Showing posts with label Fötin skapa manninn. Show all posts
Showing posts with label Fötin skapa manninn. Show all posts

Tuesday, July 29, 2014

Það er ekkert grín að sauma Gudmundsson



Þessi krúttlega kerling heitir Donna Millak og hefur verið saumakona hjá Portland Trailblazers í yfir fjörutíu ár. Hún var meira að segja búin að vera hjá félaginu í heil fimm ár þegar það varð meistari með Bill Walton í fararbroddi árið 1977 og hefur síðan upplifað gleði og sorgir bæði í vinnunni og í einkalífinu.

Donna gamla sér meðal annars um að sauma nöfnin aftan á búninga leikmanna og er því stundum með þeim fyrstu til að frétta af því þegar félagið nælir sér í nýja leikmenn. Starf hennar hefur breyst mikið samfara bættri tækni eins og er ekki alveg sama handavinnan og það var. Á áttunda og níunda áratugnum þurftu leikmenn til dæmis sjálfir að mæta til Donnu til að máta búningana sína.

Það er langt síðan leikmenn komu til Donnu til að máta búninga, en eitt og annað stendur upp úr hjá þeirri gömlu á þessum langa ferli. Hún man þannig vel eftir því þegar hún græjaði búninginn fyrir Bill Walton, sem líklega er besti leikmaður í sögu Blazers.

"Hann var sannarlega risavaxinn," sagði Donna, sem stundum þurfti að yfirvinna feimni sína og fara inn í karlaklefann til að láta leikmennina máta búningana sína. Þar sá hún eitt og annað þó hún reyndi að horfa niður á tærnar á sér eins og hún gat.

Uppáhalds leikmaðurinn hennar var Brian Grant sem lék með liðinu frá 1997 til aldamóta. Svo mikið hélt hún upp á Grant að hún saumaði treyjuna hans á sjálfa sig eins og þið sjáið á myndinni hér til hliðar.

Sum nöfn reyndust Donnu erfiðari en önnur þegar kom að því að sauma þau aftan á búningana. Eitt það erfiðasta þurfti hún að sauma haustið 1981 þegar 218 sentimetra hár íslenskur piltur að nafni Pétur Guðmundsson gekk í raðir Blazers.

"Það var rétt svo að nafnið passaði á treyjuna og ég varð að beygja það ansi hressilega svo það kæmist fyrir," sagði Donna. Sumir segja að hún hafi þess vegna verið fegin því að miðherjinn með langa nafnið var ekki nema einn vetur hjá Blazers.

Hér fyrir neðan er mynd af liði Portland veturinn 1981-82. Þetta er ansi reffilegur hópur undir stjórn þjálfarans goðsagnakennda Jack Ramsay sem færði félaginu áðurnefndan meistaratitil árið 1977. Ramsay lést í vor, 89 ára að aldri. Hann er lengst til hægri í fremri röðinni.

Okkar maður Pétur Guðmundsson er svo að sjálfssögðu beint undir körfunni í treyju númer 40 og með mottu að framan og léttan Martin Riggs að aftan.

"Pétur sýndi það að það bjó mikið í honum þegar hann var hjá okkur," sagði Ramsay í samtali við Tímann í Los Angeles á níunda áratugnum. "Hann var með þokkalegt skot og var merkilegt nokk fínasti sendingamaður, en hann átti talsverða vinnu fyrir höndum á öðrum sviðum leiksins."


Tuesday, December 3, 2013

Kevins-költið Willis


Moses Malone, Dennis Rodman, Ben Wallace, Kevin Love og Kevin Willis.

Þetta eru mennirnir sem hafa náð að hirða 15 fráköst eða meira að meðaltali í leik í NBA deildinni á síðustu 30 árum. Willis þekkja margir. Hann var upp á sitt besta í upphafi tíunda áratugarins þegar körfuboltatískubólan var sem stærst á Íslandi.































Atlanta-liðið hans átti marga stuðningsmenn hér á landi og á eflaust enn. Eitt af þessum költ liðum á Íslandi ef svo má segja. Spud Webb átti þar hlut í máli, einnig Dominique Wilkins, en Kevin Willis átti líka marga aðdáendur hérlendis. Við munum vel eftir því. Willis var almennt álitinn líkamlega sterkasti leikmaður deildarinnar ásamt Karl Malone. Þetta voru íþróttamenn í lagi.

Hérna er skemmtileg syrpa með tilþrifum frá Kevin Willis, sem lék í 11 ár með skemmtilegu liði Atanta Hawks. Þar spilaði hann meðal annars með Doc Rivers, núverandi þjálfara LA Clippers.



Þeir Kevin Willis og Dominique Wilkins voru líka þekktir fyrir að vera vel til fara.




Thursday, November 28, 2013

Svartir Úlfar


Það eru skiptar skoðanir um aukabúninga Úlfana sem þeir klæddust í nótt. Auðvitað er þetta líkara hand- eða fótboltabúningum en körfuboltabúningum, en það má alveg hafa gaman að þessu. Svartur klikkar aldrei.


