Showing posts with label Wizards. Show all posts
Showing posts with label Wizards. Show all posts

Friday, May 19, 2017

Allt um aðra umferð úrslitakeppninnar


Þegar úrslitakeppnin í NBA er upp á sitt versta, er hún dálítið eins og pizza. Oft fær maður pizzu sem er ekkert spes, en pizza er alltaf pizza og hún slær á hungrið og veitir einhverja (litla) næringu, þó hún sé kannski ekki best í heimi í það skiptið. Það má alveg eins setja kynlíf inn í þessa jöfnu í stað flatböku, fyrir þau ykkar sem borða ekki flatbökur.

Við ætlum að vona að einhver ykkar lesi NBA Ísland að staðaldri af þvi þið treystið því að við segjum ykkur sannleikann um deildina okkar. Við reynum alltaf að gera það - vera samkvæm sjálfum okkur og kalla endur endur og erni erni.

Og það þarf enga sérfræðinga til að segja ykkur að úrslitakeppnin í NBA 2017 er búin að vera afskaplega döpur og ef við eigum að vera alveg hreinskilin, er þetta mögulega ein slappasta úrslitakeppni sem við munum eftir á seinni árum.

Það þurfti hvorki Nasa-starfsmenn né Nóbelsverðlaunahafa til að spá því strax í haust að líklega ættum við eftir að fá lokaúrslit með sömu liðunum þriðja árið í röð. Cleveland færi þangað þriðja árið í röð af því það spilaði í Austurdeild sem var svo mikið drasl að ekkert lið gæti ógnað því.


Golden State kæmist ekki hjá því að komast þangað eftir að það bætti Kevin Durant í leikmannahóp sinn - og þá alveg sama hvort það yrðu meiðsli í herbúðum liðsins eins og á síðustu leiktíð eða ekki. Já, margir urðu hreinlega reiðir og sögðu að tímabilið væri ónýtt og kenndu Kevin Durant helst um allt saman. 

Því miður gengu þessar spár eftir í deildarkeppninni, því Golden State fræsti sig í gegn um deildarkeppnina og náði besta árangri allra liða í deildinni með lítilli fyrirhöfn, þó San Antonio hafi þó veitt því sæmilegt aðhald lengst af í vetur. 

Og þessar leiðindaspár hafa mestmegnis gengið eftir í úrslitakeppninni, því þegar þetta er ritað, eru Golden State (10-0) og Cleveland (9-0) enn taplaus í úrslitakeppninni og hafa ekki aðeins verið miklu betri en allir andstæðingar sínir, heldur hafa þau líka verið miklu heppnari en andstæðingarnir (með meiðsli). 

En ætlun okkar með þessum pistli er ekki að greina undanúrslitin eða úrslitin, það kemur síðar, heldur ætlum við að renna stuttlega yfir hvað gerðist í annari umferð úrslitakeppninnar. Og já, við erum í alvörunni að spá í að reyna að gera þetta stuttlega að þessu sinni, þó þessi langloka okkar hérna í byrjun gefi sannarlega merki um eitthvað allt annað.*

Látum okkur sjá. Byrjum fyrir austan eins og venjulega:



CLEVELAND 4 - TORONTO 0

Andstæðingar Cleveland í austrinu eru löngu búnir að gera sér grein fyrir því að það útheimtir ákveðna auðmýkt að mæta LeBron James og félögum í úrslitakeppninni. Toronto-liðið er eitt þessara liða og eftir þessa nýjustu rimmu þessara liða er lúbarinn og vælandi hundur, liggjandi á götunni, fyrsta myndlíkingin sem kemur upp í hugann þegar við hugsum um þetta einvígi.

Við vitum vel að Kyle Lowry var meiddur og missti af megninu af seríunni. Hann er besti leikmaður Toronto og því vantar að sjálfssögðu ansi mikið í Kanadaliðið ef hans nýtur ekki við. Vitið þið hvað? Það skiptir samt ekki nokkru einasta helvítis máli. 

Þetta Toronto lið - sem var meira að segja búið að sækja sér liðsstyrk sem átti að hjálpa til við að veita Cleveland meiri keppni - hafði aldrei, aldrei trú á því að það gæti unnið Cleveland. Ekki einu sinni í sínum villtustu draumum.

Og þetta fundu James og félagar, sem voru byrjaðir að leika sér að Toronto liðinu eins og háhyrningar að vönkuðum selskóp þegar aðeins örfáar mínútur voru liðnar af leik eitt. 


Það var hreinlega átakanlegt að horfa upp á þetta. Toronto liðið var ekki jafn vonlaust og karakterslaust og Atlanta hér um árið, en við vorkenndum Snareðlunum frá fyrsta leik. Þær höfðu ekkert í þessa rimmu að gera og hefðu alveg eins getað setið heima.

