að velta okkur upp úr þessu og kíkja aðeins á það hvað er að gerast í rimmunum fjórum sem eru í gangi í úrslitakeppninni, þar sem staðan er svona þegar þetta er skrifað:



Eins og þið munið kannski, var staðan 1-1 á öllum vígstöðvum eftir fyrstu tvo leikina og var það í fyrsta skipti í ansi mörg ár sem sú staða kom upp eftir tvo leiki í 2. umferðinni, sem var nokkuð óvænt. Nú eru hinsvegar búnir fimm leikir í öllum rimmum og þá eru línur oftast farnar að skýrast nokkuð vel.

ATLANTA (3) - WASHINGTON (2)

Atlanta hafði heilladísirnar sannarlega á sínu bandi í nótt þegar það vann nauman 82-81 sigur á Washington á heimavelli sínum í fimmta leik.

Atlanta tapaði boltanum 23 sinnum í leiknum og skaut innan við 23% úr þriggja stiga skotum en vann samt, sem er ekkert annað en heppni í bland við góða baráttu.

Við leyfum okkur að fullyrða að Atlanta muni ekki vinna annan leik það sem eftir er í úrslitakeppninni með svona spilamennsku.

Það sem vakti helst athygli okkar í þessu einvígi var hvað Washington-liðið var fullt af góðum anda nánast allan leikinn.

Það hleypti óneitanlega fjöri í liðið að fá John Wall aftur inn og hann fær mörg rokkstig fyrir að ákveða að spila þrátt fyrir handarmeiðsli.

En Wall gerði meira en að spila, hann stýrði leik Wizards eins og herforingi og það er ekki hægt annað en öfunda Washington af bakvarðaparinu unga - honum og Bradley Beal - sem voru báðir frábærir í þessum leik.

Það sama verður ekki sagt um Nene frænda þinn, sem ákvað að vera Lélegi Nene í nótt og það hjálpaði Washington ekki neitt. Annað sem hjálpar liðinu ekki er að það er að spila á færri mönnum en LA Clippers, sem er ekki til eftirbreytni.

Það var eiginlega alveg magnað við þennan leik að okkur þótti Washington vera með hann í hendi sér nánast allan leikinn og sjálfstraustið geislaði af liðinu - sérstaklega bakvarðaparinu unga.

Paul Pierce hélt að hann hefði tryggt Washington sigur í leiknum með þriggja stiga körfu rétt fyrir leikslok, en eins og flest ykkar sáu, voru það Al Horford og heilladísirnar sem kláruðu leikinn þegar innan við tvær sekúndur voru eftir og Washington búið með leikhléin sín.

Við neyðumst víst til að hrósa Atlanta liðinu fyrir að hafa klárað þennan leik, en við finnum satt best að segja talsvert færri hluti til að hrósa Atlanta fyrir en Washington.

Atlanta vann 60 leiki í vetur og á auðvitað ekki að vera í svona rosalegum vandræðum með lið sem vann ekki nema 46 leiki.

Eini maðurinn sem okkur langar að hrósa hjá Atlanta er Al Horford og það er ekki af því hann skoraði sigurkörfuna eftir sóknarfrákast. Það er meira af því hann skoraði 23 stig, hirti 11 fráköst og varði 5 skot í leiknum og var langbesti maður Atlanta.

Það kom upp úr kafinu eftir leikinn að Mike Budenholzer þjálfari (ársins) Atlanta teiknaði lokaleikkerfið upp fyrir Dennis Schröder, sem er eitthvað sem við bara föttum ekki.

Schröder er vissulega fljótur og góður að komast fram hjá manninum sínum, en þar með er það upptalið. Hann getur ekki skotið til að bjarga lífi sínu og þó hann virðist vera mjög hugrakkur, finnst okkur stórfurðulegt að Jeff Teague hafi ekki verið látinn slútta þessu.

Washington getur huggað sig við að næsti leikur eru á heimavelli, þó það hafi reyndar ekki spilað sérstaklega vel þar í úrslitakeppninni síðustu tvö ár. Það kæmi okkur á óvart ef Wizards næði ekki að klóra þetta í oddaleik.