Sunday, October 13, 2013

Að púlla pelsinn


Það púlla ekki allir pelsinn, það vitum við öll. Sannarlega er það dálítið frumstætt að ganga um með dautt dýr hangandi utan á sér þegar kólna tekur í veðri. Minnir okkur dálítið á þetta stórepíska atriði:



Nokkrir valinkunnir NBA leikmenn hafa látið sjá sig í pelsum. Okkur datt í hug að sýna ykkur nokkrar myndir því til sönnunar og segja ykkur frá tveimur óþekktarormum sem fóru illa að ráði sínu í pelsadeildinni.

Fyrst skal frægan telja - það er Clyde karlinn Frazier - einn svalasti íþróttamaður sögunnar. Auðvitað púllaði Clyde pelsinn, enda á hann nóg af þeim. Hér fyrir ofan gefur að líta töff mynd af kappanum frá árinu 1974 þar sem hann stendur á tröppunum við Plaza hótelið á Manhattan. Sjóðandi svægi.

Hér má líka sjá Artis Gilmore






















Reggie Theus

















Kobe Bryant






















Té-Mák






















Og Iverson












Svo var ekki úr vegi að setja vinina Isiah Thomas og Magic Johnson inn saman. Miklir pelsamenn greinilega. Ætli megi ekki segja að Magic sé svar NBA deildarinnar við Arnari Gunnlaugs og Sol Campbell.
































 Shaquille O´Neal á að sjálfssögðu pels og svo skemmtilega vill til að tveir af liðsfélögum hans létu taka mynd af sér í flíkinni af tröllinu. Þetta eru þeir Steve Nash (Suns) og Nate Robinson (Celtics). Það hafa ekki farið nema svona fjórtán refabú í þetta mannvirki sem pelsinn hans er.





























Nú fara leikar að æsast og röðin komin að Gilbert Arenas. Hann lék í auglýsingu fyrir dýraverndunarsamtökin PETA* og sagðist frekar kjósa að vera blekaður en pelsaður.

Skömmu síðar létu þáverandi liðsfélagar hans Nick Young og Dominic McGuire hinsvegar bösta sig illilega. Þeir bjuggu þá í húsinu hans Arenas og sagði hann þeim að þeir mættu klæða sig í hvaða föt sem þeir finndu í kofanum.

Auðvitað fundu þeir tvo pelsa inni í skáp og létu taka myndir af sér sem fóru beint á netið. Vakti þetta litla hrifningu hjá PETA-mönnum, sem sáu strax að þar var eitthvað loðið á ferðinni (no pun intended). Sannkallaðir kjarneðlisfræðingar hér á ferð.

















Síðasti snillingurinn á þessum lista notaðist ekki við neina milliliði þegar hann sendi PETA fingurinn. Þetta er auðvitað meistari Dennis Rodman. Margir muna eftir auglýsingunum þar sem hann píndi sig í að koma nakinn fram og sagðist heldur kjósa blek en pels.

Eitthvað hefur fulltrúi PETA sem samd við Rodman verið vitgrannur. Ef bókað er að einhver NBA leikmaður eigi pels, er það Rodman. Auðvitað var þess ekki langt að bíða að kappinn færi út á lífið með dautt dýr um hálsinn. Þó það nú væri!




















* - PETA eru mjög umdeild samtök sem hafa komist í fréttirnar fyrir fantaskap og fjármálaóreiðu. NBA Ísland er mjög annt um dýravernd en við ráðleggjum fólki sem vill láta gott af sér leiða á þeim vettvangi að leita annað en til PETA.

Wednesday, October 9, 2013

Skuðaskjóðurnar í Staples-höllinni


Stuðningsmenn Los Angeles Lakers eru misjafnir eins og þeir eru margir. Kvikmyndastjörnur og frægt fólk úr tónlistar- og skemmtanageiranum eru fastagestir í Staples-höllinni. Nú reynum við að forðast að tala illa um náungann, en það er erfitt að þegja þegar ákveðin tegund Lakers-manna er annars vegar. Þetta eru skuðaskjóðurnar (ísl. douchebags).

Sjáið til dæmis þennan hérna.



Fyrirgefðu bleiknefji, en þú ert sem sagt í alvöru að bjóða upp á keppnistreyju, byssur og risavaxið gullúr. Það er bara eitthvað svo rangt við þetta, en skuðaskjóðu þessari er alveg sama.
Lakers-skjóðurnar eru líklega þær öflugustu í deildinni.

Hver man ekki eftir þessum stórmeisturum og snillingum hérna fyrir neðan (sem kórónuðu þetta með því að vera báðir í Dwight Howard-treyjum, úff). Svona taktar eru á fárra færi.


Tuesday, October 1, 2013

Meira af Clippers-dressinu


Þetta er annað hvort kúl eða viðbjóður. Enginn millivegur.
Við getum ekki valið. Lækaðu þetta ef þú fílar sparibúninginn hjá Clippers í vetur.