Það er eitt að tapa seríu, annað að gera sig nánast að fífli. Það er stór munur þarna á, eins og við munum koma að síðar í þessum pistli. Sóp er ekki endilega það sama og sóp, sjáið þið.

Nú eru gríðarlega stórar ákvarðanir á döfinni hjá Toronto. Forráðamenn félagsins þurfa að ákveða hvort þeir ætla að framlengja samningana við nokkra af lykilmönnum sínum, þar sem Kyle Lowry og samningurinn hans stendur auðvitað hæst. 


Toronto er nú þegar með 7. hæsta launakostnaðinn í NBA deildinni en ef félagið ætlar að framlengja við alla sína menn, fer það svo hátt yfir launaþakið að það þyrfti líklega að borga lúxusskatt sem nemur launakostnaði 2-3 félaga í viðbót. Það gefur augaleið að það er ekki raunhæfur valkostur og þó ekki væri nema bara þess vegna, er augljóst að breytinga er að vænta hjá Toronto.

Auðvitað eru stuðningsmenn Toronto og ansi margir hlutlausir í netheimum, löngu byrjaðir að öskra upphátt og heimta að forseti körfuboltamála hjá félaginu Masai Ujiri sprengi liðið algjörlega upp og byrji upp á nýtt. 

Flestir tippa á að Dwane Casey þjálfari verði látinn fara í sumar (persónulega erum við nokkuð hissa á því að hann skuli enn halda starfi sínu) og að Raptors verði með duglegri félögum á markaðnum í sumar. Gallinn er bara að það lítur enginn við mannskapnum hjá þeim og tæki sennilega ekki við honum gegn greiðslu.

Útlitið hjá Toronto er ekki alveg svart, það eru nokkrir ungir leikmenn í hópnum sem gefa einhverja ástæðu til bjartsýni, en það er ljóst að aðalliðið hans Casey með þá Lowry og DeRozan í fararbroddi, er bara ekki að gera sig þegar kemur að úrslitakeppni, þó þeir vinni 50 leiki í svefni í deildarkeppninni.

Hér komum við að þessari sígildu spurningu sem alltaf er fyrst fram á varirnir þegar kemur að því hvort félög eiga að halda baráttunni áfram með óbreytt lið eða stokka allt upp á nýtt. Það er hvort félagið treystir sér til þess að bjóða stuðningsmönnum sínum upp á þau óhjákvæmilegu ár sem framundan eru ef taka á ákvörðun um að byrja upp á nýtt. 



Og félög á borð við Toronto eru einfaldlega mjög rög við að fara út í svo drastískar aðgerðir, af því forráðamenn félagsins muna enn allt of vel hvernig það var að vera skítalið sem enginn tók alvarlega, átti enga aðdáendur alþjóðlega, enga stjörnuleikmenn og aldrei komst í úrslitakeppnina. 

Á þessum ógeðslega stað var Toronto um árabil og rétt eins og er með LA Clippers og við sögðum ykkur frá í vesturhelmingi uppgjörsins um 1. umferðina, eigum við erfitt með að sjá að stjórn Toronto hafi kjark í að fara í dramatískar aðgerðir þegar hún er með 50 sigra lið í höndunum - alveg sama hversu ógeðslega LeBron James niðurlægir það á hverju einasta vori. 

Það er ekki eins og þetta sé eitthvað skemmtileg staða sem þeir eru í, aumingja Toronto-mennirnir. Það er ekki víst að sé ljós í enda ganganna, hvora leiðina sem þeir velja.

BOSTON 4 - WASHINGTON 3

Einvígi Boston og Washington átti fátt sameiginlegt með jarðarförinni í Toronto, því fyrir það fyrsta voru þar á ferðinni tvö körfuboltalið sem voru áþekk að styrkleika. Munurinn á liðunum var bara tvíþættur þegar upp var staðið - og allt hugsandi fólk gat sagt sér það fyrir einvígið - Boston var með heimavallarréttinn og var, öfugt við Washington, með körfuboltamenn á varamannabekk sínum sem voru með mælanlegan púls.

Sunday, November 29, 2015

NBA vertíðin fer ekki eftir handritinu í haust


... og Golden State vinnur allt, alltaf. Þannig er helst að lýsa meisturum Warriors þessa dagana. Fólk er að verða hætt að nenna að tala um þá, þeir eru svo góðir. Það eina sem þeir gera er að slá met og vinna körfuboltaleiki, en ef maður er atvinnumaður eða kona í körfubolta á annað borð, er svo sem ekki galið að verja tíma sínum í þetta tvennt.