Sunday, May 10, 2015

Memphis leiðir (myndir)


Það er enginn skandall, en það er engu að síður stórmerkilegt að Memphis sé búið að ná 2-1 forystu í einvíginu við Golden State, eftir 99-89 sigur í þriðja leik liðanna í Húnaveri í nótt.

Við hefðum öll átt að gera okkur grein fyrir því strax að Memphis væri ekki að fara að leggjast á jörðina og láta moka yfir sig steypu. Auðvitað myndu bangsarnir sjá til þess að enginn kæmi ókraminn og klóraður út úr rimmu við þá. Það sá bara enginn fyrir að þeir ættu eftir að leiða í einvíginu, sem átti að klárast í fimm eða sex leikjum. Vissulega getur það enn farið í sex leiki, en Memphis er gjörsamlega búið að taka yfirhöndina í þessu einvígi eftir tap í fyrsta leiknum.

Steve Kerr var pollrólegur eftir leikinn og sagði að strákarnir hans hefðu gott af þessu, þeir þyrftu að læra að mæta svona mótlæti í úrslitakeppninni fyrr eða síðar, því ekki hafa þeir reynsluna. Leikmenn Warriors voru heldur ekkert að hengja haus eftir annað tapið í röð fyrir Griz, en það er ljóst að þeir verða að spila talsvert betur ef á ekki að fara illa fyrir þeim.

Fjórði leikurinn (í Memphis) stillir Golden State nokkurn veginn upp við vegg og það er ljóst að þá kemur ekkert annað en sigur til greina hjá Dubs. Ekki sjáum við þá vinna einvígi þar sem þeir lenda undir 3-1, það yrði nær óvinnandi vegur.

Nú kætast kverúlantar sem kalla Golden State stökkskotalið (hæ, Charles Barkley) og segja að það þýði ekkert að ætlast til að vinna titilinn með liði sem byggir á stökkskotum, þó færa megi rök fyrir því að meistaralið San Antonio (´14) og Dallas (´11) falli í þann flokk.

Það er samt sannleikskorn í þessari flóknu heimsspeki í kring um stökkskotin, sérstaklega þegar þau eru tekin fyrir utan þriggja stiga línuna. Við höfum öll séð það þúsund sinnum áður; leikmaður X eða lið X spilar ljómandi vel allan veturinn og skýtur allt og alla í kaf, en getur svo ekki keypt körfu þegar úrslitakeppnin hefst.

Raunar finnst okkur undarlegt hve lítið er almennt talað um þennan gríðarlega mikilvæga faktór í körfuboltanum - muninn á því að spila deildarleiki og leiki í úrslitakeppninni.

Þetta er ekkert sama mót og þó menn fái stundum að leika lausum hala gegn slakri vörn í deildarkeppninni, er ekkert slíkt uppi á teningnum þegar kemur fram í úrslitakeppni.

Allt verður erfiðara, harðara og hraðara og þá byrja venjulegar og lélegar skyttur að skjóta stutt, bæði af því þær eru uppgefnar á því að spila úrslitakeppnivörn og af því þær eru með óða varnarmenn límda í andlitið á sér hvert sem þær fara.

Það talar enginn um erfitt hlutskipti skyttunnar í úrslitakeppni. Hvernig það er eitt að hitta vel í deildarkeppninni og svo allt annað að gera það í geðveikinni á vorin.

Nákvæmlega þetta er Golden State að díla við núna. Varnarleikur liðsins er með fínasta móti - Kerr var meira að segja nokkuð ánægður með hann - en menn eins og Stephen Curry og Klay Thompson eiga mjög erfitt uppdráttar á sínu uppáhaldssviði í leiknum, langskotunum.

Ástæðan fyrir kuldanum hjá þeim buslbræðrum er óðramannavarnarleikur Memphis, þreyta og spenna, en það er enginn tími fyrir afsakanir. Dubs verða bara að gjöra svo vel og snappa út úr þessu fönki í hvelli eða falla feisdán í flórinn. Það yrði meiri sagan!

Nú er staðan 2-1 á öllum vígstöðvum í úrslitakeppninni, en það áhugaverða við það er að það eru liðin sem eru ekki með heimavallarréttinn sem eru yfir í öllum rimmunum. Það kemur til af meiðslum ýmsum ástæðum, en setur óneitanlega skemmtilegt tvist á þetta.