-P.s. Tékkaðu líka á nýju andlitunum hjá Clippers eins og Amundson, Collison, Dudley, Jamison, Mullens og Redick. Þetta lið á eftir að vinna ansi marga leiki í deildakeppninni, það er öruggt.

























Friday, June 14, 2013

Tískuhornið: LeBron James í leik fjögur

























Fötin skapa manninn segja þeir. Kannski er eitthvað til í því. LeBron James hristi aðeins upp í tískumógúlum í gær og mætti hrikalegur í kamó í fjórða leikinn í San Antonio. Nú er meira en líklegt að það hafi verið tískuráðunautur hans sem klæddi hann í þennan galla, en hann er samt skömminni skárri en viðbjóðurinn sem Dwyane Wade er búinn að vera að bjóða upp á að undanförnu.

Fötin hans Wade hafa verið svo slæm að það eru góðar líkur á að sé bein tenging milli larfanna utan á honum og lélegrar spilamennsku hans. Það er alltaf svo skrítið að sjá milljarðamæringa klæða sig eins og vitleysinga. Wade hefur oftar en einu sinni klætt sig eins og hann hafi vaknað allsber á lóðinni hjá Hrafni Gunnlaugssyni eftir gott partý og hlaupið upp í Verðlista á Laugalæknum til að klæða sig.

Það er rokk í þessum galla hans LeBron James. Meira af þessu. Þeir halda þá kannski áfram að spila eins og menn.

Monday, April 22, 2013

Fatastríðið er hafið


Ofurstjörnurnar í NBA deildinni í dag kljást ekki aðeins inni á vellinum. Síðustu tvö ár eða svo, hafa nokkrir af mest áberandi leikmönnum deildarinnar einnig háð blóðuga baráttu utan vallar, sem er tískustríðið.

Þú ert ekki maður með mönnum (sem NBA stjarna) nema vera með stílista og ganga í nýjustu tísku - og hún þarf greinilega að vera mjög ögrandi. Þeir sem ríða hvað harðast fram á þessu sviði eru einmitt tveir bestu leikmennirnir í tveimur bestu liðum heimsins í dag.

LeBron James og Dwyane Wade hjá Miami og Russell Westbrook og Kevin Durant hjá Oklahoma.

Fjórmenningar þessir fóru hamförum í fatakaupum í úrslitakeppninni í fyrra og ef marka má byrjunina hjá þeim í ár, fáum við að sjá eitthvað rosalegt frá þeim þetta vorið.

Þú þarft að vera með sjálfstraustið í botni til að ganga í fötum sem líta út fyrir að hafa verið valin á þig af Órangútan á sýrutrippi, en við fáum ekki betur séð en að þannig hafi það verið hjá James.

Og Westbrook? Hann virðist hafa ætlað að fanga sinn innri Prins, ef svo má segja. Verðum að gefa Kevin Durant það að hann mætti bara í "venjulega ljótum fötum."







Wednesday, September 26, 2012

NBA ætlar viljandi að rifja upp verstu tísku allra tíma


Flestum þykja þeir straumar og stefnur sem ríktu í klæðaburði og tísku á sjöunda og áttunda áratug síðustu aldar nokkuð svalir. Níundi áratugurinn var úthrópaður fyrir hallærislegheit, þó sú neikvæðni hafi reyndar minnkað mikkið með tímanum. Í dag þykir krúttlegt og retro að halda 80´s gleðskap.

Það sem er minna rætt um, er að tíundi áratugurinn var svo miklu miklu verri - raunar algjört einsdæmi og ekkert minna en svartur blettur á mannkynssögunni.

Hvorki fyrr né síðar höfum við séð annan eins hrylling og fatatískuna sem gekk yfir okkur á uppafsárum tíunda áratugarins. Þá var sem sýrutrippandi hippar sjötta og áttunda áratugarins hafi farið í partí með kókaínsniffandi geðsjúklingum níunda áratugarins og ákveðið að hanna nýja fatalínu í eftirpartíinu þegar allir voru gjörsamlega hellaðir á því.

Útkoman er eitthvað það skelfilegasta sem sést hefur og í vetur hafa nokkur af liðunum í NBA ákveðið að rífa upp þessi sár og láta blæða úr þeim á ný. Þetta er aðeins til marks um það hvað fólk í dag er orðið hugmyndasnautt. Það gerir það enginn af gamni sínu að klæðast svona hroðbjóði á ný.

Það er einfaldlega ekki nógu langt liðið frá tíunda áratugnum svo tímabært sé að menga umhverfið með þessum viðbjóði aftur. Þetta er bara allt of hrottalega ljótt - miklu verra en það var 1994.

Þú veist það að tískubylgjur eru ljótar og hallærislegar þegar þú áttar þig á því að þær séu það um leið og þær koma út. Búningarnir hérna fyrir neðan virka sumir 10 sinnum ógeðslegri en þeir voru á sínum tíma og það er nú ekkert smá afrek.

Auðvitað eru sumir af þeim klassík, en aðrir eru mannréttindabrot. Og það vantar meira að segja nokkra af þeim ljótustu í þetta safn.