Nú síðast settu Stríðsmennirnir ungu nýtt NBA met með því að salla fimmtán þristum (úr fokkíngs 20 tilraunum) og 75 stigum í andlitið á aumingja Phoenix í fyrri hálfleik viðureignar liðanna í nótt. Slökuðu svo á í seinni og luku leik með "aðeins" 22 þrista, sem er félagsmet á þeim bænum og aðeins einum þristi frá NBA metinu í eigu Orlando (2009) og Houston (2013).


Þetta met yfir flesta þrista liðs í leik er líklega eitt ótryggasta metið í NBA í dag, því Warriors-liðið er búið að vera í svo miklu stuði að við höfum á tilfinningunni að það sé dagaspursmál hvenær það slær þetta met.

Hvað ætti til dæmis að aftra Steph Curry frá því að salla 15 þristum á Sacramento í nótt? Vinur hans Klay Thompson skoraði 37 stig í einum leikhluta á Kings í fyrra - því ætti Steph ekki að geta sett tíu þrista í einum leikhluta á móti liði sem hefur ekki hugmynd um hvað það er að gera? Ætti að vera kinderspiel.



Skotin sem Stephen Curry er að setja niður eru sum hver bara móðgandi. Sjáðu til dæmis bull-skotið sem hann setti í grillið á vesalingnum honum Ronny Price hérna fyrir ofan. Þetta er nákvæmlega ekkert kirkjurækið við þetta hjá þér, Steph. Þetta er dónaskapur.

Hvurn fjandann eigum við svo sem að segja um þetta Warriors-lið sem hefur ekki þegar verið sagt? Við gætum sýnt ykkur skotkortið hans Steph Curry eins og það lítur út í dag, en þið mynduð örugglega halda að við hefðum fótósjoppað það af því það er svo mikið endemis rugl. Nema þér finnist svona hittni kannski bara eðlileg (rautt þýðir hittni undir meðaltali í deild frá viðkomandi svæði á vellinum, gult þýðir c.a. meðaltal í deildinni en grænt þýðir yfir meðaltali - við erum búin að fara oft yfir þetta. Tölfræðin sýnir okkur sumsé að Curry sé að "yfir meðaltal-a yfir sig" í nóvember.
























Þá gætum við prófað að bjóða upp á stutta draugsýn frá leik Warriors og Suns í nótt, svona til að brjóta þetta aðeins upp meðan við pælum í því hverju þetta lið tekur upp á næst.



Eins og þið vitið erum við alltaf að taka stöðuna í NBA deildinni fyrir ykkur og því er óhjákvæmilegt að við séum stundum að tyggja það sama aftur og aftur. Golden State er t.d. að verða tugga af því það vinnur alltaf.

Í ljósi þess hve stutt er síðan við tókum síðustu vörutalningu (og hvað við erum húðlöt) ætlum við frekar að skrifa hérna niður nokkra hluti sem vakið hafa athygli okkar í NBA deildinni undanfarna daga. Það er nefnilega fjandi margt og sumpart áhugavert.

Það merkilegasta við fyrsta mánuðinn á leiktíðinni er að sjálfssögðu sú staðreynd að Golden State sé búið að gleyma því hvernig á að tapa (þegar þetta er ritað eru nákvæmlega tíu mánuðir síðan liðið tapaði síðast heimaleik í deildarkeppninni, sem er eðlilegt).


Án þess að vera með neikvæðni og leiðindi, skulum við ekki gleyma því hvað NBA deildin er grimm og vægðarlaus. Lögmál Murphys er alltaf í gildi og hversu oft höfum við ekki séð lið sem eru á löngum sigurgöngum detta á andlitið ofan í drullupoll þegar þeim skrikar aðeins fótur?

Það er nefnilega svo skondið að Golden State, sem tapaði aðeins 15 leikjum á síðustu leiktíð, tapaði fjórum sinnum tveimur leikjum í röð.

Og þessi fjögur "tvítöp" komu eðli málsins samkvæmt eftir góðar sigurgöngur, sem er dálítið sérstakt. Sum þeirra höfðu beint með leikjaröðina að gera (t.d. tveir erfiðir útileikir í restina af löngu keppnisferðalagi), en önnur ekki.

Og hvað erum við að fara með þessu? Jú, ef Warriors myndi hiksta aðeins og endurtaka leikinn í næstu viku - tapa tveimur í röð - myndi muna nákvæmlega einum leik á þeim og San Antonio.

Einum fjandans leik.

Það er svona viðbjóðslega stutt á milli í þessu og leikmenn Warriors vita það 100% þó sumir þeirra hafi ekki mikla reynslu.

Eitt af því fyrsta sem þú kemst að þegar þú byrjar að spila í NBA, er nefnilega að loksins þegar hlutirnir byrja að meika sens og allt fer að verða gaman, áttu leik við San Antonio og þá fer allt umsvifalaust til helvítis í handtösku. San Antonio neyðir þig til að spila sinn leik og tekur þig í leiðinni gjörsamlega út úr þínum leik.

Saturday, May 16, 2015

Washington er komið í sumarfrí


Paul Pierce fer rosalega mikið í taugarnar á okkur og hefur alltaf gert og við höfum aldrei reynt að leyna því. Þess vegna fellu engin tár hér á ritstjórninni í kvöld þegar lokaskotið hans var flautað af í sjötta leik Washington og Atlanta. Okkur finnst það ekki einu sinni leiðinlegt. Þetta var nú einu sinni hárréttur dómur.



Pierce var að vanda dramatískur í leikslok og sagðist alls ekki viss um að hann ætlaði að halda áfram að spila körfubolta á næsta ári. Það er svo sem ekki mikið að marka hvað menn segja þegar þeir eru nýdottnir út úr úrslitakeppninni með þessum hætti, en Pierce er náttúrulega búinn að vera atvinnumaður í körfubolta alveg síðan 1998 og því er eðlilegt að hann fari að horfa í kring um sig eftir dvalarheimilum.

Nei, við vorkennum Pierce ekki neitt, bæði af því við þolum hann ekki og af því hann kallaði þetta yfir sig með hrokanum sem hann sýndi í síðustu tveimur leikjum, þegar hann nánast gerði sig að fífli með innistæðulausum yfirlýsingum. 

Jú, jú, þú varst voða góður í úrslitakeppninni Paul. Þú hækkaðir stigaskorið þitt um fjögur stig, skaust 54% úr þristum gegn Atlanta og skoraðir eina flautukörfu, en þú klikkaðir líka á ögurstundu í tveimur öðrum leikjum og í kvöld kostaði það sumarfrí.

En Paul Pierce er sannarlega ekki upphafið og endirinn að öllu hjá þessu Washington-liði, jafnvel þó hann virðist hafa verið eini maðurinn þar á bæ sem hafði kjark í að taka stóru skotin. 

Framtíð Wizards er í höndum John Wall og Bradley Beal og ef þetta lið nær lengra en þetta næstu ár, verður það af því þeir leiða það þangað. Lið sem er með svona ungt og efnilegt bakvarðapar ætti að vera í ágætismálum, en þetta er ekki alveg svo einfalt. 

Eins og áður sagði er óvíst hvort slúttari liðsins heldur áfram að spila með því á næstu leiktíð, en það er svo sem allt í lagi, því það er kominn tími til að þeir Wall og helst Beal fari sjálfir að axla þá ábyrgð.

Marcin Gortat er ágætismiðherji en það er spurning hvort hann hentar í nútíma NBA, þar sem allt gengur út á að stórir menn geti bæði sent og skotið. og Nene er bara farþegi sem þiggur laun hjá félaginu. Hann var afleitur í úrslitakeppninni og það er kominn tími til að fara að kalla hann réttu nafni - hann er bara lúser og hefur aldrei verið neitt annað. Hann hvarf eins og venjulega þegar liðið hans þurfti á honum að halda og var til að mynda áttundi stigahæsti maður Wizards í úrslitakeppninni.

Þeir Gortat og Nene eru fyrirferðamiklir í teignum en þeir náðu ekki að vera neitt meira en það á móti Atlanta, því ekki náðu þeir að nýta sér sentimetra og kílóamuninn sem var á þeim og framlínu Atlanta, sem er ein sú líkamlega nettasta í deildinni.

Eins og við sögðum ykkur um daginn, koma veikleikar allra liða í ljós í úrslitakeppninni og sú varð raunin með Washington. Alveg nákvæmlega. Það sem við vitum núna er að Nene er rusl, liðið vantar nýjan slúttara og breiddin í þessu liði er minni en talið var (nánar tiltekið, nánast engin).

Það hefur verið í tísku í að minnsta kosti tvö ár að segja brandara um það hvað Randy Wittman þjálfari Washington sé ekki starfi sínu vaxinn. Við höfum ekki hundsvit á því, en þetta lið náði nokkurn veginn eins langt í úrslitakeppninni og reiknað var með. Það er ekki útilokað að klókari þjálfari hefði fundið leiðir til að færa sér veikleika Atlanta betur í nyt, en það skiptir engu máli núna.

Washington hefði líka alveg verið til í að sleppa við það að John Wall mölvaði á sér hendina svo hann gæti nú spilað á fullu gasi í úrslitakeppninni, en það þýðir ekkert að velta sér upp úr því heldur, það eru allir meiddir í þessari úrslitakeppni - alltaf.

Það verður sumsé áhugavert að fylgjast með þessu Washington-liði næstu ár, en það verður þá nánast eingöngu vegna þeirra Wall og Beal. Annað er ekki að frétta af höfuðborgarklúbbnum að þessu sinni.

Thursday, May 14, 2015

Allt um stöðu mála í úrslitakeppninni


Hvergi koma veikleikar körfuboltaliða jafn átakanlega í ljós og í úrslitakeppninni, þegar þjálfarar andstæðinganna reyna að nýta sér hvern einasta millimetra sem þeir hafa á þig. Það sem sagt kemst fljótlega upp um þig ef þú ert ekki alvöru í úrslitakeppninni.

Flest liðanna sem eru nú að bítast í annari umferðinni áttu nokkuð náðug einvígi í þeirri fyrstu, en núna er allt annað uppi á teningnum. Núna snýst allt um tommurnar sem Al Pacino talaði um forðum.

Og af því þessir veikleikar eru stundum dálítið áberandi hjá liðum þegar komið er fram í fjórða og fimmta leik í einvígi, hættir okkur til að hrökkva í neikvæðnigírinn og fara að velta okkur upp úr því sem upp á vantar hjá liðunum í stað þess að skoða hvað þau gera vel. Við erum svo sem ekki ein um að sjá glasið svona hálftómt - Twitter er t.d. miskunnarlaus vélbyssa sem hlífir engum.

En við skulum hætta að velta okkur upp úr þessu og kíkja aðeins á það hvað er að gerast í rimmunum fjórum sem eru í gangi í úrslitakeppninni, þar sem staðan er svona þegar þetta er skrifað:



Eins og þið munið kannski, var staðan 1-1 á öllum vígstöðvum eftir fyrstu tvo leikina og var það í fyrsta skipti í ansi mörg ár sem sú staða kom upp eftir tvo leiki í 2. umferðinni, sem var nokkuð óvænt. Nú eru hinsvegar búnir fimm leikir í öllum rimmum og þá eru línur oftast farnar að skýrast nokkuð vel.

ATLANTA (3) - WASHINGTON (2)

Atlanta hafði heilladísirnar sannarlega á sínu bandi í nótt þegar það vann nauman 82-81 sigur á Washington á heimavelli sínum í fimmta leik.

Atlanta tapaði boltanum 23 sinnum í leiknum og skaut innan við 23% úr þriggja stiga skotum en vann samt, sem er ekkert annað en heppni í bland við góða baráttu.

Við leyfum okkur að fullyrða að Atlanta muni ekki vinna annan leik það sem eftir er í úrslitakeppninni með svona spilamennsku.

Það sem vakti helst athygli okkar í þessu einvígi var hvað Washington-liðið var fullt af góðum anda nánast allan leikinn.

Það hleypti óneitanlega fjöri í liðið að fá John Wall aftur inn og hann fær mörg rokkstig fyrir að ákveða að spila þrátt fyrir handarmeiðsli.

En Wall gerði meira en að spila, hann stýrði leik Wizards eins og herforingi og það er ekki hægt annað en öfunda Washington af bakvarðaparinu unga - honum og Bradley Beal - sem voru báðir frábærir í þessum leik.

Það sama verður ekki sagt um Nene frænda þinn, sem ákvað að vera Lélegi Nene í nótt og það hjálpaði Washington ekki neitt. Annað sem hjálpar liðinu ekki er að það er að spila á færri mönnum en LA Clippers, sem er ekki til eftirbreytni.

Það var eiginlega alveg magnað við þennan leik að okkur þótti Washington vera með hann í hendi sér nánast allan leikinn og sjálfstraustið geislaði af liðinu - sérstaklega bakvarðaparinu unga.

Paul Pierce hélt að hann hefði tryggt Washington sigur í leiknum með þriggja stiga körfu rétt fyrir leikslok, en eins og flest ykkar sáu, voru það Al Horford og heilladísirnar sem kláruðu leikinn þegar innan við tvær sekúndur voru eftir og Washington búið með leikhléin sín.

Við neyðumst víst til að hrósa Atlanta liðinu fyrir að hafa klárað þennan leik, en við finnum satt best að segja talsvert færri hluti til að hrósa Atlanta fyrir en Washington.

Atlanta vann 60 leiki í vetur og á auðvitað ekki að vera í svona rosalegum vandræðum með lið sem vann ekki nema 46 leiki.

Eini maðurinn sem okkur langar að hrósa hjá Atlanta er Al Horford og það er ekki af því hann skoraði sigurkörfuna eftir sóknarfrákast. Það er meira af því hann skoraði 23 stig, hirti 11 fráköst og varði 5 skot í leiknum og var langbesti maður Atlanta.

Það kom upp úr kafinu eftir leikinn að Mike Budenholzer þjálfari (ársins) Atlanta teiknaði lokaleikkerfið upp fyrir Dennis Schröder, sem er eitthvað sem við bara föttum ekki.

Schröder er vissulega fljótur og góður að komast fram hjá manninum sínum, en þar með er það upptalið. Hann getur ekki skotið til að bjarga lífi sínu og þó hann virðist vera mjög hugrakkur, finnst okkur stórfurðulegt að Jeff Teague hafi ekki verið látinn slútta þessu.

Washington getur huggað sig við að næsti leikur eru á heimavelli, þó það hafi reyndar ekki spilað sérstaklega vel þar í úrslitakeppninni síðustu tvö ár. Það kæmi okkur á óvart ef Wizards næði ekki að klóra þetta í oddaleik.

Sunday, April 19, 2015

Dagur eitt


Já, úrslitakeppnin í NBA byrjaði svo sannarlega í gærkvöldi. Fjórir leikir voru á dagskrá hver á eftir öðrum, svo þeir hörðustu gátu horft á hálfan sólarhring af úrvalsefni.

Kannski er það dálítið rausnarlegt að kalla Toronto-Washington úrvalsefni, við nenntum amk ekki að horfa á það. Þetta er ein af þessum rimmum sem fara í taugarnar á mörgum af því það er skandall að annað þessara liða fari í aðra umferð úrslitakeppninnar á meðan Clippers eða Spurs fara snemma í sumarfrí. Það er glóraulaust.

Kaldhæðnislegt að það skuli hafa verið Paul Pierce öðrum fremur sem kláraði þennan leik fyrir Wiz, því eins og þið munið, gerði hann Kanadaliðinu erfitt fyrir í fyrstu umferðinni í fyrra líka (sem leikmaður Nets). Það er annars ekki langt á milli í þessu, því framlengja þurfti leikinn til að ná fram úrslitum. Boltinn hefði svo auðveldlega geta skoppað fyrir Toronto í þessu, en því var ekki fyrir að fara að þessu sinni og því þarf Toronto að sætta sig við þungt tap á heimavelli og er með alla pressuna á sér núna.

Golden State kláraði það sem það þurfti að gera í fyrsta leik gegn New Orleans, þó gestirnir hafi sýnt ljómandi fína baráttu með því að koma sér aftur inn í leikinn í fjórða leikhluta eftir að hafa verið um 25 stigum undir á kafla. Brúnar var lengi í gang en skoraði 20 stig í lokaleikhlutanum og sýndi okkur enn og aftur hvað hann getur gert hvað honum sýnist.

Það er ekki gott að segja hvor tölfræðin er fáránlegri - að Stephen Curry hafi aðeins hitt úr fjórum af þrettán 3ja stiga skotum sínum eða þegar hann hitti aðeins úr fjórum af sjö vítaskotum í leiknum. Kannski bara smá skjálfti í fyrsta leik í úrslitakeppni þar sem þessir piltar eru nú að upplifa það í fyrsta skipti á ferlinum að fara þangað með miklar væntingar.

Curry skoraði kannski 34 stig í leiknum en menn leiksins hjá Dubs voru Andrew Bogut og Draymond Green. Þvílíkir meistarar, varnarmenn og spilarar. Þeir voru með 13/13/6/2/2 meðaltal í leiknum. Það verður ekkert betra. Golden State er búið að ná úr sér hrollinum núna og ætti að bruna í geng um þessa seríu. Meiðsli Tyreke Evans hjá New Orleans hjálpa ekki mikið, en varnarleikur liðsins var mjög oft glæpsamlega lélegur. Þeir eiga eftir að laga það eitthvað, en það var hálf neyðarlegt að sjá þá leyfa Dubs að fá sniðskotaæfingu á körfuna hjá sér hvað eftir annað.

Golden State ræður því algjörlega sjálft hvað þessi rimma endist lengi, en vonandi fáum við að sjá fleiri túrbó-tilþrif frá Brúnari áður en hún klárast.


Chicago lokaði Milwaukee eins búist var við en það sem vakti mesta athygli við þann leik var hvað Derrick Rose spilaði vel. Það eru fallegar fréttir bæði fyrir Bulls og stuðningsmennina. Við höfum gríðarlega mikið að segja um þetta einvígi eins og þið sjáið. Kidd heldur áfram að krúttast með þessa krakka sína og það er fínt fyrir þá að fá að tapa aðeins í úrslitakeppninni áður en þeir verða fullorðnir. Það gerði þjálfarinn þeirra á sínum ferli og það reyndist honum ljómandi vel

Houston varði líka heimavöllinn sinn með nokkuð öruggum sigri á grönnum sínum í Dallas. Fegurðin við þann leik frá bæjardyrum Houston var að liðið skuli hafa unnið sigur þrátt fyrir að Josh Smith hafi tekið fleiri skot en James Harden í leiknum og Corey Brewer tók reyndar jafnmörg skot og Skeggið. Harden lét sér nægja að spila félaga sína uppi það fer honum ljómandi vel.

Ef menn eins og Jason Terry, Josh Smith og Corey Brewer ætla að fara hitta körfuboltum ofan í körfur að staðaldri í þessu einvígi, á Dallas ekki möguleika. Við skulum þó ekki dæma Dallas úr leik strax, það er með allt of reynda leikmenn og klóka þjálfara til að láta pakka sér saman.

Fegurðardísin Chandler Parsons hjá Dallas virðist ekki ætla að geta beitt sér í þessari seríu vegna hnémeiðslanna sem hafa verið að angra hann og það er frekar vont mál fyrir Dallas sem veitir ekki af skotmönnum í þessu.

Eftir fyrsta keppnisdaginn í úrslitakepppninni stendur það líklega upp úr að hafi ekki meiðst nema tveir leikmenn allan daginn. Við óskum Parsons og Evans að sjálfssögðu skjótasta og besta bata sem völ er á. Þeir eru báðir sterkir og mikilvægir liðum sínum.

Þá er bara að sjá hverjir meiðast í næstu kippu af leikjum. Það er svo spennandi að fylgjast með því. Svona eins og að fara yfir lottómiðann sinn á meðan dregið er út í sjónvarpinu.

Thursday, May 15, 2014

Indiana heldur áfram að spila lélegan körfubolta


Það er ekki þannig að okkur langi beinlínis að skrifa eitthvað um Indiana Pacers, en við getum bara ekki hamið okkur eftir fimmta leik liðsins gegn Washington í fyrrakvöld. Leikmenn Indiana höfðu á einhvern óskiljanlegan hátt náð að snúa einvíginu sér í hag eftir að hafa drullað á sig heima í fyrsta leiknum. Þeir náðu að vinna næstu þrjá leiki og setja einvígið í "þett´er búið"-status.

En bíddu við...  ekki alveg.

Eins og þið vitið örugglega flest, skeit Indiana svo hrottalega á sig í fyrrakvöld að menn þurfa að leita djúpt í annála til að finna annað eins hrun hjá einu liði - sérstaklega þegar kemur að fráköstunum. Washington - liðið á útivelli - vann frákastabaráttuna 62-23! Þetta er einhver mesti munur sem sést hefur síðan mælingar á þvíumlíku hófust.

Við skulum ekki taka neitt af Washington-mönnum, þeir stóðu sig ljómandi vel undir forystu pólska Hamarsins Marcin Gortat (31/16) og hafa ótrúlegt en satt unnið fimm af sex útileikjum sínum í úrslitakeppninni en eru aðeins 1-3 á heimavelli.

Wiz hafði fyrir einvígið tapað tólf leikjum í röð í Indiana, en líður núna ljómandi vel þar. Ef svo fer sem horfir, gæti það meira að segja fengið að kíkja þangað í oddaleik um helgina.

Jón og séra Jón, Pétur og Páll, skrattinn og amma hans eru öll búin að skrifa um vandræðaganginn á Indiana í vor, en fæstir færa almennileg rök fyrir því hvernig stendur á þessu hruni.

Sumir segja að það sé af því Paul George tók þá kjarneðlisfræðilegu ákvörðun að senda myndir af æxlunarfærunum á sér á internetið, sumir segja að þetta snerti móral í kring um framhjáhald, sumir segja að þetta sé út af eigingirni og frekju með skot og spilatíma, sumir segja að þetta sé út af Andrew Bynum og/eða Gunnari Birgissyni (Evan Turner) og enn aðrir af því þeir eru orðnir svo þreyttir á þvi að fólk haldi að Michael Rapaport sé hæfur leikari.*

Við nennum sko ekki að velta okkur upp úr því hvur fjandinn er að valda vandræðum Indiana, en ljóst er að það er eitthvað meiriháttar að og það verður ekki lagað í miðri úrslitakeppni - okkur er alveg sama hvað hver segir.

Andinn, baráttan, einingin og varnarleikurinn sem einkenndu þetta lið eru allt nema fokin út í veður og vind og eftir stendur risastór og mengaður drullupollur.

Það er ómögulegt að segja hvað gerist í 1-2 síðustu leikjunum í einvígi Indiana og Washington, en okkur er til efs að liðið sem stendur í lappirnar eftir það slöggfest eigi eftir að hanga lengi í Miami - jafnvel þó Miami sé sjálft í basli og langt frá sínu besta þessa dagana.

Þessi historíska skita hjá Indiana fékk okkur til að spóla til baka og reyna að muna eftir fleiri liðum sem voru með allt niður um sig.

Okkur dettur einna helst í hug meistaralið Miami frá árinu 2006-07, sem árið eftir að vinna titilinn skeit gjörsamlega upp á bak og lét Chicago Bulls sópa sér úr keppni í fyrstu umferðinni.

Það var skammarleg frammistaða hún hefur sennilega verið verri en niðurgangurinn sem Brooklyn bauð upp á í úrslitakeppninni í fyrra.

En þessi frammistaða Indiana núna, er alveg sér á parti. Við höfum aldrei séð annað eins og vonum að við eigum ekki eftir að sjá það aftur. Og því miður fyrir aumingja Larry Bird, þarf hann líklega að gera fullt af breytingum á liðinu sínu í sumar. Liðinu sem hann hélt að væri að smella svona skemmtilega saman hjá honum. Aumingja Larry.

Monday, May 12, 2014

Frúin hlær á betri Beal


Þetta er mamma hans Bradley Beal hjá Washington Wizards. Og nei, við vorum ekkert að fótósjoppa hana eða nafnið hennar. Hún heitir í raun og veru Besta Beal. Það er ekki hægt að skálda svona! Hún er dálítið stórskorin blessunin, en líklega með Besta nafnið í bransanum. Þetta er efniviður í orðaleikjabrandara héðan og til ársins 2068. Svona eins og að pæla í því hvort gárungarnir kalli fjölskylduna Besta Flokkinn...


Tuesday, November 27, 2012

Saturday, March 10, 2012

Kwame Brown á afmæli í dag


Ólíkindatólið Kwame Brown á stórafmæli í dag. Hann er nefnilega þrítugur. Hammó með ammó, Kwame.

Kwame Brown var valinn númer eitt í nýliðavalinu árið 2001 og öruggt er að hans verður minnst sem eins lélegasta leikmanns sem tekinn hefur verið fyrstur í valinu.

Það var enginn annar en Michael Jordan sem tók hann þegar þeir voru hjá Washington á sínum tíma. Jordan hefur ekki riðið feitum hesti á skrifstofunni síðan hann hætti að spila en Brown er í úrvalsliði axarskafta hans, á því leikur enginn vafi.

Mörgum leikmönnum sem teknir hafa verið númer eitt í nýliðavali NBA hefur mistekist að standa undir pressunni sem fylgir í kjölfarið og sumir þeirra eru hreinlega ekki góðir í körfubolta. Hann Kwame ræfillinn er einn þeirra.

Hann hefur einu sinni skoraði meira en 10 stig að meðaltali í leik á þessum áratug sínum í deildinni. Einu sinni hirt meira en sjö fráköst og einu sinni spilað meira en 30 mínútur. Hann er rulluspilari með takmarkaða getu.

Við myndum gefa Kwame aksjón-fígúru af honum sjálfum ef við gæfum honum afmælisgjöf. Hún lítur út fyrir að vera með betri hendur en fyrirmyndin og ætti ekki að kosta mjög mikið.

Saturday, January 28, 2012

Aðför að lífsgæðum


Úkraínska þáttaröðin "Draugar fortíðar" fjallar um áhrif geigvænlegrar ofnotkunar skordýraeiturs á árangur rúmenska landsliðsins í bridge á árunum 1932-33. Um er að ræða 28 heimildaþætti sem hver um sig er 90 mínútur á lengd og ótextaður.


















Að vinna átján tíma vaktir í Álnabæ í samfleytt 209 vikur án þess að fá einn einasta frídag.




















 Að þvo þessa bíla, bóna þá og aka svo hverjum einasta frá Gdańsk í Póllandi til Grenivíkur.



















Lesa Biblíuna afturábak á tælensku án þess að móðga femínista og útskýra í 600 blaðsíðna ritgerð þann glundroðakennda samhljóm sem finna má í Opinberunarbókinni og kenningum Werner Heisenberg.



























Ofangreind atriði eru dæmi um hvað heppilegra væri að taka sér fyrir hendur á laugardagskvöldi, frekar en að horfa á leik Charlotte Bobcats og Washington Wizards. Við vörum eindregið við þessum leik. Hann er aðför að lífsgæðum.

Thursday, January 5, 2012